Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit 21. viku - 22. – 28. maí 2023

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur 

Á Reykjanesskaga mældust ríflega 130 skjálftar. Þéttasta virknin var um kílómetra SV af Kleifarvatni síðdegis 27. maí. Þar mældust tæplega 40 skjálftar, stærstur þeirra var 3,1 að stærð og varð vart í Hafnarfirði. Einnig var þétt virkni í Skipastígshrauni með 24 skjálftum 28. maí, rétt vestan Þorbjörns og 14 skjálftar 26. maí við suðurenda Borgarfjalls.

Á Reykjaneshrygg mældust 5 skjálftar, þar af einn af stærð 3,1 tæpa 200 SV af Reykjanestá.

Vesturgosbeltið

 Einn skjálfti mældist rétt vestan við Þórisjökul og 12 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu þessa viku, þar af 6 nærri Ölkelduhálsi.

Suðurlandsbrotabeltið  

27 skjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu, þar af 10 um 4km NA af Selfossi. Önnur virkni var nokkuð dreifð.

Austurgosbeltið 

Mýrdalsjökull
8 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, stærsti var 2,8 að stærð.

Bárðarbunga
10 skjálftar mældust í Bárðarbungu í vikunni, þar af 3 af stærð 2,5-2,6.

Tveir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, og nokkrir stakir mældust á milli Mýrdalsjökuls og Bárðarbungu.

Norðurgosbeltið  

Tiltölulega fáir skjálftar mældust á gosbeltinu, flestir í Öskju, en aðrir voru vel dreifðir frá Herðubreið og norður að Bæjarfjalli.

Askja
Í Öskju mældust 19 skjálftar, nær allir austan megin við Öskjuvatn.

Tjörnesbrotabeltið 

Mesta virkni vikunnar var óumdeilanlega á Tjörnesbrotabeltinu, og þar af langmest austan Grímseyjar eða ríflega 380 skjálftar. Virknin var að mestu bundin við tvær til þrjár þyrpingar og var þar stærsti skjálfti vikunnar 3,8 þann 23. maí. Hrinan hófst í lok síðustu viku, en tók kipp eftir skjálftann 23. maí.

Aðrir skjálftar á Grímseyjarbrotabeltinu voru 8 talsins, flestir í Öxarfirði.

Virkni á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu var með hinu venjulegasta móti og taldi alls 15 skjálfta nokkuð jafndreifða.

3 skjálftar mældust um 100 km úti fyrir landi á Kolbeinseyjarhrygg.

Önnur svæði

Einn skjálfti mældist úti á landgrunni um 20 km suður af Höfn í Hornafirði.

 

  Skjálftalisti viku 21





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica