Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 2.-8. janúar, vika 1, 2023

Skjálftavirkni vikunnar

Um 350 skjálftar mældust á SIL mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku og hafa allir verið yfirfarnir. Þetta eru aðeins færri skjálftar en í vikunni á undan, en þá mældust um 425 skjálftar. Mest virkni var við Reykjanestá, í Mýrdalsjökli, í Bárðarbungu og á Grímseyjarbrotabeltinu. Þrír skjálftar mældust 3,0 að stærð eða stærri: á Reykjaneshrygg 3. janúar en það var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar (3,3 að stærð), á Reykjanestá 6. janúar og í Bárðarbungu 8. janúar.

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu vefsjánni

Suðurland

Dreifð virkni var á Suðurlandi þessa vikuna. Alls mældust 47 skjálftar, allt frá Eiturhóli á Mosfellsheiði að Heklu í austri. Á Hengilssvæðinu var virkni í Húsmúla, Bitru og í Hveradölum. Nokkur virkni var á ýmsum sprungum á Suðurlandsbrotabeltinu, þar af mest á sprungunni undir Ingólfsfjalli. Í Heklu mældust þrír litlir skjálftar.

Reykjanesskagi

Á Reykjanesskaganum mældist fremur lítil virkni miðað við vikurnar á undan. Alls mældust um 80 skjálftar. Stærsti skjálftinn varð inn á athafnasvæði Reykjanesvirkjunar, 3,0 að stærð 6. janúar kl. 00:31. Þá mældist lítil hrina suður af Bláfjöllum 7. janúar. Að öðru leyti var virknin dreifð um skagann, mest þó á Kleifarvatnssvæðinu.

Áfram mældist virkni á Reykjaneshrygg, mest næst landi. Skjálftarnir mældust allir litlir, undir 2,5 að stærð. Virknin eru hrinukennd og flestir skjálftarnir urðu í tveimur hrinum, 2. janúar og 6. janúar.

Norðurland

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust rúmlega 50 skjálftar, heldur meira en í liðinni viku. Flestir eru á Grímseyjarbrotabeltinu, en nokkur virkni var einnig á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu. Aðeins mældust fjórir skjálftar á norðurhluta Norðurgosbeltisins, allir í Kröflu.

Hálendið

60 skjálftar mældust á hálendinu, heldur færri en í síðustu viku. Mest virkni var við Bárðarbungu en þar mældust alls 15 skjálftar. Einn skjálfti mældist yfir þremur, 3,3 að stærð sunnudaginn 8. janúar. Flestir skjálftanna eru staðsettir innan Bárðarbunguöskjunnar, en þrír skjálftar teygja sig til norðvesturs í átt að Dyngjufelli. Fjórir skjálftar mældust í grennd við Grímsvötn. Í Öskju og við Herðurbreið mældust tæplega 30 skjálftar. Tveir skjálftar mældust við Holuhraun. Áhugaverður skjálfti mældist við Hofsjökul 5. janúar, en engin frekari virkni hefur mælst í kjölfarið. Í Langjökli mældust þrír skjálftar, einn við Skjaldbreið og þrír við Sandfell. Þetta er mjög svipuð virkni og í síðustu viku. Við Grjótárvatn á Vesturlandi mældust 9 skjálftar, sem er óvenjulega mikið. Á landgrunninu úti fyrir Suðausturlandi mældist einn skjálfti, en þekkt er að skjálftar mælist á þessu svæði.

Mýrdalsjökull

Heldur meiri virkni mældist í Mýrdalsjökli þessa vikuna, alls 24 skjálftar samanborið við 10 skjálfta vikuna á undan. Skjálftarnir eru staðsettir á dreifðu svæði innan Kötluöskjunnar og allir minni en 2,4. Þá mældust tveir skjálftar í Eyjafjallajökli og aðrir tveir á Torfajökulssvæðinu.

Skjálftalisti - Vika 1, 2023






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica