Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit - desember 2025

Um 1250 jarðskjálftar mældust í og við Ísland í desember mánuði, töluvert færri ef mánaðarmeðaltal árið 2025 er skoðað. Virkni í mánuðinum var að mestu leiti með hefbundnum hætti en jökulhlaup hófst úr Vestar-Skaftárkatli þann 7. desember og mældist þar óróapúlsar samfara hlaupinu en lítil jarðskjálftavirkni. Alls mældust sjö skjálftar yfir þremur að stærð á landinu og stærsti skjálftinn var M3.9 að stærð við Hamarinn þann 6. desember. Að auki mældust átta skjálftar yfir þremur á Kolbeinseyjarhrygg og tveir á Reykjaneshrygg. Í desember bárust tilkynningar vegna tveggja jarðskjálfta sem fundust í byggð, M2.9 í Brennisteinsfjöllum á aðfangadag og M3.1 við Kleifarvatn 27. desember. Áfram er mesta virkni á landinu á Reykjanesskaga.

 

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálftalísu

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Rúmlega 350 jarðskjálfftar mældust á Reykjaneshrygg í desember mánuði, töluvert færri en mánuðina á undan, stærsti skjálftinn mældist 3.1 að stærð í Kleifarvatni aðfaranótt 27. desember og fannst sá skjálfti á höfuðborgarsvæðinu. Á Krísuvíkursvæðinu mældust um 200 jarðskjálftar í síðasta mánuði.

Um 40 jarðskjálftar mældust í hrinu við Sandfell á gamlársdag og var sá stærsti 2.7 að stærð.

Í Brennisteinsfjöllum mældist tæplega 30 jarðskjálftar, sá stærsti M2.9 að stærð á aðfangadag og bárust tilkynningar til Veðurstofunnar um að sá hafi fundist á höfuðborgarsvæðinu.

Við Grindavík og Sundhnúksgígaröð mældust um tuttugu smáskjálftar í desember og voru þeir flestir staðsettir milli Grindavíkur og Hagafells. Stærsti skjálftinn í desember var 1.9 að stærð þann 17. desember milli Þorbjörns og Hagafells og var hann sá stærsti frá gosbyrjun í júlí 2025. Í Fagradalsfjalli mældust þrettán smáskjálftar. Við Víkur vestan Grindavíkur mældust um tuttugu smáskjálftar og er það aukning frá fyrri mánuðum.

Á Reykjaneshrygg varð hrina við Eldey í byrjun mánaðarins, alls mældust um 60 jarðskjálftar dagana 2. -4. desember og voru þeir stærstu um 3 að stærð. Lengra út á hrygg mældust um 15 jarðskjálftar.

Grjótárvatn

Við Grjótárvatn mældust um 90 jarðskjálftar í desembermánuði, nokkuð færri en undanfarna mánuði þegar þeir hafa verið um og yfir 200 talsins. Allir skjálftar í síðastliðnum mánuði voru undir 3 að stærð.

Vesturgosbeltið

Hengill

Í og við Hengilinn urðu um 40 smáskjálftar á við og dreif.

Langjökull

Við Langjökul mældust þrettán jarðskjálftar af stærðinni M1-2.2, þar af sjö vestur af Þórisjökli.

Suðurlandsbrotabeltið

Rúmlega 70 smáskjálftar mældust á víð og dreif um Suðurlandsbrotabeltið, þar af um 25 dreifðir skjálftar í Þrenglsunum og 15 skjálftar rétt vestan við Bjólfell í Ytri Rangá.

Austurgosbeltið

Almennt var rólegt á Austurgosbeltinu miðað við fyrri mánuði og virkni nokkuð hefbundin.

Vestmannaeyjar

Skjálfti af stærð M2.6 mældist 4km NNV af Surtsey þann 29. desember. Er þetta annar skjálftinn sem mælist við Sursey á árinu og sá stærsti frá júní 2023.

Katla

Um 60 jarðskjálftar mældust í Kötlu í desembermánuði, stærstu skjálftarnir um M2.3 að stærð. Fjórir skjálftar mældust í Eyjafjallajökli.

Torfajökull

Á Torfajökulssvæðinu mældust rúmlega þrjátíu jarðskjálftar, sá stærsi M3.2 í Hrafntinnuskeri þann 20. desember.

Hekla

Um þrettán jarðskjálfar mældust í og við Heklu í desember, sá stærsti M1.6 að stærð að kvöldi 27. desember

Miðhálendið

Stakur skjálfti af stærð M1.2 mældist rétt norður af Eystri-Loðmindarjökli.

Vatnajökull

Bárðarbunga

Í desembermánuði mældust rúmlega 30 jarðskjálftar í og við Bárðarbungu, sá stærsti M3.4 þann 15. desember. Tíu djúpir smáskjálftar mældust í ganginum austan Bárðarbungu.

Grímsvötn

Við Grímsvötn mældust sjö jarðskjálftar, sá stærsti M1.9 þann 27. desember.

Öræfajökull

Um 55 jarðskjálftar mældust í Öræfajökli í desember, þar af rúmlega 30 talsins dagana 28. og 29. desember. Stærsti skjálftinn var M2.9 að stærð þann 29. desember og er hann jafnframt stærsti skjálftinn síðan í Október 2018 en í nóvember árið 2022 varð skjálfti af stærð M2.8 á svipuðum slóðum.

Önnur svæði

Við Hamarinn mældust um 40 jarðskjálftar, sá stærsti M3.9 að stærð þann 6. desember.

Ofan við Síðujökul, Skeiðarárjökul, Öræfajökul og Breiðamerkurjökul mældust svo dreifð smáskjálftavirkni.

Við Grænalónsjökul/Grænalón urðu fjórir skjálftar 23. og 24. desember.  Tveir þeirra voru á um ca 20 km dýpi og voru 1.5 og 1.6 að stærð. Þriðju var á um 8 km dýpi og var minni.

Jökulhlaup úr Vestari-Skaftárkatli

Stakur jarðskjálfti mældist við Vestari-Skaftárketil á Þorláksmessu. Þann 7. desember hófst Skaftárhlaup úr Vestari-Skaftárkatli sem náði hámarki aðfaranótt 14. desember og mældist þá um 620 míkrósiemens á sentimetra (µS/cm). Mikil brennisteinslykt fannst á við ánna en hlaupið hafði ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu.

Norðurgosbeltið

Askja

14 smáskjálftar mældust við Öskju og rúmlega 50 skjálftar undir M2.0 við Herðubreið og Herðubreiðartögl.

Krafla

Við Kröflu Reykjahlíð mældust rúmlega þrjátíu smáskjálftar.

Þann 29 og 31. desember mældust um 25 jarðskjálftar við Bakkahlaupi rétt NA af Skjálftavatni, stærsti skjálftinn mældist M2.4 á gamlársdag.

Tjörnesbrotabeltið

Hefbundin virkni var á Tjörnesbrotabeltinu þar sem að rúmlega 90 jarðskjálftar mældust á víð og dreif.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica