Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 27. mars til 2. apríl, vika 13, 2023

Um 390 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, færri en vikuna á undan þegar þeir voru um 470 talsins. Enginn skjálfti mældist yfir þremur að stærð í liðinni viku en stærsti skjálftinn varð rétt norðaustur af Grímsey þann 29. mars og mældist sá skjálfti 2,9 að stærð, alls hafa um 50 skjálftar mælst þar í nágrenni í síðustu viku. Smáskjálftahrina hófst við Högnarhöfða að kvöldi 31. mars og stendur enn yfir, alls hafa um fimmtíu skjálftar mælst þar á svæðinu.

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu vefsjánni

Suðurland

Virknin á Suðurlandi svipaði mjög til vikunnar á undan þar sem að um 45 jarðskjálftar voru staðsettir. Átján þeirra voru staðsettir á Hengilssvæðinu þar sem að stærsti skjálftinn mældist við Fremstadal 2,1 að stærð þann 29. mars kl. 13:52. Önnur virkni dreifðist víða um Suðurlandsbrotabeltið.

Reykjanesskagi

85 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga í liðinni viku, töluvert færri en vikuna á undan þegar um 240 skjálftar áttu sér stað. Stærsti skjálftinn mældist 2,3 að stærð um 2,5 km NA af Sýrfelli þann 27. mars kl. 21:43. Í Brennisteinsfjöllum mældist skjálfti af stærð 1,9 þann 2. mars kl. 18:14 og dreifðu aðrir skjálftar sér víða um skagann. Rúmlega tuttugu skjálftar mældust á Reykjaneshrygg og voru þeir flestir staðsettir um 6km SV af Reykjanestá.

Norðurland

Um eitthundrað skjálftar mældust á Norðurlandi í liðinni viku, um helmingi fleiri en vikuna á undan. Tæplega 60 skjálftar voru staðsettir á Grímseyjarbrotabeltinu, um 50 skjálftar um 8 km norðaustur af Grímsey þar sem stærsti skjálfti vikunnar mældist 2,9 að stærð þann 29. mars kl. 09:57 og um tíu smáskjálftar í Öxarfirði. Fimmtán skjálftar mældust á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, sá stærsti 2,2 að stærð 8 km NNV af Gjögurtá þann 2. apríl kl. 11:51. Tveir skjálftar mældust út á Kolbeinseyjarhrygg þann 2. apríl. Ellefu smáskjálftar mældust við Þeistareyki, fimm við Kröflu og fimm við Heilsdagsfjall um 10 km suðaustur af Mývatni.

Hálendið

Rúmlega 100 jarðskjálftar mældust á hálendinu í vikunni, um helmingi fleiri en vikuna á undan. Sautján smáskjálftar mældust við Herðubreið og þrettán við Öskju þar sem að stærsti skjálftinn mældist 2.8 að stærð í miðri öskjunni. Í Hofsjökli mældust tveir skjálftar undir tveimur að stærð. Við Högnhöfða mældust um fjörtíuogfimm jarðskjálftar í hrinu sem hófst í loks dags þann 31. mars og voru allir skjálftarnir undir tveimur að stærð. Stakir skjálftar mældust í Langjökli, við Þórisjökul, við Seljafjall á Snæfellsnesi og í grennd við Þórisvatn. Tuttuguogþrír skjálftar voru staðsettir í Vatnajökli, fjórir smáskjálftar í Bárðarbungu, fjórir við Skaftárkatlana og einn við Hamarinn. Tveir skjálftar mældust í Grímsvötnum, sá stærri 1,8 að stærð þann 27. mars kl. 09:52. Við rætur Skeiðarárjökuls mældust sjö smáskjálftar.

Mýrdalsjökull

Átján skjálftar mældust í og við Kötluöskjuna, sá stærsti 2,9 að stærð þann 30. mars kl. 10:14.

Einn smákjálfti af stærð 0.8 mældist í sunnanverðum Eyjafjallajökli. Einn skjálfti mældist á Torfajökulssvæðinu, 1,5 að stærð þann 28.mars.

Skjálftalisti - Vika 13, 2023




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica