Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 14, 1. - 7. apríl 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Tæplega 160 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni sem leið. Virknin þar var nokkuð dreifð um skagann, en þó með flesta skjálfta í kringum Kleifarvatn, stærsti skjálftinn þar var 2,1 að stærð þann 1. apríl. Engar tilkynningar bárust okkur um að skjálftinn hafi fundist.

Virkni í eldgosinu í Sundhnjúkagígaröðinni hefur haldist mjög stöðug, en mjög lítil skjálftavirkni fylgir gosinu.
Tveir skjálftar mældust úti á hrygg, báðir um 2 að stærð.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengilsvæðið

Á Hengilssvæðinu mældust rúmlega 30 skjálftar. Skjálftarnir dreifast nokkuð jafnt um svæðið, stærsti skjálftinn varð við Kýrgilshnúk 1. apríl og mældist 1,9 að stærð.

Skjálftavirkni á Suðurlandsbrotabeltinu var með eðlilegu móti, um 25 skjálftar, allir litlir.

Í og við Heklu mældust 6 skjálftar, allir undir 1 að stærð.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Við Langjökul og Hofsjökul mældust engir skjálftar í vikunni. Við Grjótárvatn austan við Snæfellsnes mældust tveir skjálftar, báðir undir 2 að stærð.

Austurgosbeltið

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði
Í Mýrdalsjökli var eðlileg virkni, 13 skjálftar mældust, sá stærsti 1 að stærð. Svipuð virkni var á Torfajökulssvæðinu og undanfarnar vikur, þar mældust 7 skjálftar, allir undir 1 að stærð.

Vatnajökull
Í Vatnajökli mældust rúmlega 80 skjálftar, sem er talsvert meira en í síðustu viku þegar um 40 skjálftar mældust. Mest af virkninni var í Bárðarbungu þar sem 65 skjálftar mældust, sá stærsti 2,9 að stærð 7. apríl. Restin af virkninni dreifðist að mestu í kringum Grímsvötn.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust tæplega 50 skjálftar, svipað margir og mældust í síðustu viku. Flestir þeirra eru austan megin við Öskjuvatn. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust rúmlega 15 skjálftar, allir undir 1 að stærð.

Krafla og Þeistareykir

Rúmlega 15 skjálftar mældust á nyrðri hluta Norðugosbeltsins. Sú virkni dreifðist jafnt milli Kröflu og Bæjarfjalls, en stærsti skjálftinn var 2. apríl í Kröflu og mældist 1,4 að stærð.

Tjörnesbrotabeltið

Alls mældust um 50 skjálftar á Grímseyjarbrotabeltinu og Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Þar voru flestir norðaustan við Grímsey eða 33 skjálftar. Restin dreifðist um svæðið, mest í Öxarfirði.



Skjálftalisti viku 14





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica