Þrávirk lífræn efni
í úrkomu og lofti
Vaktað hefur verið síðan árið 1995 hvaða þrávirku lífrænu efni mælast í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en þau eru fyrst og fremst álitin berast með lofthjúpnum að Íslandsströndum erlendis frá.
Að auki eru þar nýrri safnanir á vegum kanadískra og tékkneskra aðila þar sem fyrst og fremst er verið að gera tilraunir með annars konar aðferð.
Veðurstofan ber eingöngu ábyrgð á sýnaröðinni frá 1995. Um er að ræða hálfsmánaðarsýni. Sömu efni eru vöktuð í úrkomu (ng/l) og andrúmslofti (pg/m3):
- alfa-HCH, beta-HCH og gamma-HCH,
- p,p'-DDE, p,p'-DDD, o,p'-DDT, og p,p'-DDT
- HCB og díeldrin,
- cis-klórdan, trans-klórdan, trans-nonaklór,
- PCB-28, -31, -52, -101, -105, -118, -138, -153, -156, -180
- toxafen-26, -50 og -62
- BDE-47, -99, og -100
Gögnin eru send í evrópskan gagnagrunn sem Norska loftrannsóknastofnunin, NILU, hýsir. Einnig eru þau send til OSPAR sem er samningur um vöktun norðaustur Atlantshafs, sjá CAMP data report 2007 (pdf 0,9 Mb). Mengunarmálin heyra undir Úrvinnslu- og rannsóknasvið Veðurstofunnar.
Þrávirknin stafar af klór í kolvetnunum
úr Nord 1996:25
Stöðugleiki og lífslengd kolvetna eykst þegar vetnisatómum er skipt út fyrir klór og slíkir eiginleikar geta verið hagnýtir. Því miður eykur klórunin einnig fituleysni efnanna sem veldur því að þau haldast í fituríkum vefjum lífvera og safnast upp í fæðukeðjunni. Fyrsta lífræna efnið sem sannanlega reyndist hættulegt umhverfinu var skordýraeitrið DDT. Síðar bættust HCH efnin í þann hóp en þekktast þeirra er lindan sem notað var á Norðurlöndum fram undir 1990. Áþekk efni eru eru díeldrín, klórdan og toxafen.
Önnur klórlífræn efni voru ekki ætluð til dreifingar í náttúrunni en hafa lekið út í miklu magni, til dæmis PCB efni sem notuð voru í rafmagnsbúnað og byggingarefni og HCB sem er óæskileg hliðarafurð í efnaiðnaði. Sum iðnaðarferli fela það í sér að efnum sem innihalda klór verður að breyta eða þá brenna þau. Í útblæstri frá slíkum verksmiðjum finnast mjög eitruð efni, svokölluð díoxín, og eitt þeirra er talið eitraðasta efni sem framleitt hefur verið.
Klórlífræn efni geta borist mjög langt, aðallega með vindum en einnig með ám og hafstraumum. Stöðugleiki þeirra veldur því að þau brotna seint niður í náttúrunni, enda oft kölluð þrávirk lífræn efni. Þau rokgjörnustu, HCH, HCB og toxafen, hafa dreifst tiltölulega jafnt yfir allan heiminn.
Taka má PCB sem dæmi um þrávirknina: Framleiðslu þess hefur verið hætt nærri allsstaðar en það berst enn út í náttúruna frá vörum sem eru í notkun eða lent hafa á sorphaugum. Rannsókn á PCB í selum hefur leitt í ljós að að styrkurinn er tvöfalt meiri við Ísland en Svalbarða og fimmtán sinnum meiri í Norðursjó.
Hættan á skaða verður sérstaklega mikil þegar dýr sveltur því þá minnka fituvefirnir og efni sem legið hafa í fitunni losna og berast til mikilvægra líffæra með blóðinu. Ísbjörninn, sem er efstur í fæðukeðju sjávar, lætur sér oft nægja að éta aðeins spikið af þeim selum sem hann drepur og styrkur PCB í ísbirni getur verið allt að þúsund milljón sinnum hærri en í hafinu umhverfis.
Styrkur PCB fer minnkandi í náttúrunni í dag, svo og styrkur DDT og flestra ofangreindra efna. En stöðugt eru framleidd ný þrávirk efni, t.d. eldvarnarefni sem innihalda bróm, og þegar frá líður greinast nýju efnin í náttúrunni. Viss afbrigði DDT, PCB, HCH og díoxíns líkjast kvenhormónum og eru ef til vill skýringin á minnkandi frjósemi, bæði hjá karlmönnum og karldýrum sumra tegunda.
Engin ástæða er til annars en að vera áfram á varðbergi gagnvart þrávirkum lífrænum efnum og Veðurstofan leggur sitt af mörkum með því að vakta fyrrgreind efni (nema díoxín) í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en niðurstöðurnar geta verið vísbending um flutningsleiðir þessara efna og skerpt heildarmyndina af ferðalagi þeirra frá iðnaðarsvæðum tempraða beltisins til norðurheimsskautsins.
Endursagt og staðfært úr:
Heimskautssvæði Norðurlanda - ósnortið, ofnýtt, mengað?
Norræna ráðherranefndin, Kaupmannahöfn, 1996 (Nord 1996:25)
Höfundur meginmáls: Claes Bernes. Þýðendur: Ásta Erlingsdóttir og Erling Erlingsson