Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 37, 9. – 15. september 2024

Í 37. viku ársins mældust tæplega 500 jarðskjálftar á mælaneti Veðurstofunnar og hafa nær allir verið yfirfarnir. Virknin er örlítið minni en vikuna á undan þegar rúmlega 570 skjálftar voru staðsettir. Eins og áður voru flestir skjálftar á Reykjanesskaga og sker Fagradalsfjall sig úr þar en virkni þar hefur verið nokkuð stöðug síðan síðasta gosi lauk á Sundhnúksgígaröðinni 5. september síðastliðinn. Aðrir atburðir sem má nefna eru þrír skjálftar í kringum 2 að stærð sem urðu á vinnslusvæði Orkuveitunnar í Hverahlíð sunnudaginn 15. september, áframhaldandi virkni við Grjótárvatn á Snæfellsnesi, skjálfti tæplega 3 að stærð í Mýrdalsjökli 9. september og skjálfti um 3 að stærð á öskjubarmi Bárðarbungu sem varð einnig 9. september.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Viðvarandi skjálftavirkni á um 6-8 km dýpi við Fagradalsfjall. Um 100 skjálftar mældust þar í þessari viku, flestir undir 1,0 að stærð. Dreifð virkni var við Kleifarvatn og örfáir skjálftar voru staðsettir austan við vatnið. Stærsti skjálftinn við Kleifarvatn var 2,2 að stærð. Úti á Reykjaneshrygg mældust nokkrir skjálftar, tveir 2,7 að stærð.

Hengill og Hekla

Þrír skjálftar í kringum 2,0 að stærð mældust sunnudaginn 15. september við Hverahlíð á Hellisheiði. Skjálftarnir eru að öllum líkindum vegna vinnslu Orkuveitunnar á jarðvarma úr Hverahlíð. Hekla minnir alltaf á sig, þar mældust tveir skjálftar í liðinni viku.

Langjökull og Snæfellsnes

Í sunnanverðum Langjökli og Þórisjökli voru nokkrir skjálftar, sá stærsti í Geitlandsjökli, 2,1 að stærð. Suður af Langjökli við Skjaldbreið var að klárast skjálftahrina sem stóð yfir frá u.þ.b. 6.-11. september. 40 skjálftar voru staðsettir þar, flestir á 3-7 km dýpi og undir 2 að stærð. Skjálftavirknin við Grjótárvatn minnti á sig en þar mældust 13 skjálftar þessa viku. Einn skjálfti mældist í Hofsjökli.

Mýrdalsjökull

Um 20 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli þessa vikuna, heldur færri en í síðust viku. Skjálftarnir dreifðust um öskjuna en tveir stærstu skjálftarnir voru norðarlega í öskjunni og voru þeir 2,8 og 2,3 að stærð. Einn skjálfti mældist sunnarlega í Eyjafjallajökli.

Vatnajökull

Rólegt var yfir Vatnajökli, en aðeins um 30 skjálftar voru staðsettir þar í þessari viku. Stærsti skjálftinn var norðarlega í Bárðarbunguöskjunni, 2,6 að stærð. Einn skjálfti varð í Grímsvötnum og þrír við Háubungu rétt suður af Grímsvötnum. Að öðru leiti dreifðust skjálfarnir um vestanverðan jökulinn. Tveir skjálftar voru staðsettir í Öræfajökli.

Askja og Herðubreið

Nokkuð líflegt var yfir Öskju og Herðubreið, en samtals voru um 100 skjálftar staðsettir þar. Allir skjálftarnir voru litlir, sá stærsti var 2,0 að stærð suðaustur af Herðubreið. Skjálftarnir hópast í nokkrar minni þyrpingar, mest áberandi er þyrping austast í Dyngjufjöllum, og svo aðrar tvær suður af Herðubreið.

Krafla og Þeistareykir

Það eru engar stórfréttir frá Kröflu eða Þeistareykjum, 6 skjálftar staðsettir í Kröflu rétt suður af Víti og þrír við Þeistareyki.

Tjörnesbrotabeltið

Á Tjörnesbrotabeltinu var lítil virkni, dreifð um brotabeltið. Stærsti skjálftinn var 1,4 að stærð rétt norðaustur af Grímsey.

Skjálftalisti viku 37






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica