Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 10. - 16. apríl, vika 15, 2023

Um 620 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðnni viku, fleiri en vikuna á undan þegar þeir voru um 450 talsins. Allir skjálftar á og við land mældust undir þremur að stærð en stærstu skjálftarnir mældust 3,0 að stærð um 230km norður á Kolbeinseyjahrygg. Um sextíu skjálftar mældust í hrinu sem hófst 15 apríl um 7 km suðvestur af Reykjanestá, þar mældist stærsti skjálftinn 2,6 að stærð. Um 140 skjálftar mældust í smáskjálftahrinu sem hófst 5. apríl rétt vestur af Herðubreið. Rúmlega fjörtíu skjálftar mældust um 1,5 km norður af Hlíðarvatni á Reykjanesskaga, stærsti skjálftinn mældist þar 2,7 að stærð. Önnur virkni var hefbundin

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu vefsjánni

Suðurland

Um 80 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni, um tuttugu þeirra voru staðsettir rétt ANA við Selfoss þar sem að stærsti skjálftinn mældist 2,1 að stærð þann 16. apríl kl. 12:32 og fannst sá skjálfti í byggð. Þrettán smáskjálftar mældust við Húsmúla. Aðrir voru á víð og dreif um suðurlandsbrotabeltið.

Reykjanesskagi

Tæplega hundraðogþrjátíu jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga í vikunni, um helmingi fleiri en vikunni á undan. Um fjörtíu skjálftar mældust rétt norðan við Hlíðarvatn og var stærsti skjálftinn þar 2,7 að stærð þann 14. apríl kl. 14:54. Aðrir skjálftar voru dreifðir um skagann.

Úti á Reykjaneshrygg mældust um 60 skjálftar í hrinu sem var staðsett um 7 km suðvestur af Reykjanestá og hófst þann 14. apríl. Stærsti skjálftinn mældist 2,6 að stærð þann 15. apríl kl. 09:26.

Norðurland

Tjörnesbrotabeltinu mældust um sjötíu skjálftar, færri en vikuna á undan þegar þeir voru um 100 talsins. Þarf af fimmtíu á Grímseyjarbeltinu og tólf smáskjálftar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Tveir skjálftar mældust út á Kolbeinseyjarhrygg og voru þeir báðir 3,0 að stærð.

Sex smáskjálftar mældust við Kröflu og tuttugu við Þeistareyki, sá stærsti 2,3 að stærð þann 11. apríl kl. 05:35 Þrír skjálftar voru staðsettir um 10 km SSV af Varmahlíð í vikunni, sá stærsti 2,2 að stærð þann 12. apríl 2023.

Hálendið

Rúmlega tuttugu skjálftar mældust í Vatnajökli í vikunni, færri en vikuna á undan þegar þeir voru um 30 talsins. Tíu skjálftar mældust í og við Bárðarbunguöskjuna, sá stærsti mældist 2,3 þann 11. apríl kl. 23:31. Tveir skjálftar mældust við Grímsvötn og einn við eystri Skaftárketil. Um tuttuguogfimm skjálftar mældust í Öskju, sá stærsti 1,8 að stærð. Um eitthundraðogfjörtíu jarðskjálftar mældust í tveimur syrpum við Herðubreið og Herðubreiðatögl, stærsti skjálftinn mældist 2,2 að stærð um kílómeter vestur af Herðubreið. Tveir skjálftar mældust norðan við Geitlandsjökul, sá stærri var 1,8 að stærð þann 15. apríl. Og tveir smáskjálftar voru staðsettir rétt sunnan við Hvítárvatn. Stakur skjálfti að stærð 1,9 mældist við Grjótavatn á Vesturlandi þann 15. apríl og átta smáskjálftar urðu í norðanverðu Rauðafelli.

Mýrdalsjökull

Í Mýrdalsjökli mældust níu skjálftar og tveir í sunnanverðum Eyjafjallajökli. Ellefu skjálftar mældust í Törfajökulsöskjunni og voru þeir flestir staðsettir um 3 km norður af Hrafntinnuskeri .ann 13. apríl.

Skjálftalisti - Vika 15, 2023


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica