Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 35, 26. ágúst – 1. september 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Á Reykjanesskaga mældust rúmlega 300 skjálftar þessa vikuna meira en helmingi færri en í fyrri viku en þá hófst eldgos NA við Stóra-Skógfell, sem stendur enn, og féll skjálftavirknin eftir að gos hófst. Mest var virknin í og við kvikuganginn við Sundhnúksgígaröðina eins og í vikunni á undan, en talsverð virkni var einnig í Brennisteinsfjöllum austan Kleifarvatns í smáskjálftahrinu þann 26. ágúst sl. Einnig var áfram nokkur virkni í Fagradalsfjalli og vestan Kleifarvatns. Á Reykjaneshrygg var mjög rólegt en einunigs 4 skjálftar mældust, stæsti 2,2 að stærð þann 31. ágúst við Eldey.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengilssvæðið

Á Suðurlandsbrotabeltinu mældust tæplega 20 skjálftar á víð og dreif um svæðið, svipað og í fyrri viku. Rúmlega 20 skjálftar mældust á Hengilsvæðinu, en í síðustu viku mældust um tíu skjálftar, Mesta virknin var við Ölkelduháls vestan Reykjadals og þar mældist stærsti skjálftinn 2,2 að stærð þann 30. ágúst sl. Sex skjálfta mældust í og við Heklu en enginn í fyrri viku.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Sex skjálftar mældust við Sandfell norðan Skjaldbreiðar í vikunni sem leið, allir undir 2 að stærð og tveir við Hofsjökul. Einnig mældist fimm skjálftar austan Grjótárvatns þann 30. ágúst og mældust þrír þeirra yfir 2 að stærð. Eru það umtalsvert færri skjálftar en í fyrri viku þegar um 20 skjálftar mældust.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði

Rúmlega 10 skjálftar mældust, allir undir tveimur að stærð og flestir dreifðir um öskjuna. Nokkuð fleiri en í fyrri viku. Á Torfajökulsvæðinu var mjög rólegt, en einungis 2 skjálftar mældust þar.

Vatnajökull

Í Vatnajökli var nokkuð meiri virkni þessa vikuna, tæplega 100 skjálftar mældust og var um helmingur þeirra við Bárðarbungu, allir skjálftar undir 3 að stærð. Hrina hófst 29. ágúst á djúpa svæðinu austan Bárðarbungu en það mældust alls um 25 skjálftar og voru allir undir 1,5 að stærð Einnig mældust átta skjálftar í og við Grímsvötn og nokkrir skjálftar mældust við Skaftárkatla á svokölluðum Lokahrygg, allir undir 1,5 að stærð. Tveir skjálftar mældust í öskju Öræfajökuls.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust tæplega 30 skjálftar í vikunni sem leið, sá stærsti mældist 2,5 að stærð. Rúmlega 30 skjálftar mældust í og við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Er þetta meiri heildarfjöldi skjálfta og í fyrri viku og munar þar mestu um að fleiri skjálftar mældust við Herðubreið nú en í fyrri viku.

Krafla og Þeistareykir

Rólegt var á svæðinu í vikunni, 5 skjálftar mældust við Kröflu og 2 við Bæjarfjall og enginn í Kelduhverfi, allir um eða undir 1,5 að stærð. Er það mjög svipuð virkni og í fyrri viku.

Tjörnesbrotabeltið

Örlítið meiri virkni var á Tjörnesbrotabeltinu samanborið við fyrri viku en nú mældust 40 skjálftar samanborið við tæplega 30 í fyrri viku. Virkni var nokkuð dreifð um beltið síðastliðna viku en nokkur virkni var rétt austan Flateyjar á Skjálfanda en einnig var nokkur virkni austan Grímseyjar og við Gjögurtá sem og í Eyjafjarðarál. Í Öxarfirði mældust 5 skjálftar, allir undir 1 að stærð. Einn skjálfti mældist á Kolbeinseyjarhrygg sem mældist 2,6 að stærð.

Skjálftalisti viku 35








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica