Eldgos - viðbrögð

Eldgos - viðbrögð

Af síðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra 30.01.2007 með góðfúslegu leyfi.

Eldgos geta hafist fyrirvaralaust, en gera þó oftast boð á undan sér, t.d. með jarðskjálftum og óróa sem greinast á mælum. Af eldgosum getur stafað hætta af hraunrennsli og öskufalli. Öskufall úr einu gosi getur borist um allt land eftir veðri.

Gjóskan getur verið varasöm vegna eldinga, eiturgufa og eiturefna. Dýrum er þá sérstök hætta búin. Öskuský getur truflað flugsamgöngur. Ef gos er undir jökli þá myndast nýjar jökulsprungur og hætta á að ár hlaupi sem getur valdið slysum á fólki og tjóni á mannvirkjum.

Innandyra

Eldingahætta

  • Innandyra skal aftengja öll rafmagnstæki og talstöðvar frá straumgjafa og útiloftnetum þegar gosmökk leggur yfir byggð. Notist við inniloftnet sé þess kostur. Forðast skal að nota síma. Munið einnig að aftengja brynningartæki, mjaltakerfi og rafmagnsgirðingar þar sem það á við. Nánar um eldingar.

Byrgið glugga

  • Byrgið glugga sem snúa að eldstöð meðan gos varir og lokið fyrir reykháf vegna gjóskufalls.

Útvarp - tilkynningar

  • Hlustið eftir tilkynningum og fréttum í fjölmiðlum og farið eftir þeim fyrirmælum sem kunna að vera gefin. Fylgist vel með veðurfregnum og öskufallsspám. Nánar um sendingar útvarps.

Rýming húsnæðis

Utandyra

Eldingahætta

  • Farið ekki undir gjóskufall, vegna eldingahættu og munið að algert myrkur getur verið í öskumekki. Eldingahætta er mest í eða við gosmökk og öskufallsgeira og getur náð í allt að 30 - 40 km. undan vindi frá eldstöðinni. Komið ykkur stystu leið út úr gjóskufalli með því að fara þvert á vindátt. Forðist að vera í nánd við loftlínur, hávaxin tré, staura, þvottasnúrur, rafmagnsvirki, möstur og landbúnaðartæki hvers konar. Varist jafnframt mýrlendi, vötn og læki. Losið ykkur við bakpoka, byssur, veiðistangir, garðyrkjuáhöld og annað það sem leitt getur rafmagn. Nánar um eldingar.

Jökulhlaup

  • Eldgosum undir jökli fylgir jafnan jökulhlaup. Dveljið ekki á flatlendi meðan hætta er talin á jökulhlaupi. Leitið á hátt liggjandi staði. Ef svæðið verður umflotið vatni, tilkynnið það til 112 ef hægt er en ef sá möguleiki er ekki fyrir hendi setjið þá upp hvíta veifu til merkis um að aðstoðar sé þörf.

Banvænt gas

  • Haldið ykkur þar sem vindur blæs og farið alls ekki niður í lægðir og djúpar lautir, þar sem gas kann að safnast fyrir. Gasið er banvænt eitur og í flestum tilvikum lyktarlaust og ósýnilegt.

Verjið öndunarfæri

  • Hafið rykgrímu eða blautan klút fyrir vitum í gjóskufalli.

Notið hjálma

  • Verið ávalt með hjálm á höfði í nágrenni gjósandi eldstöðva.

Útvarp - tilkynningar

  • Hlustið eftir tilkynningum og fréttum í fjölmiðlum og farið eftir þeim fyrirmælum sem kunna að vera gefin. Fylgist vel með veðurfregnum og öskufallsspám. Nánar um sendingar útvarps.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica