Hitafar á Íslandi eftir 1800

línurit
Ársmeðalhiti í Stykkishólmi 1798 til 2006.

Trausti Jónsson 23.1.2007

Hitafar í Stykkishólmi

Mynd nr. 1 sýnir meðalhita hvers árs í Stykkishólmi 1798 til 2006 (með þeim fyrirvörum sem taldir eru í ítarefni) [1]. Sjá má að hitafar síðustu 200 ára hefur verið með ýmsu móti.

Í fljótu bragði sýnist sem hiti hafi smám saman farið hækkandi, leitnin upp á við samsvarar tæpum 0,7°C á öld. Þetta er svipað og hækkun hita á norðurhveli öllu á sama tíma. En leitnilínan leggur e.t.v. of mikla áherslu á jafna hlýnum. Alveg eins má líta á tímann fyrir 1920 sem jafnstöðuskeið, þar sem hiti sveiflaðist óreglulega kringum 3°C.

Tíminn eftir 1925 einkennist af einni stórri hitasveiflu sem ekki sýnir verulega leitni sem heild, þó að síðustu 20 árin hafi hiti legið nokkuð ákveðið upp á við. Við nánari skoðun kemur í ljós að nokkrar skiptingar má einnig sjá í hitafari fyrir 1925.

Eftir 1893 voru sveiflur milli ára minni en áður og má segja að köldustu árin detti þá út. Sömuleiðis er lítið um mjög köld ár á tímabilinu frá því 1837 til 1858 og fyrir utan stakt ár, 1835, og fáeina einstaka mánuði að auki, má tala um einhvers konar hlýindaskeið frá því um 1813 fram til 1858.

Mjög kaldur kafli kom á árunum 1807 til 1812. Þótt hlýindaskeið 19. aldar hafi verið fremur lítilvægt í okkar augum varð það þó sennilega til þess að hagur í landinu batnaði og bjartsýnir menn leituðu með nýbýli upp um heiðar. Margir hröktust síðan þaðan aftur þegar kuldarnir á 7. og 9. áratugnum surfu að, jafnvel til Ameríku.

Hlýindaskeiði 20. aldar, sem hófst upp úr 1920, lauk mjög snögglega 1965. Því má þó skipta í styttri tímabil, hið fyrsta fram til 1942, blandaðri kafli kom svo á árunum 1943 til 1952 en síðan var eindregið hlýtt aftur 1953 til 1964.

Kuldaskeiðið frá 1965 til 1986 skiptist í þrjú styttri tímabil, hafísárin svokölluðu 1965 til 1971, skárri ár 1972 til 1978 og síðan kuldaskeiðið 1979 til 1986.

Síðan hefur hitinn legið upp á við, að vísu með smábakslagi á árunum 1992 til 1995. Síðustu árin, 2003 til 2006, hafa verið jafnhlý og best gerðist á fyrra hlýindaskeiði.

Í aðalatriðum taka þessar hitasveiflur til landsins alls en þegar rýnt er í styttri skeið, bæði einstök ár og jafnvel upp í 5 til 7 ára tímabil kemur smámunur í ljós, allt eftir því hvers eðlis hitasveiflurnar eru.

Aftur upp

Samanburður á hita í Stykkishólmi, á Akureyri og í Reykjavík

Taka má dæmi sem skýrir þetta. Mynd 2 sýnir 7 ára keðjumeðaltöl áranna 1947 til 2005 á þremur veðurstöðvum. Við sjáum í enda hlýindaskeiðsins um 1965 og síðan þrjú kuldaköst, 1965 til 1971, 1979 til 1986 og 1992 til 1995.

Hafísárakuldakastið er kaldast á Akureyri, fyrstu tvö köstin eru jafnköld í Stykkishólmi, en kastið 1979 til 1986 er kaldast af köstunum þremur í Reykjavík. Síðasta kastið er lítið áberandi hér á landi en var mjög áberandi á Grænlandi.

línurit
Mynd 2. Hiti á þremur veðurstöðvum: Reykjavík (rauður ferill), Stykkishólmur (blár ferill) og Akureyri (grænn ferill). Sjö ára keðjumeðaltöl.

 

Eðli þessara kasta var misjafnt. Hafísárakastið tengdist þrálátum norðanáttum, hafís og miklum sjávarkuldum fyrir norðan og austan land. Loftþrýstingur var þá tiltölulega hár - hæðin yfir Grænlandi var öflug og þrálát.

Miðkastið tengdist hins vegar lágum loftþrýstingi, landið var langtímum saman langt inni í köldu lofti af vestrænum uppruna. Þegar þannig hagar til vill verða kaldast að tiltölu um landið vestanvert.

Ísland var aðeins í austurjaðri síðasta kastsins, en það varð öflugast á Vestur-Grænlandi.

Aftur upp

Vetrarhiti í Stykkishólmi

Spyrja má hvort kuldarnir fyrir 1925 hafi einnig verið af mismunandi uppruna. Á því er ekki nokkur vafi en við látum það liggja á milli hluta hér. Breytileiki veðurfars er mestur hér á landi að vetrarlagi. Ástand vetrarins ræður því mjög miklu um ásýnd hitaferla ársins. Enda kemur í ljós að ámóta mynd, sem aðeins sýnir vetrarhitann (desember til mars), er mjög svipuð.

 

línurit
Mynd 3. Vetrarhiti í Stykkishólmi. Leitnin (rauð lína) er 1,2°C á öld.

 

Við sjáum svipaða tímabilaskiptingu og á árshitamyndinni. Slatti af sæmilega hlýjum vetrum kom á 19. aldar hlýskeiðinu frá því um 1820 og fram undir 1860.

Hlýnunin um 1920 er mjög snögg og sömuleiðis kólnunin um miðjan sjöunda áratug 20. aldar. Einnig sést vel hvernig veturnir 2003 til 2006 skera sig úr og eru svipaðir og best gerðist á hlýindaskeiðinu eftir 1920.

Veturinn 1880 til 1881 er sá langkaldasti á tímabilinu öllu og 1917 til 1918 var langkaldasti vetur 20. aldar.

Hlýjasti vetur 19. aldar var 1846 til 1847 og komu fleiri góðir vetur um það leyti.

Aftur upp  

Sumarhiti í Stykkishólmi

línurit
Mynd 4. Sumarhiti í Stykkishólmi. Leitnin (rauð lína) er 0,2° á öld

 

Mynd 4 sýnir sumarhitann (júní til september). Hér má enn sjá að hlýju tímabil 19. og 20. aldar skera sig nokkuð úr. Sumarhlýindi 20. aldar hófust þó aðeins síðar en vetrarhlýindin og þeim lauk einnig fyrr.

Sumurin frá 1960 fram yfir miðjan 10. áratuginn voru ekkert mikið betri en sumur 19. aldar. Hér verður þó að hafa í huga að í hafísasveitum hefur ástandið verið laklegra á 19. öld en síðar. Sumarið 1882 er það versta í Stykkishólmi og einnig víðast hvar fyrir norðan. Til dæmis var október 1882 hlýjasti mánuður ársins í Grímsey, sumarið kom sem sagt alls ekki. Leitnin yfir allt tímabilið er aðeins 0,2°C og er ekki marktæk.

Vegna þess að breytileikinn er mun minni á sumrum en vetrum (berið saman hitakvarðana á myndunum tveimur) er leitni sumarhitans ekki marktæk. Sömuleiðis skulum við hafa í huga að óvissa í reikningum á sumarhita er mikil (mælar eru mjög næmir fyrir sólgeislun, sem er langmest á sumrin). Munur 19. og 20. aldar gæti því hafa verið meiri en landið hélst þrátt fyrir allt í byggð þannig að gras hefur sprottið.

Aftur upp

Vorhiti í Stykkishólmi

 

línurit
Mynd 5. Vorhiti (apríl og maí) í Stykkishólmi. Leitnin (rauð lína) er 0,7°C á öld.

 

Á vorhitamyndinni (mynd 5) má enn sjá hlýskeiðin og tímabilið um 1840 til 1850 áberandi best á 19. öld, enda er talið að hafís hafi þá verið minnstur á öldinni. Mjög kalt tímabil tók síðan við og stóð fram yfir 1920.

Stutt tímabil slæmra vorkulda kom einnig í kringum 1950, hafísárin voru líka slæm og sömuleiðis voru köld vor um 1980, verst 1979.

Verstu vor 19. aldar voru 1859 og 1812.

Aftur upp  

Hausthiti í Stykkishólmi

 

línurit
Mynd 6. Hausthiti (október og nóvember) í Stykkishólmi. Leitnin (rauð lína) er 0,8°C á öld.

 

Haustmyndin er með nokkuð öðru sniði en hinar. Ekki mótar fyrir 19. aldar hlýskeiðinu og 20. aldar hlýskeiðið byrjar seinna og er ekki eins mikið um sig og á öðrum tímum árs. Klasar af köldum haustum komu hver á fætur öðrum á 7. og fyrri hluta 8. áratugar 20. aldar.

Talsvert vantar upp á að haust síðustu ára hafi verið jafnhlý og best gerðist milli 1940 og 1960. Er það ólíkt öðrum árstímum.

Aftur upp

Fleira af hitafari

Mynd 7 sýnir ársspönn (mismun af meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins)hitafars í Stykkishólmi. Tvö ár skera sig úr, 1881 og 1918, frostaveturnir miklu sjá til þess, og 1880 á einnig stóra spönn. Það stafar fyrst og fremst af sérlega köldum desember það ár, en sá mánuður tilheyrir frostavetrinum.

Þau ár sem eiga litla spönn eru þau með hlýjum vetrum en köldum sumrum. Við sjáum að slík ár voru fremur fá á 19. öld, 1851 er þó undantekning en þá var vetur hlýr en sumarið köflótt. Júní var mjög kaldur, en hagstæð heyskapartíð bjargaði sumrinu þannig að eftirmæli þess eru nokkuð góð.

Á 20. öld var algengt að vetur væru hlýir en sumur svöl. Það er 1922 sem á minnstu ársspönnina, útjafnaðasta ár allra tíma á þessum ákveðna mælikvarða.

Merkjanlegur munur er á þróun hitafars í einstökum landshlutum. Hér er þó rétt að hrapa ekki um of að ályktunum.

 

línurit
Mynd 7. Ársspönn hitafars í Stykkishólmi (mismunur hæsta og lægsta mánaðarhita hvers árs).

 

Mynd 8 sýnir þó að mun kaldara var við norðurströndina á hafísárunum 1965 til 1971 heldur en syðra og skera þau sig greinilega úr. Veðurfar þessara ára var hvað þetta varðar afturhvarf til tímanna fyrir hlýindaskeiðið mikla. Minnstur varð munurinn á árinu 1984, en þá var sumar óvenju hlýtt á Norðurlandi en sífelldar hafáttir og rigningar syðra.

 

línurit
Mynd 8. Mismunur á ársmeðalhita í Grímsey og í Vestmannaeyjum. Þessi mynd nær ekki jafnlangt til baka og hinar fyrri.

 Aftur upp

línurit
Mynd 9. Ársmeðalhiti á Akureyri. Athugið að munur á kaldasta og hlýjasta ári er hér öllu meiri en í Stykkishólmi og hitakvarði myndanna ekki hinn sami.

Ársmeðalhitinn á Akureyri er sýndur á mynd 9. Þar eru einkenni svipuð og í Stykkishólmi, en heilleg mæliröð nær aðeins aftur til 1882 (mælingar á Akureyri frostaveturinn mikla eru óvissar ennþá) og verður að hafa í huga að fyrir þann tíma svífa ársgildin nokkuð í lausu lofti. Líklegt er að eitthvað stoppist í götin síðar.

Árið 1933 er ennþá það hlýjasta þó hlýnunin síðan 1983 sé gríðarleg. Athygli má vekja hversu mörg köld ár komu í röð með hafísnum á sjöunda áratug tuttugustu aldar.

Breytileiki hita frá degi til dags (við kjósum að kalla það hitaóróa eða flökt) hefur verið misjafn gegnum tíðina (mynd 10) og heildarferillinn minnir nokkuð á ritið sem sýnir mismun á hita í Grímsey og Vestmannaeyjum. Þegar sá mismunur er mikill er stutt á milli jafnhitalína yfir landinu, bratti hitasviðsins er mikill og litlar hreyfingar á því þarf til að hiti hlaupi mikið til frá degi til dags.

Hafísárin seint á sjöunda áratugnum skera sig úr tímanum í kring og óróinn var lengst af meiri frá degi til dags á 19. öld, en þeirri 20.

 

línurit

Mynd 10. Hitaórói frá degi til dags (kl. 9 til kl. 9) í Stykkishólmi 1846 til 2006.

Aftur upp

 

 

 

 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica
Á þessum vef eru vafrakökur notaðar við nafnlausar notkunarmælingar, en engin virkni tengist markaðssetningu. Sjá nánar