Hvað nema þenslumælar?
Spennubreytingar í jarðskorpunni valda breytingum á rúmmáli bergsins. Það eru þessar rúmmálsbreytingar sem þenslumælar nema í berginu sem þeir eru í. Mælarnir eru ekki aðeins næmir fyrir hægfara breytingum, sem geta numið mánuðum og árum. Svörun þeirra er jöfn upp í tíðni sem nemur 20 sveiflum á sekúndu. Þannig virka þeir einnig eins og jarðskjálftamælar að öðru leyti en því að þeir nema ekki hreina skerhreyfingu (eins og í s-jarðskjálftabylgjum) þar sem henni fylgir ekki rúmmálsbreyting.
Dæmi um jarðföll og loftþrýstingsáhrif má sjá á myndinni hér að ofan. Breytingar fyrir og samfara eldgosum í Heklu hafa gefið miklar upplýsingar um eðli gosa þar og skiptir miklu máli að mælingarnar eru samfelldar (sjá fróðleik um eldgos í Heklu 2000). Einnig hafa mælst breytingar sem verða þegar spenna losnar úr læðingi í jarðskjálftum og hafa þær mælingar haft gildi varðandi brotlausnir jarðskjálfta og önnur atriði eins og svörun vatnsleiðandi jarðlaga. Hins vegar hafa ótvíræðir forboðar jarðskjálfta ekki mælst.