Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit 18. viku - 1. maí – 7. maí 2023

Um 528 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, sem eru færri en mældust í vikunni á undan þegar þeir voru um 590 talsins. Stærsti jarðskjálfti vikunnar mældist 4,6 að stærð í kröftugri hrinu sem mældist í Kötlu 4. maí. Þrír skjálftar yfir 4 að stærð mældust í hrinunni og er þetta kröftugasta hrinan í Kötlu síðan 2016. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að þeirra varð vart í Vík í Mýrdal og Þórsmörk. Jarðskrálftahrina mældist einnig 4. maí við Reykjanestá og var stærsti skjálfti hrinunnar 3,4 að stærð. Einnig bárust tilkynningar um að þessi skjálfti fannst í byggð. Við Grímsvötn mældust rúmlega 30 skjálftar sem er töluverð aukning frá síðustu viku. Stærsti skjálftinn mældist 2,6 að stærð. Einn smáskjálfti mældist í Heklu.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa

Reykjanesskagi og Reykjanestá. 

Tæplega 150 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga í vikunni sem eru töluvert færri en mældust í vikunni á undan en þá mældust um 225 skjálftar. Mesta virknin var við Reykjanestá þar sem hrina hófst að morgni 4. maí. En tæplega 70 jarðskjálftar mældust í hrinunni, sá stærsti 3,4 að stærð. Veðurstofunni barst ein tilkynning um að stærsta skjálftast varð vart í byggð. Um 20 jarðskjálftar mældust við Fagradalsfjall, allir undir 1 að stærð. Tæplega 30 skjálfar mældust við Vestur- og Austurháls og mældist sá stærsti 2 að stærð þann 3. maí. Rúmlega 10 skjálftar voru staðsettir við Kleifarvatn, sá stærsti var af stærð 1,6.

Tveir skjálftar mældust um 40 km SV af Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg. Þeir voru 2,9 og 2,3 að stærð.

Suðurland 

Rúmlega tugur smáskjálfta mældust á víð og dreif á Suðurlandsbrotabeltinu og rúmlega 10 skjálfar á Hengilsvæðinu, sem er töluvert færri en mældust í vikunni á undan þar sem tæplega 50 skjálftar voru staðsettir á svæðinu.

Einn smáskjálfti mældist í Heklu.

Norðurland 

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust 80 skjálftar, sem er mjög svipaður fjöldi og vikuna áður. Rúmlega 50 skjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu, heldur fleiri en í síðsutu viku. Sá stærsti var 2,3 að stærð. Á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu mældist rúmlega tugur skjálfta, sá stærsti af stærð 1,5. Í Eyjafjarðarál mældust fimm skjálftar. Stærsti skjálftinn mældist 1,3 að stærð.

Sex smáskjálftar mældust við Þeistareyki og tugur skjálfta mældust við Kröflu, sá stærsti var 1,6 að stærð við Rauðkollur.

Einn smáskjálfti mældist á Flateyjardal.

Miðhálendið 

Tæplega 90 skjálftar mældust við Vatnajökul, nokkuð fleiri en vikuna á undan þegar um 60 skjálftar mældust. Tugur skjálfta mældust í Bárðarbungu. Þrír skjálftar mældust þar sem kvikugangurinn beygir til norðausturs frá Bárðabungu. Átta smáskjálftar mældust í kvikuganginum undir og fyrir framan Dyngjujökul. Rúmlega 30 skjálftar mældust í Grímsvötnum sem er töluverð aukning frá síðustu viku. Stærsti skjálftinn mældist 2,6 að stærð þann 7. maí. Fjórir smáskjálftar mældust við Vestari-Skaftárketil. Tæplega 20 smáskjálftar mældust við Skeiðarárjökul. Fjórir smáskjálftar mældust í Öræfajökli. Einn skjálfti mældist við Esjufjöll og tveir smáskjálftar norður af Skaftafelli. Tveir smáskjálfar mældust í Tungnafellsjökli.

Tæplega 30 skjálftar mældust í Öskju, sá stærsti 2,1 að stærð. Rúmlega 40 skjálftar mældust við Herðubreið og næsta nágrenni sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Stærsti skjálftinn mældist 1,5 að stærð.

Einn skjálfti mældist suðaustur af Haugsnibbu. Einn skjálfti mældist suður af Reyðarfelli sem var af stærð 1,9. Einn smáskjálfti mældist í Hofsjökli.

Rúmlega 20 skjálftar mældust við Geitlandsjökul og tveir smáskjálfar mældust vestur af Högnhöfða.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið 

Í Mýrdalsjökli mældust rúmlega 60 skjálftar sem er töluverð aukning frá vikunni á undan en þá mældust rúmlega 30 skjálfar. Kröftug hrina hófst í norðaustanverðri Kötluöskjunni þann 4. maí kl 09:41. Þrír skjálfar yfir 4 að stærð mældust í hrinunni, sá stærsti 4,6 að stærð kl 09:52 og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Hinir skjálftarnir voru 4,4 að stærð kl 09:46 og 4,3 að stærð kl 09:47. Veðurstofunni bárust tilkynningar að skjálftarnir fundust í Vík í Mýrdal og Þórsmörk. Heldur dróg úr hrinunni undir kvöld sama dag. Hrinan varð á vatnasviði Múlakvíslar en engar breytingar mældust á rafleiðni árinnar eftir hrinuna. Álíka hrina mældist síðast í ágúst 2016.

 Þrír smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Vesturland 

Einn jarðskjálfti mældist við Grjótárvatn 6. maí og var hann 2 að stærð. Einn jarðskjálfti mældist í Selárdal þann 5. maí sem var 1,7 að stærð.

Skjálftalisti viku 18.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica