Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 6.-12. febrúar, vika 6, 2023

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu vefsjánni

Um 400 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, nokkuð fleiri en í vikunni á undan þegar um 260 skjálftar mældust. Einkennandi fyrir liðna viku voru tvær jarðskjálftahrinur, önnur út við Reykjanestá og hin í Öxarfirði. Níu skjálftar mældust yfir 3 að stærð sá stærsti var 3,6 að stærð sem mældist þann 10. febrúar kl 19:45 út af Reykjanestá. Engin skjálfti mældist í Heklu.

Suðurland

Tæplega 40 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi sem er nokkuð fleiri en í vikunni á undan. Flestir voru staðsettir á Hengilsvæðinu, sá stærsti 2,0 að stærð, staðsettur SA af Henglinum. Af þeim voru sex innan Suðurlandsbrotabeltisins, þar af einn í Vatnafjöllum. Enginn skjálfti mældist í Heklu.

Reykjanesskagi

Um 20 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, sem er aðeins færri en í síðustu viku þegar tæplega 35 skjálftar mældust. Stærsti skjálftinn mældist 2,0 SV af Sandskeiði. Flestir skjálftar mældust milli Trölladyngju og Kleifarvatns, þrír skjálftar mældust á norðvesturhluta Reykjaness og einn smáskjálfti NA af Grindavík.

Rúmlega 100 skjálftar mældust í skjálftahrinu rétt utan við Reykjanestá, hrinan byrjaði um kvöldið 10 febrúar. Í hrinunni mældust 7 skjálftar yfir 3 að stærð og stærsti skjálftinn var 3,6 að stærð og var einnig stærsti skjálfti vikunnar.

Norðurland

Um 150 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu sem er heldur fleiri en í vikunni á undan þegar um 80 skjálftar mældust. Sá stærsti mældist 3,1 að stærð og er staðsettur NV við Grímsey. Mesta virknin var á Grímseyjarbeltinu þar af yfir 110 skjálftar í Öxarfirði, sá stærsti mældist 2,5 að stærð. Tæplega 10 skjálftar mældust á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, sá stærsti 2,1 að stærð. Í minni Eyjafjarðar og norður við Eyjafjarðardjúp mældust um 10 skjálftar, þar af var einn yfir 3 að stærð og fjórir yfir 2 að stærð.

Hálendið

Rúmlega 60 skjálftar mældust á hálendinu í liðinni viku sem er aðeins færri en í vikunni á undan. Af þeim voru 16 staðsettir innan Vatnajökulssvæðisins, þar af sjö skjálftar í Bárðabungu, sá stærsti 3,2 að stærð sem er jafnframt stærsti skjálftinn á Hálendinu þessa vikuna. Fjórir skjálftar mældust í Grímsvötnum sá stærsti 2,1 að stærð. Einn smáskjálfti var við Eystri-Skaftárketil.

Einn skjálfti mældist við Geitlandsjökul og sex SA af Skjaldbreið, stærsti skjálftinn mældist 2,0 að stærð. Rúmlega 10 skjálftar mældust í Öskju allir undir 2 að stærð. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust 25 skjálftar allir undir 1,5 að stærð.

Mýrdalsjökull

Um tíu skjálftar mældust í Mýrdalsjökli sem er mjög svipað og í vikunni á undan. Flestir voru innan öskjunnar í Mýrdalsjökli. Stærsti skjálftinn mældist 2,5 að stærð staðsettur norðarlega í öskjunni. Engir skjálftar mældust á Torfajökuls eða Eyjafjallajökulssvæðinu.

Skjálftalisti - Vika 6, 2023






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica