Úrkoma á Íslandi frá 1860

Trausti Jónsson 24.1.2007

Mun erfiðara er að mæla úrkomu [1] en hita. Breytingar á umhverfi stöðvar eru venjulega miklar, þegar mælt er lengi. Hús eru byggð, rifin og þeim breytt, trjágróður kemur og fer, stöðvar eru fluttar til o.s.frv.

Langar mæliraðir úrkomu eru því mun óvissari en mælingar á bæði hita og loftþrýstingi. Höfum það rækilega í huga. Þegar farið er að líta á einstakar mæliraðir kemur í ljós að ósamfellur ríða þeim mjög á slig. E.t.v. er hægt að mæta þessu að einhverju leyti með því að taka saman stöðvar í heilum landshlutum eða landinu öllu.

Þá verður vandamál að það er fyrst um 1960 sem farið var að mæla úrkomu í flestum byggðum landsins. Líklegt er talið að meðalúrkoma allra stöðva eftir þann tíma sé sæmileg vísbending um úrkomumagn frá einum áratug til annars. Fyrir þann tíma er staðan óvissari, og fyrir 1920 var úrkoma aðeins mæld á sárafáum stöðvum og óvissan nánast óbærileg.

línurit
Mynd 1. Meðalúrkoma allra stöðva á Íslandi ásamt upplýsingum um fjölda stöðva. Línuritið er talið sæmilega öruggt frá því um 1960.
Aftur upp

Við lítum hér á tvær myndir. Sú fyrri (mynd 1) sýnir meðalúrkomu allra stöðva frá því um 1920 til okkar daga. Græni punktaferillinn sýnir fjölda stöðva að baki meðaltalsins, súlurnar úrkomu einstakra ára og rauði ferillinn er 11-ára keðjumeðaltal. Hér má sjá að úrkoma virðist heldur hafa aukist frá 1960 að telja, en tímabundnu hámarki hafi e.t.v. verið náð um 1990.

Úrkoma var meiri á fjórða áratugnum en þeim sjötta. Nánari athugun leiðir í ljós að úrkoma jókst um nær allt land frá tímabilinu 1961 til 1990 til tímabilsins 1971 til 2000. Eina undantekningin var lítið svæði um landið austanvert.

Mynd 2 sýnir ársúrkomu í Stykkishólmi frá 1857 til 2006. Þar er heildarmyndin með nokkuð öðrum brag.

línurit
Mynd 2. Ársúrkoma í Stykkishólmi 1857 til 2006.
Aftur upp

Úrkoman er langmest á millistríðsárunum, hámarkið er 1933 (hlýjasta árið fyrir norðan).

Þurrustu árin voru 1881 og 1916, í báðum tilvikum voru norðlægar áttir ríkjandi og þrýstingur var hár, þ.e.a.s. að hæðin yfir Grænlandi var óvenju þaulsetin.

Það vekur athygli að á 20. öld kom úrkoman í miklum gusum og munur á þurrum og votum árum var mjög mikill. Þessar stóru sveiflur eru örugglega réttar (sbr. meðalúrkomumyndina), en leitni í Stykkishólmi er mjög óviss vegna sífelldra flutninga stöðvarinnar innan þorpsins.

Við athugun kemur í ljós að úrkoma er heldur meiri í hlýjum árum en köldum um mikinn hluta landsins. Stundum er þó bæði mjög þurrt og hlýtt norðaustanlands.

 

 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica