Jarðskjálftayfirlit - Febrúar 2025
Alls mældust um 1200 jarðskjálftar í febrúar. Stærsti jarðskjálfti mánaðarins var M5.1 að stærð í Bárðarbungu þann 22. febrúar.
Samantekt
Alls mældust um 1200 jarðskjálftar í febrúar sem er nokkuð minna en síðustu mánuði. Frá 1700 til rúmlega 4000 skjálftar hafa mælst á landinu í hverjum mánuði síðustu sex mánuði.
Eins og síðustu mánuði mældust flestir jarðskjálftanna á Reykjanesskaga þar sem um 370 jarðskjálftar mældust, flestir á svæðinu í kringum Kleifarvatn og Trölladyngju.
Stærsti jarðskjálfti mánaðarins var M5.1 að stærð í Bárðarbungu þann 22. febrúar. Tilkynning barst um að hann hafi fundist á Akureyri.
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn heldur áfram, en var þó minni í febrúar en síðustu mánuði.
Jarðskjálfti af stærð M2,8 í Brennisteinsfjöllum þann 16. febrúar fannst á Höfuðborgarsvæðinu.
Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa
Reykjanesskagi
Alls mældust um 370 jarðskjálftar á Reykjanesskaga í mánuðinum. Flestir skjálftanna, eða um 170 voru staðsettir á svæðinu við Kleifarvatn og Trölladyngju.
Þann 16. febrúar varð skjálfti af stærð M2,8 í Brennisteinsfjöllum og bárust tvær tilkynningar um að hann hafi fundist á Höfuðborgarsvæðinu. Smáskjálftavirkni hefur verið á svæðinu í kjölfarið og mælast nokkrir skjálftar, minni en M1,5 að stærð, á dag þar.
Jarðskjálftahrina varð við Reykjanestá dagana 24. - 25. febrúar, en þá mældust hátt í 60 jarðskjáltar, flestir undir M1,5 að stærð en sá stærsti var M2,3.
í vestanverðu Fagradalsfjalli hefur verið nokkuð stöðug virkni á 6-8 km dýpi frá því að jarðhræringar hófust á Svartsengissvæðinu seinni hluta 2023. Um 10 skjálftar mældust þar í febrúar og hefur dregið úr virkninni þar síðustu mánuði.
Á Sundhnúksgígaröðinni mældust hátt í 80 jarðskjálftar í mánuðinum og hefur fjöldi skjálfta á dag farið hægt vaxandi eftir því sem liðið hefur á mánuðinn en mest hafa mælst níu skjálftar á dag þann 22. febrúar. Landris og kvikusöfnun hefur haldið áfram í Svartsengi, en dregið hefur lítillega úr hraða landriss síðustu vikur. Í lok febrúar var rúmmál kviku sem safnast hefur undir Svartsengi orðið meira en það var fyrir gosið sem hófst 20. nóvember. Nánari upplýsingar um atburðina við Svartsengi og Sundhnúksgígaröðina má finna í frétt á forsíðu.
Bárðarbunga
Hátt í 130 jarðskjálftar voru staðsettir í Bárðarbungu í febrúar. Þann 14. janúar varð öflug jarðskjálftahrina í norðurhluta Bárðarbungu, en kjölfar hennar minnkaði virkni í Bárðarbungu tímabundið en seinni hluta febrúar fór virkni að aukast á ný. Þann 14. febrúar varð skjálfti af stærð M3.3 og þann 22. febrúar varð skjálfti af stærð M5.1 á svipuðum slóðum og hrinan þann 14. janúar. Um 30 eftirskjálftar fylgdu þeim skjálfta þar af tveir um M3 að stærð.
Grjótárvatn
Um 100 jarðskjálftar mældust við Grjótárvatn á Vesturlandi í mánuðinum, þar af var stærsti skjálftinn M3.0 að stærð þann 5. febrúar. Frá ágúst 2024 hefur virkni farið vaxandi á þessu svæði og í janúar 2025 mældist mesti fjöldi skjálfta í einum mánuði um 250, því var virkni í febrúar minni en mánuðina áður en áfram töluverð þó. Jarðskjálftar á þessu svæði eru flestir staðsettir á um 15-20 km dýpi og hefur ekki orðið breyting á því síðustu mánuði.
Vesturgosbeltið
Hengill
Þann 22. febrúar varð skammvinn smáskjálftahrina við Nesjavallaveg um 7 km vestan við Nesjavallavirkjun. Þá mældust um 20 skjálftar á nokkrum klukkustundum allir um eða undir M1.0 að stærð. Hrinur á þessu svæði eru algengar og urðu síðast svipaðar hrinur í ágúst 2024 og febrúar 2023. Í byrjun árs 2021 var nokkur virkni á þessu svæði og varð m.a. skjálfti af stærð M3,8 í apríl 2021.
Í febrúar mældist um 30 jarðskjálftar norðan við Hengil á Nesjavallasvæðinu. Stærstu skjálftarnir voru M2.7 og M2.3 báðir þann 22. febrúar, sama dag og smáskjálftahrinan við Nesjavallaveg.
Austurgosbeltið
Hefðbundin virkni var í kringum helstu eldstöðvarkerfi (Katla, Hekla og Torfajökull) í austurgosbeltinu
Norðurgosbeltið
Hefðbundin virkni var í kringum helstu eldstöðvarkerfi (Askja og Krafla) og jarðskjálftasvæði í norðurgosbeltinu
Vatnajökull
Fyrir utan Bárðarbungu var nokkuð hefðbundin virkni í Vatnajökli, þ.á.m. í Grímsvötnum og Öræfajökli.
Suðurlandsbrotabeltið
Lítil jarðskjálftavirkni var á Suðurlandsbrotabeltinu í febrúar, en um 40 jarðskjálftar mældust allir undir M1,5. Flesta mánuði á árinu 2024 og í janúar 2025 mældust í kringum 100 jarðskjálftar á svæðinu.
Tjörnesbrotabeltið
Rúmlega 140 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í febrúar, sá stærsti var M2,6 að stærð um 14 km sunnan við Grímsey. Skjálftavirknin dreifðist nokkuð hefðbundið á Grímseyjarbeltið og Húsavíkur-Flateyjarmisgengið, en þann 15. febrúar mældust átta jarðskjálftar, allir undir M2,0, við Flatey á Skjálfanda
Önnur svæði
Lítil jarðskjálftahrina varð í Norðurárdal á Vesturlandi, um 20 km NA við Bifröst, þann 14. febrúar. Þá mældust 11 jarðskjálftar allir undir M2.0 að stærð. Jarðskjálftar mælast sjaldan á þessu svæði, en skjálftavirkni í uppsveitum Borgarfjarðar hefur þó mælst nokkuð reglulega undanfarin ár.
Hofsjökull
Jarðskjálftavirkni hefur farið hægt vaxandi í Hofsjökli frá árinu 2023. Um 10 jarðskjálftar mælast flesta mánuði en í desember 2024 mældist yfir 20 jarðskjálftar þar af sá stærsti M3,3. Í janúar og febrúar 2025 hefur hinsvegar verið minni virkni og mældust fimm jarðskjálftar þar í febrúar.