Um gróðurhúsalofttegundirnar
Náttúrulegar gróðurhúsalofttegundir
úr Nord 1996:25
Gróðurhúsaáhrif eru ekki nýtt fyrirbrigði. Vatnsgufa, koldíoxíð og aðrar lofttegundir sem alltaf hafa verið til staðar í gufuhvolfinu hleypa sólarljósinu hindrunarlaust til jarðar en draga í sig hluta þess varma sem heit jörðin endurkastar og án þessara náttúrulegu áhrifa væri ekkert líf á jörðunni.
Áhrif athafna mannsins koma hins vegar þessu til viðbótar og valda hitastigsaukningu bæði við jörðu og í neðsta lagi lofthjúpsins. Þar vegur þyngst losun náttúrulegs koldíoxíðs, miklu meira en losun manngerðra flúorefna. Hver sameind koldíoxíðs hefur miklu minni gróðurhúsaáhrif en hver sameind flúorkolefna en hún er losuð í mikið meira magni út í andrúmsloftið.
Koldíoxíð (CO2) losnar við brennslu lífrænna efna en vöxtur gróðurs vegur þar upp á móti því hann bindur koldíoxíð, einnig sum efnaveðrun bergs. Sjórinn dregur einnig smám saman í sig hluta af koldíoxíði andrúmsloftsins og djúpsjávarmyndun ber það niður á mikið dýpi.
Þuríður Erna Halldórsdóttir Geirssonar. Ljósmyndina tók Steinunn S. Jakobsdóttir.
En þessi náttúrulegu ferli hafa ekki lengur undan og hin mikla brennsla jarðefnaeldsneytis eins og steinkola, jarðgass og olíu veldur því að styrkurinn eykst í gufuhvolfinu. Kolefni sem lífverur fornra tíma söfnuðu upp á hundruðum milljóna ára losnar út í andrúmsloftið á aðeins nokkrum öldum. Jafnvel brennsla á mó verður að teljast til losunar þó miklu skemmra sé síðan mýramórinn varð til, því torf endurnýjast svo hægt. Eyðing skóga og hægari djúpsjávarmyndun bætir ekki úr skák.
Koldíoxíð dreifist jafnt um allan lofthjúpinn, sama hvar upptökin eru. Borkjarnar úr Grænlandsjökli hafa loftbólur sem geta sagt sögu andrúmsloftsins langt aftur í tímann og styrkur koldíoxíðs, sem var um 280 ppm fyrir iðnvæðingu, er nú um 390 ppm.
Aðrar náttúrulegar gróðurhúsalofttegundir, svo sem díköfnunarefnisoxíð (N2O) og metan (CH4), eru einnig að aukast af mannavöldum, hið fyrra vegna dreifingar á áburði og framleiðslu saltpéturssýru en hið síðara kemur frá jórturdýrum, sorphaugum, viðarkyndingu og vinnslu jarðgass og kola. Þess má geta að svifryk verkar yfirleitt til kólnunar nema á heimsskautasvæðunum.
Manngerð efnasambönd sem valda gróðurhúsaáhrifum
úr Nord 1996:25
Stöðugleiki og lífslengd kolvetna eykst þegar vetnisatómum er skipt út fyrir klór og slíkir eiginleikar geta verið hagnýtir, t.d. við meindýraeyðingu. Slík þrávirk lífræn efni geta vegna stöðugleika síns borist mjög langt með vindum, ám, hafstraumum og lífverum og þannig skaðað lífríki fjarri upptökum sínum. En til eru annars konar þrávirk lífræn efni sem eru enn stöðugri, reyndar svo stöðug að þau eru ekki eitruð því hvarfgirni þeirra er lítil sem engin og þau hafa vart nokkur áhrif á lifandi vefi.
Þetta eru klórflúorkolefni, CFC, einskonar kolvetni þar sem klór og flúor koma í stað allra vetnisatóma. Þau hafa verið framleidd til notkunar í varmadælur, í kæliskápa, við gerð frauðplasts og sem leysiefni. Fyrr eða síðar leka efnin út í andrúmsloftið og berast upp í gufuhvolfið þar sem líftími þeirra er áratugir eða aldir.
Hluti þeirra berst upp í heiðhvolfið, sundrast í útfjólubláu sólarljósinu og veldur þynningu eða jafnvel eyðingu ósonlagsins sem verndar lífríki jarðar. Lausnin á þessum vanda hefur einkum fólgist í því að framleiða skyld efni þar sem aðeins hluta vetnisfrumeindanna er skipt út fyrir klór eða flúor en þau eru þó ekki skaðlaus með öllu. HCFC inniheldur nokkuð af klór og hefur áhrif á ósonlagið þó vægari séu. HFC inniheldur engan klór og skaðar ekki ósonlagið en hefur virkni sem verður að teljast til gróðurhúsaáhrifa vegna þess að flúorefnin í því hindra vissan hluta varmageislunar frá jörðu.
Sum önnur efnasambönd sem innihalda flúor hafa enn sterkari gróðurhúsavirkni en HFC, til dæmis brennisteinshexaflúoríð (SF6) sem er notað í stór raftæki og ýmisskonar flúorkolefni (CF4, C2F6) sem verða til við álframleiðslu. Bættur hreinsibúnaður hefur minnkað losun þeirra mikið en áhrifin munu vara lengi því þau geta viðhaldist í gufuhvolfinu í tíu þúsund ár eða meira.
Stórhöfði í Vestmannaeyjum
Veðurstofa Íslands tekur þátt í hnattrænni vöktun á gróðurhúsalofttegundunum með sýnatöku á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Eftirtaldar lofttegundir eru vaktaðar:

- CO2 koldíoxíð eða koltvísýringur
- CO kolmónoxíð eða kolsýrlingur
- CH4 metan
- H2 vetni
- N2O díköfnunarefnisoxíð eða hláturgas (glaðloft)
- SF6 brennisteinshexaflúoríð
Á línuritum má sjá núverandi styrk þeirra ásamt breytingum í tæpa tvo áratugi. Einnig samsætur kolefnis og súrefnis í algengustu lofttegundunum. Söfnun hófst á Stórhöfða 1991 og áreiðanleg gögn eru birt samfellt frá 1993. Hnattræn gögn má skoða á myndbandi sem NOAA vísar til á vefsíðu sinni en það sýnir styrk koltvísýrings frá iðnbyltingu og til vorra daga og gefur innsýn í hvernig það hefur breyst í átta hundruð þúsund ár.
Umfjöllun
Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, er umræðuvettvangur þar sem færustu vísindamenn hverrar þjóðar fylgjast með gróðurhúsaáhrifunum og birta ályktanir sem stjórnmálamönnum ber að hafa í huga við ákvarðanatöku. Samkvæmt IPCC getur mannkynið átt von á að minnsta kosti 2°C meðalhlýnun fram til ársins 2100.
Hér á vef Veðurstofunnar er fjallað um merkjanlegar loftslagsbreytingar í heiminum samkvæmt IPCC. Einnig er lýst líklegum loftslagsbreytingum á Íslandi samkvæmt niðurstöðu íslenskrar vísindanefndar.
Heimild
Endursagt og staðfært úr:
Heimskautssvæði Norðurlanda - ósnortið, ofnýtt, mengað?
Norræna ráðherranefndin, Kaupmannahöfn, 1996 (Nord 1996:25)
Höfundur meginmáls: Claes Bernes. Þýðendur: Ásta Erlingsdóttir og Erling Erlingsson