Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit - ágúst 2025

Reykjanesskagi 

Á Reykjanesskaga mældust tæplega1100 skjálftar í mánuðinum. Mesta virknin í ágúst var í Krýsuvíkurkerfinu en þar mældust um 830 skjálftar. Stærsti skjálftinn á því svæði varð 30.ágúst og var M3,1 að stærð, Veðurstofunni barst fjöldi tilkynning  um að skjálftinn hefði fundist í byggð. Í Brennisteinsfjöllum mældust rúmlega 110 skjálftar, alls mældust þrír skjálftar yfir 3 að stærð, sá stærsti M3,8 að stærð þann 18.ágúst. Skjálftans vað vart víðsvegar um landið. Þá var nokkur smáskjálftavirkni í Fagradalsfjalli og við Vífilsfelli.

Á Reykjaneshrygg mældust tæplega 250 skjálftar en smáhrina mældist þar 6-7.ágúst um 40 km suðvestur af Reykjanestá. Alls mældust 5 skjálftar yfir M3 að stærð en stærsti skjálftinn mældist 6.ágúst og var M3,3 að stærð.

Mýrdalsjökull

Í Mýrdalsjökli mældust rúmlega150 skjálftar, en þeir voru mjög dreifðir yfir jökulinn.

Grjótárvatn 

Við Grjótárvatn mældust um 310 skjálftar í mánuðinum sem er svipaður fjöldi og síðustu mánuði. Stærsti skjálftinn á svæðinu þennan mánuð var M2,5 að stærð.

Langjökull 

Um 35 skjálftar mældust í og við Langjökul í mánuðinum og voru flestir þeirra staðsettir norðaustur af Langjökli í smá hrinu sem mældist þar. Stærsti skjálftinn var M3,3 að stærð þann 17.ágúst. Þann 20.ágúst hófst jökulhlaup úr Hafrafellslóni vestan Langjökuls. Hámarksrennsli mældist í Hvítá ofan Húsafells aðfaranótt 24. ágúst, þar sem rennsli við Kljáfoss náði 260 m³/s, um þrefalt meira en venjulegt sumarrennsli. Hlaupið var að rúmmáli um fjórfalt stærra en síðasta stóra hlaup árið 2020, en þróaðist hægar og dreifðist yfir nokkra daga. Eftir að hlaupið náði hámarki þann 24.ágúst tók rennslið að minnka mjög stöðugt og náði vatnshæð í Hvítá bakgrunnsvirkni seinna þann daginn.

Vatnajökull

Tæplega 150 skjálftar mældust í ágúst. Flestir mældust við vestari Skaftárketil eða um 55 skjálftar.  Aðrir skjálftar var nokkuð dreifðir um Bárðarbungu, djúpa svæðið og Grímsvötn.

Norðurgosbeltið 

Askja/Herðubreið 

Í Öskju mældust tæplega 60 skjálftar í mánuðinum, þeir stærstu um M1,7 að stærð í  Öskjuvatni. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust tæplega 60 skjálftar, allir undir M2 að stærð. Þá mældust tæplega 30 skjálftar við Kröflu og um 25 í Bæjarfjalli.

Suðurlandsbrotabeltið 

Um 170 skjálftar mældust á suðurlandsbrotabeltinu, allir undir M2 að stærð og voru þeir nokkuð dreifðir um svæðið.  Þá mældust um 90 skjálftar víðsvegar um Hengilssvæðið, stærsti skjálftinn mældist M2,2 þann 2.ágúst við Stangarháls.

Tjörnesbrotabeltið 

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust um 290 skjálftar í mánuðinum. Flestir skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, en stærstu skjálftarnir voru staðsettir innan Grímseyjarbeltisins. Stærsti skjálftinn mældist M3,1 að stærð SA af Grímsey þann 2.ágúst. Þá mældust þrír skjálftar langt út á Kolbeinseyjarhrygg, sá stærsti M3,5 þann 5.ágúst.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica