Íslensk eldfjöll
Jarðskjálftastöðvakort frá árinu 2000
Jarðskjálftastöðvakort frá árinu 2000
1 2 3 4

Eldgos í Heklu 2000 - þensla

Þegar eldgos hófst í Heklu 26. febrúar 2000 sýndu þenslumælar Veðurstofu Íslands miklar breytingar. Þessir mælar nema rúmmálsbreytingu sem verður í berginu sem þeir eru í, en þeir eru steyptir í borholur. Á mynd 1 sjást staðsetningar mælanna. Mælarnir hafa verið reknir frá 1979 í samvinnu við Carnegiestofnunina í Washington.

Mynd 2 sýnir mælingarnar frá 26. febrúar til 1. mars Hluti ferlanna er sýndur nánar á mynd 3. Mælirinn í Búfelli sýnir stöðuga samþjöppun í berginu við mælinn frá því kl. 17.45 fram til kl. 19.20. Á sama tíma sýna aðrir mælar þenslu eða rúmmálsaukningu bergsins í næsta nágrenni sínu.

Mynd 4 sýnir hraða breytinganna (halli ferlanna á myndum 2 og 3 ) á mælunum í Búrfelli og Skálholti. Á Búrfellsmælinum má sjá að samþjöppunarhraðinn vex ört fram til kl. 18.17, þá dregur úr honum og upp úr kl. 19.20 sjáum við þenslu (mynd 2).

Talið er að þessi breyting í opnunarhraða tákni að gosrásin nái yfirborði eða að „sýnilegt'“ gos hefjist kl. 18.17. Mælirinn í Skálholti sýnir óverulega breytingu. Hann er í 45 km fjarlægð en Búrfellsmælirinn er í 15 km fjarlægð frá Heklu.

Samkvæmt þenslumælingunum er því unnt að skilgreina þrjá fasa í gosinu á fyrsta sólarhring þess. Í fyrsta lagi þá er kvika að brjóta sér leið til yfirborðs frá því um kl. 17.45 til kl. 18.17. Í öðru lagi þá heldur gosrásin áfam að víkka, eftir að gos er hafið, fram til kl. 19.20, en mun hægar. Og loks, eftir að gosrásin er að fullu mynduð, verður þensla (rúmmálsaukning) við alla mæla þegar hraun streymir úr kvikuhólfi undir fjallinu. Í fyrsta og öðrum fasa er einnig einhver tæming, en opnunin hefur yfirgnæfandi áhrif.

Ástæða þess að stefna breytinganna (pólun) er mismunandi á stöðvunum í fyrsta og öðrum fasa er að gosrásin er um það bil 7 km langur gangur. Í stefnu þvert á ganginn, þar sem Búrfell er, verður samþjöppun. Á breiðum geirum í stefnu gangsins út frá endum hans verður hins vegar þensla. Allar aðrar stöðvar eru á þeim svæðum og af þeim er Geldingaá að norðanverðu.

Þetta líkist að flestu leyti gosinu í Heklu í janúar 1991 eins og það kom fram á þenslumælunum. Flýtirannsókn bendir að vísu til að merkið á Búrfelli sé talsvert minna núna, en ámóta eða ívið stærra á hinum stöðvunum. Skýring á því að hlutfall merkja á mismunandi stöðvum virðist annað núna liggur ekki fyrir. En örlítið önnur stefna eða staðsetning gossprungu í þessu gosi miðað við gosið 1991 gæti hugsanlega skýrt þennan mun. Rétt fyrir miðnætti þess 27. hættir þensla í Búrfelli og gæti það táknað að dregið hafi verulega úr hraunstreymi.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica