Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit
vika47_mynd

Jarðskjálftayfirlit 20. - 26. nóvember 2023 (Vika 47)

Rúmlega 4800 jarðskjálftar mældust í vikunni og þar af hafa rúmlega 600 verið yfirfarnir. Áframhaldandi virkni er á Reykjanesskaganum vegna kvikugangs sem myndaðist þann 10. Nóvember, nærri Grindavík. Skjálftavirkni og innflæði tengt kvikuganginum fer þó hægt minnkandi. Landris sem hófst á ný við Svartsengi eftir að kvikugangurinn myndaðist heldur áfram og hefur risið um ca. 18 cm á GPS stöð í Skipastígshrauni, en í kjölfar þess að kvikugangurinn myndaðist 10. Nóvember seig stöðin þó um rúma 40 cm. Nánar er fjallað um jarðhræringarnar nærri Grindavík í frétt á forsíðu sem er uppfærð reglulega.

Stærsti skjálfti vikunnar mældist 3,4 að stærð við Húsmúla í Henglinum, en þar mældist smáskjálftahrina dagana 24. Til 26. Nóvember með um 160 skjálftum.

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta Lísu

Reykjanesskagi

Um 4300 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, langflestir þeirra nærri kvikuganginum norðan Grindavíkur en einnig var dálítil virkni vestan við Kleifarvatn nærri Trölladyngju. Það dregur hægt úr skjálftavirkninni nærri kvikuganginum en það mældust um 500-1000 jarðskjálftar á dag í vikunni. Dagana 21. og 22. nóvember mældust þó færri skjálftar eða milli 200 og 300, en það var vegna hvassviðris og öldugangs á Reykjanesskaga sem hafði áhrif á næmni jarðskjálftakerfisins. Mest skjálftavirkni er um miðbik kvikugangsins nærri Hagafelli og Sýlingarfelli, en stærsti skjálftinn á þessu svæði var 2,7 að stærð.

Yfir 200 skjálftar mældust austan Kleifarvatns, nærri Trölladyngju, í vikunni. Þar af voru átta skjálftar yfir 2.0 að stærð, sá stærsti 3,0 að stærð við Vigdísarvelli. Þarna er talið að um sé að ræða svokallaða „gikkskjálfta“ sem eru viðbrögð við spennulosun vegna umbrotanna norðan Grindavíkur.

Reykjaneshryggur

Sjálfvirka mælakerfið mældi um 50 jarðskjálfta á Reykjaneshrygg, þeir stærstu um 2 að stærð. Ekki hafa allir skjálftar verið yfirfarnir, en þeir sem búið er að fara yfir eru um 1 – 1,5 að stærð staðsettir skammt utan við Reykjanestá.

Hengillinn

Smáskjálftahrina, um 160 skjálftar, mældist við Húsmúla dagana 24. til 26. nóvember. Stærsti skjálftinn var 3,4 að stærð þann 24. Nóvember og bárust Veðurstofunni tilkynningar um að hann hafi fundist í Hveragerði. Niðurdælingarsvæði Hellisheiðarvirkjunar er við Húsmúla og má gera ráð fyrir að jarðskjálftahrinan tengist því.

Suðurlandsbrotabeltið

Tæplega 30 smáskjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu.

Austurgosbeltið

Í Mýrdalsjökli mældust 13 skjálfar, sá stærsti 2,3 að stærð inni í Kötluöskjunni. Einn skjálfti af stærð 2,2 varð í Eyjafjallajökli þann 21. Nóvember. Einn skjálfti af stærð 1,1 varð nærri Heklu þann 23. Nóvember og í Torfajökli mældust nokkrir smáskjálftar.

Í Grímsvötnum urðu 13 skjálftar í vikunni, sá stærsti 2,4 að stærð við Grímsfjall. Annars var lítil virkni á öðrum svæðum í Vatnajökli

Norðurgosbeltið

Um 30 skjálftar mældust í Öskju, sá stærsti 2,5 að stærð austan við Öskjuvatn. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl var einnig dálítil virkni þar sem mældust tæplega 60 skjálfar, þeir stærstu um 2 – 2,5 að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki.

Tjörnesbrotabeltið

Um 100 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu, þar af rúmlega 60 í smá hrinu nærri Flatey á Skjálfanda þann 20. Nóvember. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu var 2,0 að stærð.

Önnur svæði

Í Hofsjökli mældist einn skjálfti af stærð 1,9 og í Öræfajökli mældist skjálfti af stærð 2,1. Nærri Varmahlíð mældist skjálfti af stærð 2,2 þann 24. Nóvember, en þar hafa mælst nokkrir skjálftar á ári undanfarin ár. Nærri Grjótárvatni á Vesturlandi mældust tveir skjálftar, báðir undir 2 að stærð, en þar hefur verið af og til jarðskjálftavirkni, sérstaklega frá árinu 2021.

Skjálftalisti viku 47







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica