Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit vika 4, 22.-28. janúar 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Um 320 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum í vikunni, þar af um 190 við kvikuganginn við Hagafell og Grindavík. Skjálftarnir þar voru allir smáir, um og undir stærð M1,7. Í vestanverðu Fagradalsfjalli greindust tæplegar 30 skjálftar, um og undir stærð M1,5 (dýpi þeirra milli fimm og tíu km). Við Trölladyngju, eða á svæðinu frá Keili og austur fyrir Kleifarvatn greindust tæplega 100 skjálftar, stærstu þeirra M2,2 skjálfti við Djúpavatn. Í Brennisteins- og Bláfjöllum mældust um 70 skjálftar. Þeir sem áttu upptök í Brennisteinsfjöllum voru allir litlir en í Bláfjöllum varð skjálfti að stærð M3,1 að morgni laugardags og eftirskjálftavirkni fylgdi bæði á laugardag og sunnudag (um 30 skjálftar alls).

Suðurlandsbrotabeltið og Hengill

Tæplega 50 skjálftar mældust á Hengilssvæði, flestir nærri Nesjavöllum og við Reykjafell við Hellisheiði. Um 30 skjálftar mældust í Suðurlandsbrotabeltinu, stærstir þeirra M1,7 og M1,8 skjálftar sem urðu austan Geitafells, laugardaginn 27. janúar.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Tveir skjálftar mældust við Langjökul, einn við Hofsjökul.

Austurgosbeltið

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið

Við Torfajökul mældust fjórir skjálftar, tveir þeirra hafa verið yfirfarnir.  Í Mýrdalsjökli mældust um tíu tíu skjálftar, allir undir stærð M1,5.

Vatnajökull

Tæplega 40 skjálftar mældust í Vatnajökli. Þar af urðu 20 í Grímsvötnum, sá stærsti M2,1 að stærð. Skjálftarnir mældust bæði sunnan og norðan til í öskjunni. Tæplega tíu skjálftar mældust við Bárðarbungu, stærstu var M2,6 við austurjaðar öskjunnar.

 

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Tæplega 40 skjálftar mældust við Herðubreið og Öskju, langflestir undir M1 að stærð, en stærsti skjálftinn á svæðinu varð vestur af Öskjuvatni, M1,8.

Krafa og Þeistareykir

Um tíu skjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki, allt smáskjálftar.

Tjörnesbrotabeltið

Á fjórða tug skjálfta mældust á Tjörnesbrotabelti, stærstu skjálftarnir urðu nærri Grímsey, M2,4 og M2,5.

Skjálftalisti viku 04





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica