Vigurvindur á landinu frá 1949 til 2006

Trausti Jónsson 9.3.2007


Þótt Ísland sé í lægðabraut og háloftavindar blási að meðaltali yfir árið ætíð úr 45°-geiranum milli suðvesturs og vesturs er samt algengara við séum norðan við lægðarmiðjur heldur en sunnan við þær. Vindur úr austri og norðaustri er því ívið algengari en úr suðri eða vestri.

Áraskipti eru þó nokkur og má meta þau með því að reikna út svokallaðan vigurvind fyrir landið allt. Þá er vindátt í öllum athugunum greind í tvær hornréttar stefnur, annars vegar austur/vestur en hins vegar norður/suður. Meðaltal er síðan reiknað fyrir stefnurnar fyrir alla daga, mánuði og ár.

Í gagnagrunni Veðurstofunnar eru nú nær allar veðurathuganir á landinu frá 1949 að telja og það sem hér er sagt miðast eingöngu við það tímabil.


Fylgni vindstefna

Til lengri tíma litið er þó nokkur fylgni milli stefnanna, þannig að sé austanátt sterk er norðanáttin það gjarnan líka, sé vestanátt ríkjandi fylgir hún gjarnan sunnanátt.

Ástæðu þessarar fylgni er fyrst og fremst að leita í landslagi Íslands og áhrifa frá Grænlandi, látum það liggja á milli hluta hér. Þó að vestanáttir séu algengar hér á landi standa þær að jafnaði styttra hverju sinni heldur en austlægu áttirnar. Hlutur vestanáttar er stór einstaka daga, vestanátt getur einnig verið ríkjandi heila mánuði eða árstíðir, en minnkar þegar litið er á ársmeðaltöl og er enn minni í lengri meðaltölum.

línurit

Mynd 1. Styrkur austanáttarinnar á Íslandi 1949 til 2006. Austanátt er talin jákvæð, neikvæðu gildin (fá) eru vestanátt.

Aftur upp

Mynd 1 sýnir styrk austanáttarinnar síðustu 57 árin. Þykkari línan (sú rauða) sýnir 7-ára keðjubundin meðaltöl og með góðum vilja má sjá að heldur hefur dregið úr austanáttinni þetta tímabil (blá, þykk lína). Hún var í hámarki um 1950, næsta hámark er um 1960 og síðan um 1980. Vestanáttin hefur að sama skapi heldur færst í aukana.

Tölfræðileg próf segja þessa þróun marktæka, en rétt er að hafa í huga að slíkir reikningar segja ekkert til um það sem gerðist fyrir þennan tíma og ekkert um framhaldið heldur. Unnið er að túlkun eldri gagna.

Þynnri og óreglulegri línan sýnir 12-mánaða keðjubundin meðaltöl. Austanáttin er þar nýkomin úr lágmarki um þessar mundir (en vestanátt hámarki). Ámóta vestanáttarhámörk hafa þó komið áður, alla vega 1957, 1972 og 1976, auk nokkurra smærri. Heldur hefur dregið úr austanáttarhámörkunum, það mesta var 1950 (úrkomuár eystra, þurrt vestanlands). Hámarkið haustið 2002 var mjög minnisstætt með metúrkomu á Austurlandi.

Freistandi er að telja að heldur vaxandi vestanátt stafi af því að meira hefur hlýnað í veðri fyrir norðan og austan land heldur en fyrir sunnan og vestan og að dregið hefur úr ís á norðurslóðum.

Haldi hlýnun áfram að vera meiri þar en fyrir sunnan landið, er ekki ólíklegt að þessi áratugalanga þróun haldi eitthvað áfram. En austanáttin mun halda áfram að sýna góða spretti, eins og línuritið sýnir, og varasamt er að telja stórar sveiflur milli ára sem dæmi um að allt sé að fara á versta veg.

línurit

Aftur upp

Mynd 2. Styrkur norðanáttarinnar á Íslandi 1949 til 2006. Norðanátt er talin jákvæð, neikvæðu gildin (algeng) eru sunnanátt.

Norðanáttin (mynd 2) sýnir enga langtímaleitni, en sveiflur á tímabilinu eru töluverðar. Á sjöunda áratugnum kom langt norðanáttaskeið (hafísárin), hámark á myndinni, sem lauk mjög snögglega í árslok 1971. Norðanáttin hefur nokkrum sinnum náð sér upp síðan. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica