Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 22, 27. maí – 2. júní 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Rúmlega 930 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, virknin var aðallega í kvikuganginum við Grindavík í kvikuhlaupinu og eldgosinu sem varð þann 29. maí, alls um 540 skjálftar, þar af um 190 yfir 1,0 að stærð. Einnig voru skjálftar í Trölladyngju og við Kleifarvatn, alls um 60 skjálftar. Annars var virknin nokkuð dreifð frá Kleifarvatni og til austurs að Bláfjöllum, alls um 70 skjálftar.

Úti á Reykjaneshrygg mældust um 20 skjálftar í vikunni, stærstur um 2,6 að stærð.

Hengilssvæðið

Í Húsmúla á vestanverðu Hengilssvæðinu mældust um 24 skjálftar, stærstur um 1,8 að stærð. Nokkrir aðrir mældust við Nesjavelli og ofan Hveragerðis.

Suðurlandsbrotabeltið

Um 25 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandsbrotabeltinu jafndreifðir um beltið.

Enginn skjálfti mældist við Heklu í vikunni.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

6 skjálftar mældust á Vesturgosbeltinu í viku 22, 5 þeirra í Þórisjökli þann 28. maí, sá stærsti um 2,6 að stærð. Einn mældist við Grjótárvatn þann 30. maí.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið

Í Mýrdalsjökli mældust 9 jarðskjálftar, stærsti 2,5 að stærð, þann 27. maí. Á Torfajökulssvæðinu mældust 2 jarðskjálftar, sá stærsti mældist undir 1,0 að stærð.

Vatnajökull

Í Vatnajökli mældust 24 jarðskjálftar og var virknin dreifð við Bárðarbungu og djúpa svæðið austan hennar, Hamarinn, Pálsfjall og í Kverkfjöllum. Sá stærsti var 2,8 að stærð við Hamarinn þann 30. maí. Enginn skjálfti mældist í Grímsvötnum í vikunni.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Um 25 skjálftar mældust við Öskju í vikunni, flestir við austurbakka Öskjuvatns. 60 skjálftar mældust við Herðubreið, Herðubreiðartögl og sunnan við Arnardalsöldu.

Krafla og Þeistareykir

Um 4 smáskjálftar mældust þar allir minni en 1,0 að stærð.

Tjörnesbrotabeltið

Tæplega 40 jarðskjálftar mældust norðan við land flestir á Grímseyjarbeltinu, í Öxarfirði og Eyjafjarðarál. Einnig mældist einn skjálfti við Kolbeinsey sem var 2,8 að stærð.


Vikuyfirlit má finna í eftirfarandi hlekk: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2024/vika_22/listi






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica