Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit 39. viku 25. september - 1. október 2023

Tæplega 1900 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni sem leið, þar af hafa um 770 verið handvirkt yfirfarnir. Þetta er nokkuð meira en frá síðustu viku þegar um 1260 skjálftar mældust.

Jarðskjálftavirknin var vel dreifð um virkustu svæðin og má þar m.a. nefna Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg, Skjaldbreið, Mýrdalsjökul, vestanverðan Vatnajökul og Grímseyjarbrotarbeltið.

Stærsti skjálfti vikunnar mældist við Reykjanesvirkjun, 3,6 að stærð þann 27. september sl. en á því svæði mældust 8 skjálftar yfir 3,0 að stærð.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur. 

Um 1500 skjálftar mældust samanlagt á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg og hafa rúmlega 500 verið yfirfarnir. Skjálftarnir skiptust upp í nokkrar þyrpingar, við Geitafell, Fagradalsfjall, Keili, Sandfellshæð og úti fyrir Reykjanestá. Nokkrir skjálftar mældust einnig við Brennisteinsfjöll. Stæsti skjálfti vikunnar mældist við Reykjanesvirkjun, 3,6 að stærð 27. september en 8 skjálftar yfir 3,0 að stærð voru á þessu svæði.



Vesturgosbeltið og Hofsjökull

Í Henglinum mældust 24 skjálftar, sá stærsti 1,6 að stærð en aðrir voru smáir. Flestir skjálftarnir voru í Húsmúla. Skjálftavirkni hélt áfram SA af Skjaldbreið, við Skriðuhnjúk, en um 50 skjálftar mældust þar í vikunni sem er mun minna en í síðustu viku. Fjórir skjálftar mældust í skjálftar mældust í Hofsjökli, sá stæsti 2,1 að stærð og fjórir litlir skjálftar mældust í Langjökli vestan við Þursaborg.

Suðurlandsbrotabeltið

Fáir skjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu og voru þeir á víð og dreif.

Austurgosbeltið

Hekla
Tveir smáskjálftar mældust í Heklu í vikunni.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði.
Um 20 skjálftar eru yfirfarnir Mýrdalsjökli og nágrenni í vikunni og var sá stæsti 2,3 að stærð í Kötluöskjunni. Auk þess greindist fjöldi annarra „skjálfta“ í sjálfvirka kerfinu en fæstir þeirra eru raunverulegir skjálftar. Flestir skjálftarnir voru staðsettir í Kötluöskjunni. Á Torfajökulssvæðinu mældust fimm smáskjálftar.

Vatnajökull.
Í Vatnajökli mældust tæplega 50 skjálftar, aðallega í Grímsfjöllum og í Bárðarbungu. Í Bárðarbungu mældust 27 skjálftar og mældist sá stærsti 2,8 að stærð. Í Grímsfjalli mældust 14 skjálftar, sá stærsti 2,3 að stærð þann 1. október kl. 04:06:41.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust 11 skjálftar. Stærsti skjálftinn mældist 1,1 að stærð austantil í öskjunni. Um 10 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, mun minna en í fyrri viku og mældist sá stærsti 1,2 að stærð.

Krafla og Þeistareykir

Sjö skjálftar mældust við Kröflu og nágrenni, 3 í Búrfellshrauni og 14 við Bæjarfjall, sá stærsti 2,9 að stærð.

Tjörnesbrotabeltið

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust tæplega 50 skjálftar í vikunni, örlítið færri en í fyrri viku. Flestir mældust skjálftarnir á Grímseyjarbrotabeltinu en einnig var nokkur virkni í Öxarfirði og einn skjálfti af stærð 2,4 varð NV af Siglufirði. Stæsti skjálftinn mældist 2,6 að stærð SA af Grímsey. Fjórir skjálftar mældust úti á Kolbeinseyjahrygg 1. október.

Skjálftalisti viku 39






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica