Jarðskjálftayfirlit - September 2024
Um 2500 jarðskjálftar mældust í september. Nærri helmingur skjálftanna staðsettur á Reykjanesskaga.
Um 2500 jarðskjálftar mældust í september. Nærri helmingur skjálftanna staðsettur á Reykjanesskaga.
Stærsti skjálfti mánaðarins mældist M5.0 að stærð þann 3. september í Bárðarbungu.
Níu skjálftar sem voru M3.0 eða stærri.
M3,6 og M3,3 skjálftar þann 29. september við Trölladyngju á Reykjanesskaga fundust í byggð.
M3.1 skjálfti þann 16. september um 5 km norðan við Hofsós fannt greinilega þar.
Alls mældust um 2500 jarðskjálftar á landinu í september. Á árinu 2024 hafa á bilinu 2000 - 5000 skjálftar mælst í hverjum mánuði á landinu, utan við Janúar 2024 þegar nærri 10.000 jarðskjálftar mældust. Alls mældust níu jarðskjálftar sem voru M3.0 eða stærri. Þrír þeirra voru úti á Reykjaneshrygg, tveir við Trölladyngju á Reykjanesskaga, tveir í Mýrdalsjökli, einn í Bárðarbungu og einn norðan við Hofsós. Stærsti skjálfti mánaðarins mældist M5.0 þann 3. september í norðaustanverðri Bárðarbungu.
Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa
Reykjanesskagi
Eldgosinu sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 22. ágúst lauk síðdegis þann 5. september þegar gosórói féll og engin virkni sást í gígnum í drónaflugi Almannavarna um kvöldið. Gosið stóð því í 14 daga og hraunbreiðan sem myndaðist var um 15.8 km2 og rúmmál hennar um 60 milljón m3. Þessar niðurstöður byggja á mælingum frá Verkfræðistofunni Eflu og úrvinnslu myndmælingateymis Náttúrufræðistofnunar. Nánari upplýsingar um eldgosið má finna í frétt á vef VÍ. Í lok gossins voru farnar að sjást vísbendingar um landris væri hafið aftur í Svartsengi og hefur það haldið áfram á jöfnum hraða í september. Samkvæmt mælingum á landrisi og áætlun á hraða kvikusöfnunar svipar þróunin til fyrri atburða á svæðinu.
Flestir skjálftanna á Reykjanesskaga í september mánuði mældust í Fagradalsfjalli og við Trölladyngju. Nokkuð jöfn virkni var allan mánuðinn í vestanverðu Fagradalsfjalli þar sem um 370 smáskjálftar (<M1,5) mældust á um 6 - 8 km dýpi. Þann 3. september mældist skammvinn jarðskjálftahrina sunnan við Bláfjöll. Þá mældust um 60 jarðskjálftar, allir undir 2 að stærð, á um 5 - 8 km dýpi. Dagana 18. - 22. september varð jarðskjálftahrina við Trölladyngju þar sem rúmlega 200 jarðskjálftar mældust á um 2 - 4 km dýpi. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu var M2,9 að stærð en um viku síðar þann 29. september mældust tveir skjálftar af stærð M3,6 og M3,3 á sömu slóðum. Tilkynningar bárust um að þeir skjálftar hefðu fundist í byggð. Engin merki eru um aflögun tengda þessarri jarðskjálftavirkni við Trölladyngju.
Lítil skjálftavirkni var á Sundhnúksgígaröðinni í mánuðinum, en þar mældust um 40 smáskjálftar. Hefðbundin virkni var annarsstaðar á Reykjanesskaga, t.d. á Reykjanesi og í Brennisteinsfjöllum.
Mýrdalsjökull
Nokkur jarðskjálftavirkni var í Mýrdalsjökli í september en rúmlega 80 jarðskjálftar mældust þar. Stærstu skjálftarnir voru M3,0 og M3,7 að stærð sem mældust þann 6. september og 30. september. Sá síðari er stærsti skjálftinn í Mýrdalsjökli það sem af er þessu ári, en síðast mældist skjálfti af sömu stærð í ágúst 2023, en töluverð jaðskjálftavirkni var í jöklinum sumarið 2023 en frá maí til ágúst það ár mældust 19 skjálftar yfir þremur að stærð og þar af fjórir yfir 4 að stærð.
Tvo minniháttar jökulhlaup í september urðu í Skálm sem kemur undan austanverðum Mýrdalsjökli. Aukin rafleiðni og vatnshæð mældist í ánni annarsvegar dagana 7. - 10. september og hinsvegar 27. - 29. september. GPS mælir á Austmannsbungu sýndi færslur í tengslum við bæði þessi jökulhlaup. Stórt jökulhlaup varð í Skálm þann 27. júlí síðastliðinn og voru þetta annað og þriðja smáhlaupið sem koma í kjölfarið en einnig varð þar lítið hlaup 9. - 11. ágúst.
Grjótárvatn
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Vesturlandi hélt áfram í september. Rúmlega 30 skjálftar mældust á svæðinu og var sá stærsti 2,5 að stærð. Jarðskjálftar hafa mælst reglulega þarna síðan vorið 2021 og mest um 20 skjálftar mælst í mánuði þangað til í ágúst 2024 en þá mældust tæplega 80 skjálftar þar. Í lok september setti Veðurstofan upp jarðskjálftamæli í Hítárdal um 5 km NA við miðju jarðskjálftavirkninnar. Það var gert til þess að auka vöktun á svæðinu og gera nánari greiningu á virkninni.
Bárðarbunga
Rúmlega 70 jarðskjálftar mældust í mánuðinum í Bárðarbungu, þar af var stærsti skjálfti mánaðarins á landinu sem mældist M5,0 að stærð. Það er næst stærsti skjálftinn í Bárðarbungu það sem af er árinu en í apríl mældist þar skjálfti af stærð M5,4.
Askja
Í Öskju mældust um 130 jarðskjálftar í mánuðinum. Síðustu sex mánuði hafa um og yfir 100 skjálftar mælst í hverjum mánuði en síðustu sex mánuði þar áður mældust færri skjálftar eða um 50 í hverjum mánuði. Stærsti skjálftinn í síðasta mánuði var M2.7 að stærð skammt norðan við Víti, en það var stærsti skjálftinn á svæðinu síðan í mars 2024 en þá mældist skjálfti af stærð M3,5 við norðurbrún öskjunnar. Landris, sem hefur verið í gangi síðan sumarið 2021, heldur áfram í Öskju en þó á minni hraða síðan haustið 2023. Nánari upplýsingar um það má finna í frétt á vef VÍ sem var birt í kjölfar árlegrar mælingaferðar í Öskju.
Hekla
Rúmlega 20 smáskjálftar (<M1,0) mældust í Heklu í mánuðinum. Það sem af er árinu 2024 til hafa færri en 10 smáskjálftar mælst í hverjum mánuði. Sé einungist horft á skjálfta yfir ákveðinni stærð (M0,8) er ekki að sjá markverða breytingu í skjálftavirkni á milli mánaða.
Hofsós
Þann 16. september kl. 18:11 varð skjálfti af stærð M3,1 um 5 km norðan við Hofsós. Skjálftinn fannst greinilega á Hofsósi en Veðurstofan fékk einnig tilkynningar um að hann hafi fundist í Svarfaðardal. Einn eftirskjálfti af stærðinni M1,6 varð rúmri klukkustund síðar. Ekki er algengt að jarðskjálftar verði á þessum slóðum en nokkrir smáskjálftar hafa mælst á hverju ári á svæðinu nærri Hofsósi undanfarin ár.
Hofsjökull
Níu jarðskjálftar, allir undir M2,0, mældust í Hofsjökli í september mánuði. Síðustu sex mánuði hafa mælst um 10 jarðskjálftar í hverjum mánuði og eru þeir flestir staðsettir í norðvestanverðum jöklinum.
Vestra Gosbeltið
Í vestanverðum Langjökli mældist skjálfti af stærð M2.6 þann 20. september en um 20 jarðskjálftar mældust á því svæði seinnihluta mánaðarins.
Í kringum 100 jarðskjálftar mældust austan við Skjaldbreiður dagana 7. - 14. september. Flestir skjálftanna voru undir 1 stærð en nokkrir skjálftar yfir M2,0 mældust þar. Sumarið 2023 var nokkur skjálftavirkni á þessum slóðum en þá mældust rúmlega 1200 jarðskjálftar frá júlí til september, þar af voru nokkrir skjálftar um M3,0 að stærð. Einnig var virkni NV við Skjaldbreiði á svipuðum tíma en um 40 skjálftar mældust þar dagana 6. - 9. september.
Önnur svæði
Hefðbundin virkni var á öðrum svæðum á landinu eins og Tjörnes- og Suðurlandsbrotabeltunum, Vatnajökli og Norðurgosbeltinu.