Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 28, 8.-14. júlí 2024

28. viku ársins mældust um 430 jarðskjálftar á mælaneti Veðurstofunnar. Virknin var dreifð um allt land en einnig var nokkur virkni á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg. Stærstu skjálftar vikunnar voru á úthafshryggjunum, þar af tveir sem voru 3,5 að stærð á Kolbeinseyjarhrygg. Stærsti skjálftinn á landi var 2,3 að stærð og varð hann sunnudaginn 14. júlí í Húsfellsbruna, um 5 km vestur af Vífilsfelli.

Nánar er fjallað um jarðhræringar nærri Grindavík í frétt á forsíðu sem er uppfærð reglulega.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa.

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Tæplega 200 skjálftar mældust á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg samtals þessa viku. Markverðast var lítil skjálftahrina við Húsfellsbruna vestur af Vífilsfelli 14. júlí. Tveir skjálftar þar mældust yfir 2 að stærð. Landris er stöðugt í Svartsengi og skjálftavirkni hefur aukist lítillega frá því vikuna á undan á Sundhnúksgígaröðinni og við Grindavík. Einnig mælast skjálftar við Fagradalsfjall. Dreifð virkni mældist vestan við Kleifarvatn og nokkrir skjálftar voru staðsettir í Brennisteinsfjöllum. Á Reykjaneshrygg varð lítil hrina sunnudaginn 14. júlí.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu mældust um 20 skjálftar, dreifðir um svæðið. Lítil sem engin skjálftavirkni var á Suðurlandsbrotabeltinu. Einn skjálfti mældist í Heklu.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Átta skjálftar mældust í vestanverðum Langjökli og þrír í Hofsjökli. Þá mældust tveir skjálftar við Grjótárvatn.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði
Rólegt var í bæði Mýrdalsjökli og Torfajökli þessa vikuna, aðeins mældust samtals sex skjálftar. Einn skjálfti var staðsettur í Eyjafjallajökli.



Vatnajökull
Skjálftavirkni var með rólegra móti í Vatnajökli þessa vikuna. Skjálftar voru staðsettir í Öræfajökli, Skeiðarárjökli, Grímsvötnum, Bárðarbungu og Dyngjujökli. Einn skjálfti mældist við Hálslón 9. júlí. Skjálftar þar eru ekki algengir en koma þó af og til.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust um 40 skjálftar, bæði við Öskjuvatn og í norðvestanverðum Dyngjufjöllum. Í Herðubreið og Herðubreiðartöglum var einnig virkni, samtals um 40 skjálftar.

Krafla og Þeistareykir

Lítil virkni var við Kröflu og Þeistareyki, samtals 15 skjálftar, heldur fleiri við Þeistareyki.



Tjörnesbrotabeltið

Hefðbundin virkni dreifð um svæðið. Einn skjálfti norðarlega á Tröllaskaga.

Kolbeinseyjahryggur

Um 30 skjálftar voru staðsettir á Kolbeinseyjarhrygg í vikunni, þar af stærstu skjálftar vikunnar. Fjórir skjálftanna voru um 3,5 að stærð.

Skjálftalisti viku 28







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica