Hitabylgjur og kuldaköst 1924 til 2006
Myndir 1 og 2 sýna hitabylgju- og kuldakastavísitölur áranna 1924 til 2006. Skilgreiningar, nánari útskýringar og umfjöllun um helstu veikleika aðferða sem notaðar eru við gerð mælitalnanna má finna í greinargerðum sem aðgengilegar eru á netinu (Trausti Jónsson, 2003d, 2003e [59-60]).
Mynd 1. Hitabylgjuvísitölur 1924 til 2006. Skilgreiningar má finna í greinargerðunum Sveiflur V. Hitabylgjur og hlýir dagar og Sveiflur VI. Kuldaköst og kaldir dagar frá árinu 2003.
Mynd 2. Kuldakastavísitölur 1924 til 2006. Skilgreiningar má finna í greinargerðunum Sveiflur V. Hitabylgjur og hlýir dagar og Sveiflur VI. Kuldaköst og kaldir dagar frá árinu 2003.
Aftur uppSkilgreiningar á hitabylgjum og kuldaköstum
Í greinargerðum Trausta Jónssonar um kuldaköst og hitabylgjur eru nokkrar gerðir skilgreininga bornar saman, en í aðalatriðum liggja talningar á þeim dögum þegar hámarkshiti fer yfir 20°C á landinu og dögum þegar lágmarkshiti fer niður fyrir mínus 12°C til grundvallar vísitalnanna. Leiðrétt er fyrir mismunandi fjölda stöðva gegnum tímabilið allt.
Þótt mismunandi skilgreiningar á hitabylgjum og kuldaköstum gefi ekki allar nákvæmlega sömu niðurstöður ber þeim saman um aðalatriði.
Kuldaköst voru í hámarki á hafísárunum (1965 til 1971) en í lágmarki í hlýindunum um og upp úr 1930. Minna hámark er upp úr 1940 (litlu hafísárin) og nokkuð eindregið lágmark á sjötta áratug 20. aldar.
Síðustu 30 árin eða svo hefur kuldaköstum smám saman farið fækkandi. Árin 1968 og 1969 skera sig nokkuð úr varðandi snerpu í kuldaköstum, bæði hvað varðar útbreiðslu um landið og lengd. Mikil kuldaköst komu einnig 1966, 1973, 1992 og 1998.
Hitabylgjur voru í hámarki milli 1930 og 1945, úr þeim dró mjög um 1950 og hitabylgjur voru fæstar á sjöunda áratugnum, um svipað leyti og hafís var í hámarki hér við land.
Rýrustu hitabylgjusumurin voru 1961 og 1979. Athyglisvert er að hitabylgjutíðnin virðist hafa fallið talsvert áður en meðalhiti ársins lækkaði með hafísnum. Þetta minnir að nokkru á sumarhitalínuritið (sjá mynd 4 í Hitafar á Íslandi).
Hitabylgjum hefur farið fjölgandi á síðari árum í takt við hækkandi sumarhita.
Hitabylgjur voru mestar og tíðastar sumarið 1939. Af einstökum hitabylgjum er ágústbylgjan 2004 sennilega sú mesta á öllu tímabilinu, en skammt undan eru hitabylgjur í júní og júlí 1939, júlí 1944, júlí 1980 og júlí 1991.