Líklegar breytingar á Íslandi

Halldór Björnsson 19.3.2009

Inngangur

Í kjölfar útgáfu fjórðu úttektar Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) skipaði umhverfisráðherra íslenska vísindanefnd um loftslagsbreytingar á haustdögum 2007 og fól henni að skila skýrslu um líkleg áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi. Vísindanefndin skilaði skýrslu sumarið 2008. Þessi skýrsla er helsta heimild þeirrar umfjöllunar sem fylgir hér á eftir og vísast í hana um nánari heimildir.

Helstu niðurstöður

Hlýnað hefur á Íslandi á liðnum áratugum og eru ummerki þess greinileg í náttúru Íslands.


Í stuttu máli, þá eru niðurstöður þær helstar, að hlýnun á Íslandi síðan samfelldar mælingar hófust snemma á 19. öld nemur rúmlega 0,7°C á öld. Er það sambærilegt við þá hnattrænu hlýnun sem varð á síðustu öld (mynd 1). Verulegar sveiflur eru í veðurfari á Íslandi og nemur hlýnunin hér á landi frá 1975 um 0,35°C á áratug, sem er nokkru meira en hnattræn hlýnun á sama tímabili. Fyrstu ár þessarar aldar hafa verið jafnhlý og gerðist best á hlýskeiði um miðja síðustu öld.

Hiti í Stykkishólmi
línurit
Mynd 1. Meðalhiti hvers árs í Stykkishólmi 1798 til 2006. Örvar benda á nokkur sérlega köld og hlý ár. Rauða línan sýnir leitni alls tímabilsins. Tölur fyrir 1830 eru minna áreiðanlegar. Heimild: Trausti Jónsson, Veðurstofu Íslands. (Sjá nánar [10], bls 34)

Ummerki þessarar hlýnunar eru greinileg í náttúru Íslands. Allir jöklar landsins sem ekki eru framhlaupsjöklar hopa nú hratt (mynd 2). Þynning jökla leiðir til þess að land rís hratt við suðausturströnd Íslands. Vorleysingar í ám byrja heldur fyrr og vorflóðatoppar eru heldur minni en jöklaleysing meiri.

Hopun jökla
línurit
Mynd 2. Árlegt hlutfall íslenskra jökla sem gengu fram og hopuðu á árunum 1931 til 2007. Aðeins eru taldir með jöklar sem ekki eru framhlaupsjöklar. Myndin sýnir gögn frá 10-20 jöklum fyrir þessi ár. Gögn frá Jöklarannsóknafélagi Íslands og Oddi Sigurðssyni, Veðurstofu Íslands. (Sjá nánar [10], bls 43 og [11], bls 16).
Birki í 500 m hæð
lítil birkiblöð við jörð
Mynd 3. Birki vex upp við ný tegundamörk sín í um 500 m h.y.s. í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Ljósmynd: Bjarni Diðrik Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands

Framleiðni gróðurs á Íslandi hefur aukist og skógarmörk birkis eru að færast ofar í landið (mynd 3). Hlýnunin gerir norðlægum fuglategundum, svo sem stuttnefju, erfiðara uppdráttar. Jafnframt eykst fjöldi suðlægari fuglategunda sem reyna hér varp. Umhverfisbreytingar í hafinu við landið hafa valdið verulegri fækkun sjófugla hér við land sem og víða í sjófuglabyggðum við norðanvert Atlantshaf. Í sjónum umhverfis landið hefur hlýnun valdið greinilegum breytingum á útbreiðslu og stofnstærð nokkurra nytjategunda. Þannig hafa ýsa, lýsa, skötuselur og ufsi breiðst út til norðurs, en loðnan sem er kaldsjávarfiskur hefur hopað og haldið sig lengra norður í höfum.

Kornskurður á Íslandi
kornskurður á akri
Mynd 4. Hveiti skorið á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum haustið 2006. Kornrækt hefur rutt sér til rúms á Íslandi á síðustu tveimur áratugum. Ljósmynd Ólafur Eggertsson, Þorvaldseyri.

Hlýnun undanfarinna áratuga hefur haft umtalsverð áhrif á landbúnað en heyfengur eykst með hlýnun auk þess sem veðurfar er nú hagstæðara fyrir kornrækt (mynd 4). Á sama hátt hafa aðstæður til skógræktar og landgræðslu batnað mjög þó dæmi séu um að vetrarhlýindi hafi valdið skemmdum á trjágróðri og bætt skilyrði fyrir meindýr og plöntusjúkdóma. Vetrarhlýindi gera það að verkum að þungatakmarkanir hefjast nú fyrr en áður, sem veldur erfiðleikum og auknum kostnaði fyrir ýmsa rekstraraðila. Sjávaryfirborð í Reykjavík hefur hækkað á liðnum áratugum. Að teknu tilliti til landsigs fylgir sjávarborðshækkun til lengri tíma meðaltalshækkun heimshafanna. Breytingar á afrennsli vatnsfalla valda því að vatnsorkukerfið getur skilað umtalsvert meiri orku en gert var ráð fyrir við hönnun þess.

Líklegast er að hlýnun verði um 1°C fram að miðbiki þessarar aldar, en 1,4 til 2,4 gráður við lok hennar.


Líklegast er að hlýnun við Ísland á næstu áratugum verði rúmlega 0,2 °C á áratug og um miðja öldina hafi hlýnað um 1°C, miðað við núverandi meðalhita (mynd 5). Eins og gefur að skilja eru nokkur óvissumörk á þessu mati, en líklegast verður hlýnunin á bilinu 0 til 2 °C. Meðal þeirra þátta sem auka á óvissuna eru langtímabreytingar á hafstraumum og líklegur samdráttur í djúpsjávarmyndun og lóðréttri hringrás á Norður Atlantshafi. Ólíklegt er þó að þessi hafhringrás breytist snögglega. Horfur á hlýnun á fyrri hluta aldarinnar eru lítið háðar forsendum um losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. hlýnunin er álíka í mismunandi sviðsmyndum IPCC (sjá grænt, rautt og blátt á mynd 5). Fyrir síðari hluta aldarinnar skipta forsendur um losun meira máli og er mestri hlýnun spáð í þeim sviðsmyndum sem gera ráð fyrir mestri losun. Við lok aldarinnar má ætla að hlýnunin geti numið um 1,4 til 2,4 °C en ef fullt tillit er tekið til óvissu liggur hlýnunin á bilinu 0 til 3,6°C. Þó yfirgnæfandi líkur séu á hlýnun til lengri tíma halda áratugasveiflur áfram og valda því að skeið verulegrar hlýnunar og skeið hægfara hlýnunar eða jafnvel kólnunar munu skiptast á. Líklegast er að hlýnunin verði meiri að vetri til en að sumarlagi.

Hlýnun á Íslandi miðað við þrjár sviðsmyndir IPCC
kassarit með línum
Mynd 5. Hlýnun við Ísland á 21. öld miðað við þrjár sviðsmyndir IPCC (grænt, rautt og blátt). Sýnd er hlýnun frá væntigildi ársins 2008. Helmingur af reikniniðurstöðum líkanna liggur innan þeirra marka sem kassarnir sýna, en 90% liggur innan þeirra marka sem línurnar afmarka.
(Sjá nánar [10], bls 74)

Gera má ráð fyrir að úrkoma aukist um 2 - 3% fyrir hverja gráðu sem hlýnar, auk þess sem líklegt er að ákefð úrkomu aukist, og dögum án úrkomu fækki. Einnig er líklegt að snjóhula að vetri minnki og alhvítum dögum fækki.

Fyrirsjáanleg hlýnun mun hafa umtalsverð áhrif á náttúrufar og samfélag.


Líklegt er að á nýhafinni öld muni hitabreytingar hafa víðtæk áhrif á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Vænta má þess að jöklar hopi ört alla öldina og afrennsli frá þeim aukist mjög á fyrri hluta aldarinnar (mynd 6).

Langjökull, Hofsjökull og sunnanverður Vatnajökull
misstórir fletir sýna stærð jökuls
Mynd 6. Reiknaðar breytingar á Langjökli, Hofsjökli og sunnanverðum Vatnajökli skv. sviðsmyndum um veðurfarsbreytingar. Gefnar eru tölur um rúmmál sem hlutfall af rúmmáli 1990. (Sjá nánar [10], bls 89 og [11], bls 47)

Ísalög í ám og vötnum minnka og draga mun úr hafís norðan við landið. Sífreri dregst saman og líklega hverfa rústamýrar í Þjórsárverum, Eyjabökkum og víðar. Skógarmörk halda áfram að færast ofar í landið, gróðurþekja eykst og nýjar fugla- og skordýrategundir nema land. Líklegt er að loftslag verði full hlýtt hér á landi í lok aldarinnar fyrir norðlægar fuglategundir, s.s. þórshana og stuttnefju (mynd 7).

Líklegt er að við hóflega hlýnun muni breytingar í hafinu halda áfram þeirri þróun sem þegar hefur komið fram á síðasta áratug eða svo. Sumar tegundir munu enn auka útbreiðslu sína til norðurs, en kaldsjávartegundir, s.s. loðna, grálúða og rækja hopa fyrir auknum hlýsjó við landið. Þannig er líklegt að meira verði um göngur úr norsk-íslenska síldarstofninum og meira verði af kolmunna og makríl hér við land.

Þótt þessar breytingar á vistkerfi hafsins séu umtalsverðar er líklegt að áhrif nýtingar á nytjastofna verði meiri í heildina tekið. Hlýnun á heimskautasvæðum kann þó að opna nýjar lendur fyrir flökkustofna (s.s. loðnu, síld og kolmunna) sem nú ganga á Íslandsmið. Óbein áhrif þess á lífríkið kunna að reynast veruleg.

Áhrif loftslagsbreytinga á landbúnað verða líklega að mestu leyti jákvæð. Gera má ráð fyrir aukinni uppskeru á þeim fóður- og matjurtum sem nú eru ræktaðar auk þess sem nýjar nytjategundir verða teknar til ræktunar.

Með auknu afrennsli mun heildarvatnsafl landsins aukast og taka þarf tillit til þess við endurmat og hönnun virkjana. Líklegt er að jökulár muni breyta um farvegi sem getur leitt til þess að rennsli undir sumum brúarmannvirkjum aukist meðan önnur standa á þurru.

Rýrnun jökla mun valda landrisi, einkum við suðausturströndina og það vegur á móti spám um hækkandi sjávarstöðu. Landris vegna farglosunar nær þó ekki til Suðvesturlands, en þar hefur landsig verið nokkurt. Samkvæmt niðurstöðum IPCC verður hnattræn sjávaryfirborðshækkun líklega á bilinu 0,2 til 0,6 m á næstu öld og benda nýrri rannsóknir til þess að hugsanlega verði hækkunin enn meiri. Hækkun sjávarstöðu getur því orðið verulegt vandamál, sérstaklega þar sem land er að síga. Þetta á m.a. við um lágsvæði á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaganum. Mikilvægt er því að lóðréttar hreyfingar lands og breytingar á sjávarstöðu verði vaktaðar enn betur en nú er gert. Einnig er mikilvægt að miðað sé við besta mat á líklegri sjávarborðshækkun þegar skipulagt er á lágsvæðum.

Sjávarborðshækkun eykur líkur á sjávarflóðum. Fleiri álagsþættir auka náttúruvá. Vetrar- og haustflóð í ám þar sem saman fer úrhellisrigning og leysing, gætu orðið meiri og flóð af þeirri tegund orðið víðar á landinu. Þá gætu vorflóð orðið sneggri og meiri. Reynslan sýnir að breytingar verða á hlaupum úr jaðarlónum jökla þegar þeir þynnast og geta hlaupin orðið ákafari um skeið. Farglosun vegna bráðnunar jökla lækkar bræðslumark bergs í jarðskorpunni sem eykur framleiðslu kviku og líkur á eldgosum. Líkur á jökulhlaupum sem verða vegna eldgosa undir jöklum munu því aukast eitthvað. Þó snjóflóðum fækki líklega með hlýnandi veðurfari, eru ekki forsendur til að ætla að það hafi afgerandi áhrif á snjóflóðahættu hér á landi á næstu áratugum.

Í hnotskurn eru niðurstöður þessarar skýrslu þær, að áhrifa hlýnunar sé nú þegar farið að gæta í náttúru landsins og að verulega meiri áhrifa sé að vænta á þessari öld. Mikilvægt er að vakta þessar breytingar til að unnt sé að spá betur fyrir um afleiðingar þeirra og áhættu fyrir náttúru og samfélag.

Langvía
dökkir og fínlegir sjófuglar í nærmynd
Mynd 7. Langvía er algengur sjófugl hér við land. Sjófuglastofnar eru viðkvæmir fyrir umhverfisbreytingum í hafinu við landið og sveiflur eru talsverðar í stofnum bjargfugla og varpi þeirra. Ekki er ólíklegt að umtalsverðar breytingar geti orðið á varpstofnum margra sjófuglategunda á næstu áratugum samfara hlýnandi veðurfari. Ljósmynd: Freydís Vigfúsdóttir, Náttúrfræðistofnun Íslands.
 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica