Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 23, 03. – 09 júní 2024

Rúmlega 600 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í viku 23, 3. til 9. júní, og hafa flestir þeirra verið handvirkt yfirfarnir. Í siðasti viku mældust um 1200 skjálftar.
Stærstu jarðskjálftar vikunnar mældust af stærð 2,9. Þeir voru þrír talsins en á mismunandi stöðum, einn rétt austur af Herðubreið þann 3. júni, annar við Húsmúla þann 3. júni og sá þriðji í Henglinum þann 4. júni. Mjög litill jarðskjálftavirkni mældist yfir kvikuganginum við Grindavík.
Við í Húsmúla á vestanverðu Hengilssvæðinu mældust um 70 jarðskjálftar í vikunni, um 20 skjálftar mældust í Öskju og rúmlega 300 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl.

Nánar er fjallað um jarðhræringarnar nærri Grindavík í frétt á forsíðu sem er uppfærð reglulega.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa


Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Tæplega 80 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, virknin var aðallega við Trölladyngju og Kleifarvatn. Fimm skjálftar mældust í kvikuganginum í vikunni. Annars var smá virkni austur af Brennisteinsfjöllum og við Hrossahryggi. Stærsti skjálfti var 2,0 að stærð, milli Trölladyngju og Kleifarvatns, þann 6. júní.

Úti á Reykjaneshrygg mældust fimm skjálftar í vikunni, sá stærsti 2,2 að stærð, þann 6. júní.

Hengilssvæðið

Við Húsmúla á vestanverðu Hengilssvæðinu mældust um 70 skjálftar, sá stærsti 2,9 að stærð, þann 3. júní, kl. 09:32. Annar skjálfti 2,9 að stærð mældist í Henglinum, þann 4. júni. Nokkrir aðrir skjálftar mældust norðan Hveragerðis.

Suðurlandsbrotabeltið
Um 25 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandsbrotabeltinu jafndreifðir um beltið. Stærsti skjálftinn 2,0 að stærð var staðsettur rétt norður af Hellu.

Einn smáskjálfti mældist við Heklu, þann 9. júní.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Einn skjálfti, 1,7 af stærð mældist norður af Hagafelli og einn skjálfti 2,4 að stærð mældist við Geitlandsjökul. Við Rauðafell mældust 15 skjálftar, sá stærsti 2,6 að stærð.

Norður af Hofsjökli mældist einn skjálfti 2,0 að stærð.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið
Í Mýrdalsjökli mældust tæplega 15 skjálftar, allir undir 2,1 að stærð. Tveir smáskjálftar mældust í Eyjafjallajökli. Á Torfajökulssvæðinu mældust fimm smáskjálftar.

Vatnajökull
Í Vatnajökli mældust um 35 jarðskjálftar og var virknin dreifð við Bárðarbungu og djúpa svæðið austan hennar. Tæplega tíu smáskjálftar voru í lóninu austan í Skeiðarárjökli, þar sem oft sést tæming um sumarið. Við Öræfajökul mældust tíu smáskjálftar og fjórir smáskjálftar mældust í Grímsvötnum í vikunni.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Um 20 smáskjálftar mældust við Öskju í vikunni, flestir við austurbakka Öskjuvatns. Rúmlega 300 skjálftar mældust í hrinu við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjálfti í hrinunni mældist 2,9 að stærð, þann 3. júní.

Krafla og Þeistareykir

Fjórir smáskjálftar voru staðsettir við Kröflu og þrír við Bæjarfjall. Nokkrir smáskjálftar mældust norðvestur af Dettifossi.

Tjörnesbrotabeltið

Tæplega 20 jarðskjálftar mældust norðan við land flestir á Grímseyjarbeltinu og í Öxarfirði. Stærsti skjálftinn mældist 2,2 að stærð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, þann 5. júní.Vikuyfirlit má finna í eftirfarandi hlekk: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2024/vika_23/listi
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica