Íslensk eldfjöll

Þenslumælakerfi Veðurstofunnar

Þenslumælakerfi Veðurstofu Íslands var sett upp árið 1979 til þess að fylgjast með hægfara breytingum á þenslu í jarðskorpunni á Suðurlandi.

Þensla vísar til rúmmálsbreytinga bergs en það er ákveðið form á afmyndun eða bjögun efnis (e. strain). Kerfið er rekið af Eftirlitsdeild Eðlisfræðisviðs Veðurstofunnar í samvinnu við Department of Terrestrial Magnetism, Carnegie Institute of Washington.

Hugmyndin að baki uppbyggingu kerfisins og rekstri var að kanna hvort þenslubreytingar gætu verið forboðar jarðskjálfta á skjálftabeltum Suðurlands.

Þenslumælingar hafa einnig almennt fræðilegt gildi. Næmni þeirra er það mikil að bjögun samfara gangi himintugla, svokölluð jarðföll (e. earth tides), sem eru að vissu leyti hliðstæða sjávarfalla (e. ocean tides), mælist vel. Sömuleiðis mælist svörun jarðar við veðurfarsþáttum, eins og loftþrýstingi, vel.

Þenslumælakerfi Veðurstofu Íslands

Mynd 1. Myndin sýnir staðsetningu þenslumælanna. Gagnaflutningur er með eigin fjarskiptaneti og er hann á stafrænu formi. Sérhver stöð sendir á eigin tíðni í Bláfjöll. Þar er merkið samþættað (multiplexað) og sent á einni tíðni til Reykjavíkur og þar er það tímasett. Mælingarnar eru samfelldar. Grunnsöfnunartíðni er 50 rið og unnt er að varðveita gögn með þeirri tímaupplausn sem er gert þegar t.d. stórir skjálftar verða. En að öðru jöfnu er söfnunartíðni varðveittra gagna 1 rið.

Þenslumælarnir eru steyptir í borholur og dreifing þeirra (sjá mynd) var að nokkru leyti háð því hvar unnt var að fá aðgang að hentugum borholum. Saurbær í Holtum (SAU) er á miðju jarðskjálftasvæðinu og aðrir mælar í nokkurri fjarlægð frá því.

Upphaflega voru mælarnir átta en sem stendur eru sex í rekstri. Mælarnir eru á 150 til 400 m dýpi. Það var einng háð ástandi og dýpt borhola sem aðgengilegar voru. Reynt var að hafa þá í sem heillegustu bergi.

Dæmi um jarðföll og loftþrýstingsáhrif sem komu fram á þenslumæli í Skálholti má skoða í annarri fróðleiksgrein.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica