Íslensk eldfjöll

Eldsumbrot í Eyjafjallajökli

Jökullinn í október 2014

Magni volgur
""
Úr flugi yfir Eyjafjallajökul 24. október 2014. Enn eru glæður síðan 2010. Myndin sýnir að snjó festir ekki á Magna. Ljósmynd: Reynir Ragnarsson.
Enn hiti þremur árum síðar
""
Úr flugi yfir Eyjafjallajökul 24. október 2014. Enn eru glæður síðan 2010; snjó festir ekki allsstaðar. Ljósmynd: Reynir Ragnarsson.

Jökullinn í nóvember 2010

Horft norður yfir Eyjafjallajökul og toppgíginn yfir að Tindfjöllum og Heklu.

Sprunga
gullnir geislar á jökli
Horft norður yfir Eyjafjallajökul og toppgíginn yfir að Tindfjöllum og Heklu í ljósaskiptunum 28. nóvember 2010 kl. 14:51. Sprungan, sem myndaðist við gosið og úr kom hlaup í Svaðbælisá, sést til vinstri. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson í Forsæti III.

Gígarnir í október - skráð 11.10.2010

Meðfylgjandi mynd frá Ólafi Sigurjónssyni, Forsæti III, var tekin kl. 8:10 að að morgni 9. október 2010. Fróðlegt er að bera hana saman við eldri myndir af gígnum neðar í þessari grein. Veðurstofan þakkar Ólafi fyrir að fylgjast með eldstöðvunum, senda myndir og gefa leyfi til birtingar á þeim.

Gígarnir
gígar snævi þaktir
Fyrsti snjór vetrarins er fallinn. Greinilega er orðið kalt í kringum vatnið í botni aðalgígsins. Myndin var tekin við sólarupprás laugardaginn 9. október 2010 kl. 08:10. Ljósm.: Ólafur Sigurjónsson, Forsæti III.

Gróður í ágúst - skráð 7.10.2010

Eins og alkunnugt er hefur engra hræringa orðið vart í Eyjafjallajökli síðan snemmsumars. Hér er hins vegar ljósmynd síðan í ágúst sem sýnir hvað gróðurinn náði sér vel á strik í nágrenni eldstöðvanna, þrátt fyrir mikið öskufall.

Eyjafjöll
græn slikja í fjallshlíð
Eldgos hófst í Eyjafjallajökli aðfaranótt 14. apríl 2010 en hrinunni lauk um 23. maí. Myndin er tekin að morgni 10. ágúst 2010. Grænn litur er kominn á Eyjafjöllin ofan við Þorvaldseyri sunnan jökulsins en þau voru svört af ösku fram eftir sumri. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson í Forsæti III.

Gufumökkur að morgni 09.07.2010 - skráð kl. 12:15

Allt að þriggja km (8000-9000 feta) gufumökkur sást upp af eldstöðvunum í Eyjafjallajökli í morgun og varð vart þegar í gærkvöldi. Almannavarnir tilkynntu Veðurstofunni um gufubólstra um kl. 04. Enginn gosórói hefur sést á mælakerfi Veðurstofunnar og lítil skjálftavirkni er í jöklinum. Skjálftarnir sem hafa mælst undanfarið eru grunnir og litlir. Mökkurinn er hvítur og enga ösku að sjá í honum.

Veður á staðnum er kyrrt og bjart og því sést vel til makkarins. Undanfarið hefur hins vegar verið nokkuð skýjað og öskufjúk þannig að ekki hefur sést vel til gosstöðvanna.

Tilkynning barst einnig í morgun um tvo stróka en ekkert slíkt hefur verið staðfest. Líklega er um að ræða gufu sem leggur upp af heitu hrauni. Jarðvísindamenn hafa verið við störf á jöklinum og flogið var yfir í morgun. Aska hefur hrunið úr gígbarminum vestanverðum og ofan í gíginn og myndar þar aurkeilu.

Staðan - skráð 23.06.2010 kl. 09:10

Litlar breytingar eru við gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli. Milli 11. og 17. júní hafði hægt heldur á vatnssöfnun í gígnum frá því sem var dagana þar á undan, þar sem ísstálið virðist aftur hafa einangrast frá gígnum. Alltaf öðru hvoru sjást öskuský stíga frá gígnum og leysast síðan upp. Landbreytingar eru enn örlitlar í átt að gígnum, nema hvað GPS mælir á Austmannsbungu hefur hreyfst til suðvesturs, en ekki er augljóst hvernig á að túlka þá hreyfingu.

Ákveðið hefur verið að hætta að senda stöðuskýrslur Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar reglubundið í hverri viku. Hér eftir verða þær aðeins sendar ef vart verður við einhverjar markverðar breytingar.

Ísgöng í Gígjökli - skráð 23.06.2010

Á ljósmynd sem tekin var 11. júní má sjá ísgöng sem mynduðust þegar bræðsluvatn ruddi sér leið eftir Gígjökli við upphaf eldgossins. Göngin eru rétt ofan við gljúfrið sem þegar hafði myndast í móbergið en stækkaði þegar vatnið braust fram í jökulhlaupunum þann 14. apríl. Annað gljúfur hefur einnig myndast vestan við.

Lausleg túlkun á myndum og hæðarlíkani frá ÍSOR benda til að efsti hluti aurkeilunnar, sem myndast hefur neðan við gljúfrin, sé í dag í u.þ.b. 340 m hæð yfir sjó. Það er um 50 metrum hærra en lónið sem þarna var fyrir gosið.

Ísgöng í Gígjökli
Gígjökull
Ísgöng mynduðust þegar bræðsluvatn ruddi sér leið eftir Gígjökli við upphaf eldgossins í Eyjafjallajökli. Göngin eru rétt ofan við gljúfrið sem þegar hafði myndast í móbergið. Annað gljúfur hefur einnig myndast vestan við. Ljósmynd 11. júní 2010: Emmanuel Pierre Pagneux.

Staðan - skráð 17.06.2010 kl. 10:00

Í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því kl. 17:00 á þriðjudag segir, að ísveggur haldi að stöðuvatninu í gígnum austan, sunnan og vestan til en að norðan sé gígrimi sem rís um 20 m yfir vatnsborðið. Vatnið verður til við bráðnun ísveggjanna að suðvestan en þar var gígopið sem gaus úr þegar virkni tók sig upp helgina 4. - 6. júní. Ekki er ljóst hve hröð vatnssöfnunin er, en vísbendingar eru um að hún sé af stærðargráðunni einn rúmmetri á sekúndu.

Staðan - skráð 14.06.2010 kl. 10:30

Ítarefni um flóðið og gígvatnið sem lýst er hér undir má finna í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því kl. 23:00 á föstudagskvöld.

Stöðuvatnið í gígnum
gufa yfir tjörn í gíg
Gígurinn í Eyjafjallajökli að kvöldi föstudagsins 11. júní 2010. Horft í norður yfir gíginn í átt að gjallhaugnum sem stíflar lónið og varnar rennsli niður í Gígjökul. Greinileg hræring er í lóninu sem líklega stafar af völdum vatnsinnstreymis og/eða hitauppstreymis. Ljósmynd: Sveinn Brynjólfsson.

Stöðuvatn hefur myndast í gígnum - skráð 11.06.2010 kl. 18:45

Vísindamenn flugu yfir Eyjafjallajökul í morgun. Eins og glögglega má sjá á meðfylgjandi ljósmynd hefur myndast stöðuvatn í gígnum. Mögulega er enn einhver afgösun á kviku í lítilli rás eða litlum augum vestan eða suðvestan í gígveggnum, sjá brúnar slæður lengst til hægri. Gufu leggur af vatnsborðinu, en þó aðallega frá norðurjaðri þess.

Stöðuvatn í gíg Eyjafjallajökuls
gufa yfir tjörn í gíg
Gígurinn í Eyjafjallajökli kl. 07:55 föstudaginn 11. júní 2010. Ljósmynd: Sigurlaug Hjaltadóttir.

Flóð í Svaðbælisá - skráð 10.06.2010 kl. 18:30

Þess má geta að töluverðir vatnavextir urðu í Svaðbælisá í morgun í kjölfar mikillar úrkomu í nótt og snemma morguns. Vatnavöxtunum fylgdi aur og grugg sem barst inn á tún þrátt fyrir varnargarðinn sem reistur var til að verja ræktarlöndin á Þorvaldseyri. Mikil eðja var þegar í farvegi Svaðbælisár eftir flóðið þann 19. maí.

Ljósgleypnimælir við Kaldaklifsá sýndi 631 mV klukkan sex í morgun en hafði verið um 17 mV. Vatnshæðarmælirinn sýndi einnig hækkun um tæpa 40 cm eða úr 110 cm upp í tæpa 150 cm. Leiðni vatnsins er minni núna en verið hefur síðustu daga. Engar fregnir hafa þó borist af eðjuflóði en greinilegt er að einhver gjóska berst niður Kaldaklifsá.

Þessar breytingar stafa af úrkomu eingöngu og eru ekki vísbending um eldvirkni. Á gosstöðvunum er allt með kyrrum kjörum eins og kemur fram í stöðumatinu hér undir.

Staðan - skráð 10.06.2010 kl. 16:50

Engar upplýsingar eru um gosmökk, hvorki frá flugi né veðurratsjá, og ekkert hefur sést til gosstöðvanna í dag. Af og til mælast stöku litlir jarðskjálftar undir eða við toppgíginn, yfirleitt grunnir.

Á mánudagskvöld hækkaði órói lítillega aftur, en nær eingöngu á miðtíðnibandi. Þá sást einnig hærri gufubólstur á vefmyndavél Mílu á Þórólfsfelli. Bólsturinn var hvítur og líklega lítið eða ekkert um ösku í honum. Síðan hefur verið tíðindalítið á gosstöðvunum. Haldið verður áfram að fylgjast grannt með eldstöðinni.

Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því klukkan þrjú.

Öskumistur séð frá Kjalarnesi
öskufjúk
Föstudaginn 4. júní 2010 var mikið öskufjúk á Suður- og Vesturlandi. Myndin er tekin á Kjalarnesi og sýnir mistrið þegar horft er í átt til Reykjavíkur. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.

Mikilli úrkomu spáð og hætta á aurflóðum - skráð 09.06.2010 kl. 17:10

Í nótt er spáð allt að 40 mm úrkomu á Eyjafjallajökli. Reiknað er með að mest rigni á tímabilinu milli kl. 5 og 9 í fyrramálið. Við þessar aðstæður er hætta á að öskulög á Eyjafjallajökli geti skriðið fram og niður farvegi áa sem renna suður af fjöllunum. Þetta á helst við Svaðbælisá, Laugaá og Kaldaklifsá en einnig geta slík flóð komið niður Holtsá, Miðskálaá og Írá. Sjá nánar í fréttatilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kl. 16:45.

Staðan - skráð 07.06.2010 kl. 12:35

Mikil gufuvirkni er í stóra gígnum og hefur aukist síðan á fimmtudag. Vestast í honum er kominn nýr gígur og þar er sprengivirkni. Samfara óróahrinum seinnipart sunnudags risu gosmekkir upp af þessum gíg. Gosmekkir eru litlir og sprengingar litlar. Þá heyrist í hraunhruni úr rásinni milli sprenginga. Sökum mikillar gufu sást aðeins í hluta nýja gígsins sem nú er virkur. Jökullinn skríður hratt fram úr toppgígnum.

Upp úr miðjum degi þann 4. júní jókst órói á stöðvum kringum eldstöðina en datt svo niður um kvöldið. Smáóróahviður héldu áfram og laugardagsmorguninn 5. júní um kl. 09:00 varð óróinn hvað mestur en minnkaði síðan fram á sunnudagsmorgun. Síðdegis þann 6. júní fór óróinn aftur upp um tíma og smáóróaskot voru í nótt. Óróinn hefur oft risið mjög snögglega og fallið jafnsnögglega niður aftur. Hann hefur verið mestur á hærri tíðniböndunum.

Föstudagskvöldið 4. júní kl. 19:50 sást mökkur í 4,5 km hæð. Í gærkvöldi sást gufumökkur úr flugvél í um 4,5-6 km hæð. Í morgun sást gufumökkur úr flugvél í skamman tíma í um 3 km hæð.

Gjóskufall var eingöngu rétt við gíginn af og til. Mikið öskufjúk varð 4. júní. Á Raufarfelli undir Eyjafjöllum heyrðust miklar drunur síðdegis föstudaginn 4. júní.

Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því klukkan 11:00. Sjá einnig sameiginlegt minnisblað frá því kl. 12:00 þann 4. júní.

Aska
Aska á Eyjafjallajökli
Þykkt öskulag er á Eyjafjallajökli. Myndin er tekin 25. maí. Ljósmynd: Matthew J. Roberts.

Órói - skráð 05.06.2010 kl. 01:25

Frá miðjum degi 4. júní jókst órói verulega á jarðskjálftastöðvum við jökulinn og var nokkuð stöðugur fram undir kl. 20 þegar hann datt niður. Styttri óróapúlsar komu fram kl. 20:45 og kl. 21:20. Á meðan á þessum óróahviðum stóð sást svartur eða dökkgrár mökkur.

Engir skjálftar fylgdu þessum óróahviðum og undanfarið hafa eingöngu verið smáir, grunnir skjálftar undir fjallinu. Líklega hefur losnað um fyrirstöðu í gígnum með auknu gasstreymi og öskusprengingum.

Óróinn jókst aftur um kl. 00:30 og stendur enn þegar þetta er skrifað. Lítill mökkur sést núna, kl. 01:25, á vefmyndavél Mílu við Þórólfsfell.

Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur - skráð 4.06.2010 kl. 16:00

Styrkur svifryks á höfuðborgarsvæðinu fer sennilega yfir heilsuverndarmörkin í dag, 4. júní. Hálftímagildið klukkan 12.30 í dag á mælistöð Reykjavíkurborgar við Grensásveg mældist 116 míkrógrömm á rúmmetra og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var 86. Meðalgildið frá miðnætti við Grensásveg í hádeginu var 85 míkrógrömm á rúmmetra. Heilsuverndarmörk svifryks á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Svifryk berst sennilega að mestu leyti frá öskufallssvæðinu við Eyjafjallajökul. Ástæða er til að benda þeim á sem eru með viðkvæm öndunarfæri, s.s. lungnasjúkdóma eða astma, að forðast mikla útiveru í dag og ef til vill á morgun - en líkur eru á betri loftgæðum á sunnudaginn.

Suðaustlægar áttir eru ríkjandi og töluverður vindur er til staðar. Ekki er búist við úrkomu í kvöld. Draga mun úr vindstyrk á morgun, 5. júní, en áfram eru líkur á svifryksgildum yfir heilsuverndarmörkum á höfuðborgarsvæðinu.

Öskufjúk - skráð 4.06.2010 kl. 12:00

Mikið öskufjúk hefur verið í gær og dag á Suður- og Suðvesturlandi. Mælingar á öskumengun eru gerðar á nokkrum stöðum og hægt er að finna upplýsingar um þær á eftirtöldum vefsíðum:

  • Umhverfisstofnun, mengun - Húsdýragarðurinn í Laugardal og Grensásvegur
  • Verkfræðistofan Vista Hvaleyrarholt. Veljið Umhverfismælistöð við Hvaleyrarholt (til hægri). Veljið stöðina aftur (til vinstri). Dagafjöldi er fyrir ofan línuritin. Hægt er að stækka PM2-5 og PM10 línuritið efst til hægri með því að smella á það.
  • Verkfræðistofan Vista - Heimaland undir Eyjafjöllum og Vík í Mýrdal. Smellið á Leiðbeiningar efst á síðunni til þess að ná í línurit sem sýna mengunina. Heimaland er merkt HHK (færanleg umhverfisstöð). Veljið stöð, því næst línurit, síðan daga (t.d. 5) og að lokum mælistærð, PM 10. Fyrir HHK er hægt að velja PM10 og/eða PM 2,5 - hægt er að skoða PM10 og PM2,5 saman á línuritinu.

Staðan - skráð 01.06.2010 kl. 17:20

Toppur fjallsins hefur verið hulinn að mestu, bæði í gær og í dag. Í morgun um klukkan átta sáust þó hvít gufuský í um 2 km hæð á vefmyndavél. Austanátt hefur verið í gær og í dag, um 10 m/s. Mikið öskufjúk var á sunnanverðu landinu í gær. Mikil svifryksmengun vegna öskunnar mældist í Reykjavík eftir hádegi í gær og einnig um miðnættið.

Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því klukkan þrjú. Áfram verður fylgst vel með eldstöðinni og næsta stöðumat verður gert 4. júní.

Staðan - skráð 28.05.2010 kl. 15:30

Ský hafa hulið topp fjallsins í morgun og því ekki verið hægt að leggja mat á gosmökkinn. Hæg austnorðaustan átt ríkir.

Í leiðangri Jarðvísindastofunar á Eyjafjallajökul í gær, fimmtudaginn 27. maí, var gengið á barma austurgíga og gjóskan á börmunum reyndist 30 til 40 m þykk. Vísbendingar voru um mikla hvera- eða afgösunarvirkni. Um kvöldið mældist toppur gufumakkar í um 2,8 km hæð yfir sjó.

Á gervitunglamyndum má sjá ösku í lofti yfir Reykjanesskaga, og suðvestur af landinu, en í námunda við Eyjafjallajökull hefur rigning komið í veg fyrir öskufjúk.

Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því klukkan tólf. Áfram verður fylgst vel með eldstöðinni og næsta stöðumat verður gert 1. júní.

Staðan - skráð 26.05.2010 kl. 17:50

Gufumökkurinn er í tæplega 2 km hæð, metið út frá vefmyndavél í morgun; norðanátt er og gufuna leggur í suður.

Ekki hefur sést til eldfjallsins undanfarna klukkutíma sökum mikils öskufjúks allt um kring. Þetta kom vel fram á gervitunglamyndum. Mjög slæmt skyggni er á Vatnsskarðshólum (2 km) og í Vestmannaeyjum (1 km) sökum þessa.

Ákaflega litlar breytingar hafa verið í dag. Þar sem verulega hefur dregið úr virkninni, verður ekki gert stöðumat daglega eins og undanfarið. Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því kl. 17:00.

Gufugígur
Flogið yfir eldstöðina um kl. 11 hinn 25. maí. Mælt var með hitamyndavél um 300°C í gígnum og 50°C í hrauninu norðan við. Eingöngu gufa kemur upp úr gígnum. Ekki sást vel ofaní giginn vegna gufumökks. Gul slikja af brennisteini sást á norðanverðum gígnum og jafnvel víðar. Bláleit gufa lak suður og suðvestur af jöklinum vegna norðanáttarinnar. Ljósmynd: Gunnar B. Guðmundsson.

Staðan - skráð 26.05.2010 kl. 08:20

Aðstæður á gosstað voru síðdegis í gær svipaðar og 24. maí, metið út frá vefmyndavél og flugi, en hópur vísindamanna, sem var á jöklinum í gær, sá litla öskusprengingu í gígnum. Mestmegnis er þetta þó gufa sem stígur þarna upp. Bláleitar gufur sjást greinilega úr flugvél og einnig fannst sterk brennisteinslykt þegar flogið var suður fyrir eldstöðina.

Óróinn hefur verið mjög svipaður síðustu tvo dagana, en þó má sjá í honum einstaka púlsa á lægstu tíðninni (0.5-1.0 Hz). Ellefu skjálftar mældust frá miðnætti til kl. 17 í gær undir eldfjallinu, en 8 skjálftar mældust þar 24. maí. Litlar merkjanlegar færslur hafa verið á GPS stöðvum við Eyjafjallajökul síðustu tvo sólarhringa. Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því kl. 17 í gær.

Öskumistur
Séð yfir Hellu og nágrenni um kl. 19:40 hinn 25. maí. Þá var hæg austangola að koma í stað norðanáttar. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson í Forsæti III.

Staðan - skráð 24.05.2010 kl. 15:00 - annan í hvítasunnu

Nú er einungis um gufumökk að ræða, sem virðist vera í tæplega 2 km hæð og stefnir í suður vegna hægrar norðanáttar.

Aðstæður á gosstað eru svipaðar og í gær, metið út frá vefmyndavél. Dregið hefur úr jarðskjálfta-virkni, aðeins einn skjálfti hefur mælst í jöklinum frá miðnætti.

Gosið virðist liggja niðri núna. Óróinn er þó aðeins meiri en fyrir gos, sérstaklega á miðtíðninni eða 1-2 Hz. Sjá nánar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því kl. 14.

Staðan - skráð 23.05.2010 kl. 18:00 - hvítasunnudag

Gufumökkurinn er í um 3 km hæð samkvæmt athugunum flugmanna, ljós og gufublandinn. Hæg norðlæg átt er og mökkurinn stefnir því í suður. Engar tilkynningar hafa borist af öskufalli í dag. Engar eldingar hafa mælst og engar tilkynningar borist um drunur. Lítið vatnsrennsli er frá Gígjökli.

Þegar flogið var yfir um kl 15:30 í dag mældist mestur hiti á hitamyndavélum tæpar 100°C. Ekki sást til gígsins vegna gufu en gosið virtist liggja alveg niðri og engar vísbendingar voru um að kvika kæmi upp. Óróinn heldur áfram að minnka og er að nálgast það sem hann var fyrir gos. Um tuttugu skjálftar hafa mælst í jöklinum frá miðnætti, flestir grunnir.

Gosið virðist liggja niðri í dag. Þó nokkra gufu leggur þó enn frá gosstöðvunum en ekki er að sjá ösku í henni. Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá því kl. 17.

Síðasta öskusprengingin?
yfir Eyjafjallajökli
Flogið yfir Eyjafjallajökul í gær, 22. maí 2010, um kl. tvö. Hugsanlega síðasta öskusprengingin. Ljósmynd: Steinunn S. Jakobsdóttir.

Um öskufall - skráð 23.05.2010 kl. 11:45

Gosvirkni er í lágmarki og því ekki búist við öskufalli að ráði. Fylgst verður með framvindu mála og öskuspá gefin út ef þurfa þykir.

Staðan - skráð 22.05.2010 kl. 16:20

Úr könnunarflugi í dag virtist gosmökkurinn vera í um 4 km hæð. Hæg austlæg átt ber mökkinn til vesturs. Litur hans er ljósgrár og grár og lítilsháttar öskufall virtist vera til vesturs. Þó hafa engar tilkynningar borist af öskufalli í dag.

Engar eldingar hafa mælst frá því í fyrradag og engar tilkynningar borist um drunur. Lítið vatnsrennsli er frá Gígjökli. Gosið er svipað og í gær. Flogið var yfir um kl. 14 í dag og sást þá öskusprenging sem var enn að stíga þegar flogið var frá en hafði ekki náð sömu hæð og mökkurinn sem fyrir var. Hvorki sást til gígs né hrauns vegna lágskýja við fjallið.

Óróinn er svipaður og í gær. Um tuttugu skjálftar hafa mælst í jöklinum frá miðnætti, flestir grunnir. GPS-aflögun bendir til þess að eldfjallið sé enn að síga saman.

Nákvæmari upplýsingar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá kl. 14.

Staðan - skráð 21.05.2010 kl. 20:20

Gosmökkurinn er ljósgrár og í um 3-3,5 km hæð. Kl. 18:50 mældist hann í 3,6 km. Veikur gosmökkur með lítilli gjósku rís upp úr vestanverðum gígnum. Engar umtalsverðar sprengingar eru og hraun rennur ekki frá gígnum. Engar tilkynningar hafa borist af öskufalli í dag.

Óróinn hefur verið að minnka frá því í gærkveldi. Í morgun jókst hann þó í um tvo tíma en hefur eftir það haldið áfram að minnka. Á þriðja tug skjálfta hafa mælst í jöklinum frá miðnætti, flestir grunnir.

Óreglulegar sveiflur hafa verið í hæð GPS-stöðva næst eldstöðinni síðustu sólarhringa og láréttar færslur inn að miðju Eyjafjallajökuls.

Stórlega hefur dregið úr gosinu og má ætla að kvikuflæðið sé nærri 5 tonn/s. Þetta efni kemur upp sem gjóska í gosmekki sem rís um 1,5-2 km upp fyrir gíginn. Ekkert hraunrennsli er úr gígnum.

Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá kl. 19.

Gígurinn um kl. 18:00 21. maí
SiHj_img_4275
Hér sést vel ofan í virka gíginn, einnig þann minni sem nú er óvirkur. Engar kvikuslettur voru sjáanlegar en aska er enn í bólstrinum. Ljósmynd: Sigurlaug Hjaltadóttir.

Eldfjallagas - skráð 21.05.2010 kl. 14:45

Tilkynning barst úr Hlíðarendakoti um hádegi 21. maí 2010: bláleitar gufur koma út með Fljótshlíðinni, í vesturátt. Þeim fylgir fnykur og þær geta valdið hausverk. Innsti bær er Fljótsdalur við Þórólfsfell en næst-innstu bæir eru Neðri-Þverá, Smáratún og Eyvindarmúli. Bændur á Neðri-Þverá sjá þetta sama koma inn í fjósið með viftunum.

Veðurstofan þiggur fleiri tilkynningar um þetta fyrirbæri. Nota má skráningarformið um öskufall og eldfjallagas (sjá rauðan hlekk hér efst á síðu).

Staðan - skráð 20.05.2010 kl. 17:50

Gosmökkurinn hefur lækkað undanfarna daga og er í um 5 km hæð skv. veðurratsjá. Það bendir til þess að dregið hafi verulega úr kvikuflæði (vel undir 50 tonn/sek.) miðað við í lok síðustu viku og um helgina. Enn má búast við sveiflum í gosvirkninni með breytilegu gjóskufalli. Ekkert hefur sést til gosstöðvanna í tvo daga sökum veðurs.

Ratsjármyndir úr TF-SIF sýna að engar stórvægilegar breytingar hafa átt sér stað í ískötlunum þar sem sprengigígurinn hleðst upp. Gosið er í meginatriðum sprengigos og lítið sem ekkert hraunrennsli niður Gígjökul.

Enn er lítið bræðsluvatn frá eldgosinu og í dag hefur sjatnað í ám við Eyjafjallajökul eftir rigninguna í gær. Óreglulegar sveiflur hafa verið í hæð GPS-stöðva næst eldstöðinni síðustu sólarhringa.

Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá kl. 17.

Staðan - skráð 19.05.2010 kl. 17:55

Gosmökkurinn er heldur lægri í dag en í gær eða um 5 - 6 km. Tilkynningar um öskufall hafa komið frá Flúðum, úr Fljótshlíð, Rangárþingi ytra, Húsavík og Skagafirði en þar varð vart ösku samfara regni sem féll rétt fyrir hádegið. Mun minna hefur verið um eldingar en í gær.

Mikil rigning olli vatnavöxtum við Eyjafjallajökul í morgun. Rigningin kom af stað aurflóði í Svaðbælisá þegar aska rann af nokkurra ferkílómetra svæði af Eyjafjallajökli. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni fóru ásamt sérfræðingi frá Jarðvísindastofnun Háskólans að taka aurburðar- og efnasýni úr Svaðbælisá og Skógá. Rennsli Markarfljóts var einnig mælt við gömlu Markarfljótsbrúna en vatnshæð þar hefur ekki orðið hærri síðan í hlaupinu sem kom 15. apríl. Rennsli við Gígjökul er lítið eins og verið hefur.

Gosmökkinn leggur til norðnorðausturs samkvæmt upplýsingum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar nú síðdegis. Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá kl. 17.

Staðan - skráð 18.05.2010 kl. 18:15

Aska á þaki
Aska úr Eyjafjallajökli
Aska úr Eyjafjallajökli á byggingu á Seljavöllum. Ljósmynd: Ari Tryggvason.

Gosmökkurinn hefur verið nokkuð stöðugur í um 7 km hæð (y.s.) samkvæmt veðurratsjá. Stíf sunnan og suðvestanátt er yfir eldstöðinni en nær jörðu var austlægari vindur sem blés áður fallinni ösku til vesturs og norðvesturs. Mökkurinn er grár og stefnir í norðaustur.

Tilkynningar um öskufall hafa komið frá Hrauneyjum þar sem bílar urðu svartir vegna öskufallsins. Einnig frá Hæli í Gnúpverjahreppi, Laugum í S-Þingeyjarsýslu, Felli í Vopnafirði og Neskaupstað en á þessum stöðum var um lítilsháttar öskufall að ræða. Auk þess sást þunn slikja á Sandhólatindi og Bjólfi sem eru fjöll norðan Seyðisfjarðar. Svifryk mældist í Reykjavík um miðjan dag og má rekja það til foks.

Á áttunda tug eldinga hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá miðnætti og fram á miðjan dag. Sprengigos hefur haldist mikið og gera má ráð fyrir að yfir 200 tonn komi nú upp úr gígnum á sekúndu hverri. Gjóskufalls hefur gætt á Norðausturlandi auk þess sem einhver útbreiðsla hefur verið til vesturs síðdegis.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar frá kl. 17.

Staðan - skráð 17.05.2010 kl. 17:35

Ferð öskunnar 6.-17. maí
Eldgosið - hreyfimynd
Veðurtunglamynd af ösku úr Eyjafjallajökli. Sjá hreyfimynd og lýsingu á tækninni í frétt þann 7. maí (hér neðar á síðunni).

Gosmökkurinn liggur í 6-7 km hæð og rís beint upp af gosstöðvum. Eldingar voru tíðar og fylgdu þeim þrumur. Mökkurinn stefnir í austur (samkvæmt veðurkortum og gervitunglamynd NOAA). Ekkert hefur sést til gosstöðvanna í dag.

Sex smáskjálftar hafa mælst frá miðnætti. Flestir voru á meira en 10 kílómetra dýpi.

Mikið sprengigos er í gangi og vísbendingar eru um að heldur hafi dregið úr virkninni frá hámarkinu 13. maí. Töluvert gjóskufall er í nærsveitum og má búast við að það verði áframhaldandi miðað við virknina í dag. Enn má búast við töluverðum sveiflum í styrk gossins með breytilegu gjóskufalli.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 17.

Staðan - skráð 16.05.2010 kl. 19:00

Gosmökkur er grár og er að jafnaði í um 7 - 9 km hæð skv. veðurratsjá. Stefnir hann í suðaustur og síðan austsuðaustur (skv. veðurkortum og gervitunglamynd).

Tilkynningar um öskufall hafa komið frá Skógum, Vatnsskarðshólum, úr Mýrdalnum og frá Pétursey. Öskufall á þessu svæði hófst í gærkvöldi, fyrst vestast og færðist síðan austur á bóginn.

Um 150 eldingar hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá því í um miðjan dag í gær. Frá því um kl. 8 í morgun og fram til kl. 11 mældust allt að 22 eldingar á klukkustund.

Gosvirknin virðist áfram nokkuð stöðug. Nokkrar sveiflur eru þó í mekkinum frá degi til dags og nær hann hærra upp í dag en í gær, en veðurskilyrðin hafa áhrif þar á. Gjóskuframleiðslan er áætluð um 150 - 200 tonn/s, þegar mökkurinn liggur í 6 - 7 km hæð, en upp í um 400 tonn/s þegar hann er hæstur. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 17.

Staðan - skráð 15.05.2010 kl. 17:05

Gosmökkur er grár og að jafnaði í um 6-7 km hæð skv. veðurratsjá, fer upp í 8 km. Er hann ívið hærri en í gær og stefnir í suðvestur og síðan suður.

Tilkynningar um öskufall eru undan Eyjafjöllum. Í Drangshlíðardal byrjaði öskufjúk/öskufall um kl. 8 í morgun. Við Ásólfsskála hefur fremur gróf aska með fíngerðum salla verið að falla í logni síðan í gær.

Hrina jarðskjálfta hófst undir Eyjafjallajökli rétt fyrir miðnætti. Skjálftarnir, sem allir voru undir Ml 2 að stærð, áttu upptök sín á yfir 20 km dýpi. Hrinan var að mestu gengin yfir kl. 3 í nótt, en stöku skjálfti mældist fram á morgun. Alls mældust á fjórða tug skjálfta.

Gosvirknin virðist áfram nokkuð stöðug. Aðeins virðist hafa gefið í mökkinn við skjálftana í nótt. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 15.

Staðan - skráð 14.05.2010 kl. 18:05

Gosmökkur er að jafnaði í um 7 km hæð og stefnir vestur og síðan suðvestur. Litur hans er grár.

Tilkynningar um öskufall eru frá Vestmannaeyjum, Bakkaflugvelli og einnig úthverfum Reykjavíkur og nágrannabæja. Frá Nýjabæ í Rangárþingi eystra er tilkynnt um grófkorna ösku, með smá fínu með, og að þetta sé fyrsta askan sem fellur þar.

Á sjötta tug eldinga hafa mælst frá því í gærkvöldi; allt að tíu á klukkutíma. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 17.

Staðan - skráð 13.05.2010 kl. 18:15

Gosmökkurinn er grár og stefnir í suðaustur. Hæð hans yfir sjávarmáli er að jafnaði um 6 km samkvæmt veðurratsjá en fer hæst í um 9 km. Mjög hægur vindur er ofan við gosstöðvarnar, og óstöðugt loft fyrir sunnan land, en þetta hefur hvort tveggja áhrif á hæð öskuskýsins.

Tilkynningar bárust um öskufall frá Berjanesi og fleiri stöðum undir Eyjafjöllum. Drangshlíðar- og Skarðshlíðarbæir tilkynna um öskufall frá því kl. 6 í morgun, með smá hléi um hádegisbilið og aftur um kl. 16. Frá Skógum er tilkynnt um öskufall frá miðnætti til morguns. Askan er nú aftur heldur fínni.

Tuttugu eldingar hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá því í gærkvöldi. Í flugi sást efsti hluti gosmakkar og neðri hluti Gígjökuls en allt þar á milli var hulið skýjum - sjá ljósmyndir.

Gosvirknin virðist nokkuð stöðug núna. Mökkurinn er þó nokkuð hærri í dag en í gær. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 16.

Gosmökkur yfir skýjabreiðu
gosmökkur yfir skýjabreiðu
Flogið yfir Eyjafjallajökul 13. maí 2010. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.
Gígjökull
skriðjökull - svartur og hvítur
Flogið yfir Eyjafjallajökul 13. maí 2010. Ljósmynd: Árni Sigurðsson

Staðan - skráð 12.05.2010 kl. 18:05

Gosvirkni virðist svipuð og í gær. Heldur dregur úr gosmekkinum, sem stefnir í austsuðaustur. Tilkynnt var um öskufall í Vík í Mýrdal og í Meðallandi í Skaftárhreppi. Rykmistur var á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri og skyggni um 200 - 300 m.

Rennsli við Gígjökul er lítið eins og undanfarna daga. Á vefmyndavélum sjást meiri gufubólstrar við hraunjaðarinn en í gær, svo líklega hefur ísbráðnun aukist.

Fjöldi eldinga mældist á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá því um fimmleytið í gær og fram að hádegi í dag, sjá eldingakort hér á vefnum. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 15.

Staðan - skráð 11.05.2010 kl. 17:45

Gosmökkurinn er grár og stefnir suðsuðaustur. Við yfirborð er hægur vestlægur vindur en norðanstæður í hærri lögum.

Sprengivirkni jókst aftur upp úr hádeginu með aukinni gjóskuframleiðsu og hækkandi gosmekki. Gosið er að mestu sprengigos en lítill hraunstraumur er virkur innan hrauntraðarinnar sem myndaðist í aðalhraunfasa gossins.

Gosvirknin virðist nokkuð stöðug núna. Mökkurinn hefur aukist lítillega síðdegis. Áfram má búast við sveiflum í gosvirkninni með tilheyrandi gjóskufalli. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 15.

Aska á ís
gosmökkur yfir jökli sem er dökkur af ösku
Eyjafjallajökull er svartur af ösku, Gígjökull fremst. Myndin er tekin 11. maí kl. 10:58. Ljósmynd: Sigurlaug Hjaltadóttir.

Staðan - skráð 10.05.2010 kl. 17:15

Ljósgrár gosmökkur er að jafnaði um í um 5 km hæð samkvæmt veðurratsjá en fer þó stundum upp í 6 km og stefnir í suðaustur. Vindáttir eru þó breytilegri við yfirborð og hægur vindur.

Tilkynnt var um öskufall á Drangshlíðar- og í Skarðshlíðarbæjum í Eystra Rangárþingi. Að sögn ábúenda hefur aska fallið nánast allan síðasta sólarhring. Askan er frekar grófkorna; kornin eru um 2-3 mm í þvermál að þeirra mati.

Klepragígur hleðst upp í ískatlinum. Hraunrennsli er í lágmarki. Sprengivirkni jókst um hádegisbilið, með aukinni gjóskuframleiðsu og hækkandi gosmekki, en var að mestu gengið niður um kl. 15.

Jarðskjálftahrina í morgun bendir til þess að enn sé kvika að koma úr möttlinum. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 15.

Staðan - skráð 09.05.2010 kl. 14:00

Gosmökkurinn er ljósgrár og er að jafnaði í 4-5 km hæð samkvæmt veðurratsjá en rís stundum ofar. Hann stefnir í suðaustur en vindáttir eru þó breytilegri við yfirborð og austlægar. Gjóskufall er vestar en áður, var á Skógum í morgun og hófst á Þorvaldseyri um klukkan átta. Er að sögn ábúenda þar að færast vestar. Askan er svört.

Drunur hafa heyrst í Vestmannaeyjum, í Borgarfirði og alla leið norður í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu í tæplega 200 km fjarlægð. Láréttar GPS færslur inn að miðju eldfjallsins, ásamt hægu sigi mælipunkta, sýna að eldfjallið dregst hægt saman eftir útþenslu.

Ef tekið er mið af síðustu sjö dögum virðist framleiðsla gosefna hafa farið hægt dvínandi. Gosvirknin hefur þó gengið í bylgjum og má búast við áframhaldandi sveiflum í virkni. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 12.

Staðan - skráð 08.05.2010 kl. 18:00

Enn er kröftugt gos í gangi. Lítið sem ekkert hraunrennsli er niður Gígjökul og gufuvirkni þar í lágmarki. Dregið hefur úr sprengivirkni og gosið líkist nú því sem var fyrir aukninguna að kvöldi 5. maí og 6. maí. Enn má búast við gjóskufalli í nærsveitum en ekkert í líkindum við það sem var fyrstu daga gossins.

Fleiri upplýsingar er að finna í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 14.

Eyjafjallajökull 8. maí 2010
gosmökkur
Flogið með flugfélaginu Ernir um hádegisbilið þann 8. maí 2010. Hraunið sást vel í ísgeilinni en það hefur ekkert farið lengra norður eftir Gígjöklinum frá því 1. maí. Er ennþá um 1 km frá lóninu. Varla mátti merkja gufur stíga upp frá Gígjöklinum, þ.e. lítil sem engin ísbræðsla er þar núna. Einnig kom lítið vatn undan jöklinum. Ljósmynd: Gunnar B. Guðmundsson.

Staðan - skráð 07.05.2010 kl. 17:00

Sprengivirkni virðist hafa dvínað frá því í gær. Gufuvirkni er við hrauntunguna, sem bendir til bráðnunar íss í tröðinni, en ekkert í líkingu við gufuvirkni þegar hraunstraumurinn var hvað virkastur.

Gosmökkur rís lægra nú en í gær og er ljósari; hann leggur fyrr undan vindi og fellur ekki eins mikið úr honum og 6. maí. Gígur heldur áfram að hlaðast upp í kringum gosopið í ískatlinum. Hraun-straumurinn til norðurs er á svipuðum slóðum og síðustu tvo daga.

Gjóskufall hófst í Vík kl. 21 í gærkvöld, ösku rigndi niður. Öskufall nær út á miðjan Mýrdalssand (55-60 km frá gosinu).

Við Markarfljótsbrú hefur ekki orðið vart við flóðgusur frá Gígjökli síðasta sólarhringinn. Leiðni hefur þar farið lækkandi og sjást nú dæmigerðar dægursveiflur í vatnsmagni og hita.

Órói er svipaður og í gær, lágur líkt og hann var að jafnaði 14-17. apríl. Jarðskjálftar mælast enn sunnan við og undir toppgíg en færri en í gær. GPS-mælingar umhverfis Eyjafjallajökul sýna ekki verulega heildarfærslu, sem bendir til þess að hægt hafi á útþenslunni sem greindist í gær. Ekkert bendir þó til gosloka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 16.

Benda má á glæsilegar ljósmyndir Ólafs Sigurjónssonar í Forsæti allt frá upphafi goss en þeim hefur verið fundinn staður í sérstakri grein. Þar eru einnig eldri myndir frá Fimmvörðuhálsi.

Myndskeið úr veðurtunglum sýna öskuna - skráð 07.05.2010 kl. 14:50

gervihnattamynd - litaflekkir suðaustur af landinu
Veðurtunglamynd af ösku úr Eyjafjallajökli þann 6. maí 2010 kl. 15:00, sjá myndskeið.

Að kvöldi 5. maí varð aftur mikil aukning í öskuvirkni Eyjafjallajökuls.

Gosaska og smáar svifagnir einkennast af ákveðnum mismun í birtuhitastigsmælingu á tveimur innrauðum rásum í veðurtunglum og jarðrannsóknatunglum. Slík greining er einn helsti mælikvarði eftirlitsstofnana á tilvist gosösku í háloftum með gervitunglum.

Greiningin takmarkast helst af skýjafari, sem getur hindrað framrás bakgrunnsgeislunar í gegnum svifagnirnar og alla leið upp í nemana á gervitunglinu. Mikilvægt er að bakgrunnurinn sé heitur í samanburði við öskuagnirnar, eins og t.d. yfirborð hafs, lands eða lágskýja, vegna þess að heitari bakgrunnur gefur meiri útgeislun og sterkari einkenni um árekstra (ljós-tvístrun) við svifagnir í lofthjúpnum.

Sem aðili að Evrópsku veðurtunglastofnuninni (EUMETSAT) getur Veðurstofan fylgst með útbreiðslu gosöskunnar í rauntíma. Á meðfylgjandi myndskeiði er útbreiðsla gosöskunnar 5. - 6. maí 2010 auðkennd með afgerandi hitastigsfráviki milli tveggja rása og merkt í lit ofan á hefðbundna hitamynd á gráskala. Tímaskeiðið er tæpur sólarhringur, eða frá því kl. sex á miðvikudagskvöldi til kl. þrjú á fimmtudegi.

Myndirnar eru aðallega búnar til úr hitarásum frá sístöðuveðurtungli EUMETSAT (MSG) en einnig eru gögn úr pólveðurtunglum NOAA teiknuð ofan á, þar sem þau standa til boða.

Á myndunum sést að í bakgrunni öskunnar voru að mestu heit lágský í u.þ.b -20 °C en hiti svifagnanna í háloftunum var mun minni eða nær -60 °C.

Lesa má fyrri frétt um útbreiðslu gosöskunnar 15. apríl. Þess má geta að sandfok greinist með sömu aðferðum og var því lýst í frétt af Landeyjarsandi fyrr á árinu.

Staðan - skráð 06.05.2010 kl. 19:40

Nýr fasi er kominn í gosið. Hraun er hætt að renna og mestur hluti kvikunnar sundrast í kröftugu sprengigosi. Gosmökkur rís hátt yfir gosstöðvum og má búast við töluverðu gjóskufalli undan vindi.

Samkvæmt athugun flugmanna milli kl. 05:30 og 08:00 fór mökkurinn upp í 30.000 fet (9 km). Hæð var breytileg í ratsjá, 4-7 km. Mökkurinn var þrískiptur, efsta lag lagði til SA, neðra lag var með jaðar til SSA og neðst var rykský í jaðarlagi sem sameinaðist fjúki undir Eyjafjöllum.

Áfram dregur úr rennsli frá Gígjökli og virðist sem vatnið komi nú að megninu til undan jöklinum austan megin. Þetta er breyting frá því á þriðjudag en þá rann vatnið að stórum hluta frá Gígjökli vestan megin. Hugsanlegt er að hraunrennslið sé að breyta rennslisstefnu vatnsins. Við svona breytingar ber að hafa í huga, að vatn getur safnast saman í dældum og hlaupið snögglega fram.

Hækkun á rafleiðni í Jökulsá á Sólheimasandi má rekja til mengunar frá ösku sem borist hefur af jökli í jökulvatnið. Ekki er því um efnamengun af völdum brennisteinsríkra kvikugastegunda að ræða.

Skjálftavirkni heldur áfram. Búið er að staðsetja a.m.k. 10 skjálfta frá miðnætti. Skjálftar verða enn flestir undir toppgíg eða sunnan hans og eru í þeirri rás sem þeir hafa myndað, upp í gegnum skorpuna, frá 3. maí. Flestir skjálftar eru undir tveimur að stærð, sá stærsti 2,2.

Breytingar á hegðun goss á gosstað eru töluverðar frá síðustu dögum. Ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá kl. 18.

Staðan - skráð 05.05.2010 kl. 20:40

Aukin skjálftavirkni bendir til þess að nýtt efni sé að koma djúpt að upp undir fjallið og GPS-mælingar benda til útþenslu á ný. Útþenslan er ekki mikil enn sem komið er.

Háværar drunur voru í nótt undir Eyjafjöllum svo vart var svefnfriður. Drunur virðast berast langar leiðir, m.a. til Bjarnarhafnar (í gær), Suðurnesja (Hafna), þær heyrðust í Borgarfirði, Dalasýslu og kl. 07:22 í morgun í Reykjavík (Skerjafirði).

Vegna hlýinda og leysinga sl. sólarhring jókst rennsli í Markarfljóti og náði hámarki um miðnætti. Rennsli frá Gígjökli virðist hins vegar fara minnkandi og eru hitasveiflur í vatnshita við gömlu Markarfljótsbrúna tengdar lofthita. Ekki er hægt að greina á mælum neinar vatnsgusur undan Gígjökli.

Ekkert sást til gosstöðva í dag. Skv. flugi með Landhelgisgæslunni 04.05.2010: Gígur heldur áfram að hlaðast upp í nyrsta ískatlinum. Hraun rennur til norðurs og breiðir úr sér í um 500 m h.y s. Hrauntungan er um 200 m breið og hraunrásir að henni eru um 30-60 m breiðar. Tröðin sem hraunið rennur um fer víkkandi.

Órói er svipaður og í gærdag (4. maí). Ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá kl. 18.

Nýtt kvikuskot - skráð 05.05.2010 kl. 12:00 - viðbætur um GPS kl. 12:45

Frá því á mánudag, 3. maí, hefur verið aukin skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli. Nákvæm staðsetning skjálftanna sýnir að þeir fyrstu verða djúpt í jörðu, á um 23 km dýpi, en færast síðan upp. Þetta bendir að öllum líkindum til þess að ný kvika sé að þrýstast upp neðst í kvikurásinni og ýti við ofanáliggjandi kviku þannig að þrýstingsbreytingin færist upp að yfirborði. Því má búast við að gosið haldi áfram af fullum krafti næstu daga.

Verulegar breytingar hafa orðið á færslu GPS-stöðva umhverfis Eyjafjallajökul síðustu tvo sólarhringa. Á stöðvum BAS2 og STE2, sem eru rétt norðan jökulsins, má nú á ný greina færslu til norðurs. Sunnan jökulsins færist THEY (Þorvaldseyri, sjá meðfylgjandi mynd) nú til vesturs, og stöð FIM2, sem er nokkru austar, sýnir færslu til austurs.

Dreifing skjálftavirkni í kvikurásinni gefur jafnframt vísbendingar um staðsetningu kvikuhólfsins sem gosið hefur úr síðan 13. apríl, en talið er að það sé á um 3-5 km dýpi, þar sem skjálftar hafa ekki orðið.

Jarðskjálftar

Stærri mynd

Skýring á mynd: Jarðskjálftavirkni undir Eyjafjallajökli í apríl og maí 2010. Grænir og blágrænir hringir sýna nýjustu skjálftana sem urðu 3. og 4. maí, byrjuðu djúpt niðri 3. maí og grynntust 4. maí. Hvítir hringir sýna skjálfta sem mældust 13.-30. apríl. Gráir, opnir hringir sýna skjálftastaðsetningar frá 2009 og fram í mars 2010. Rauða stjarnan sýnir upptök skjálftans sem varð við upphaf kröftugrar skjálftahrinu um 2 klst. áður en gosið braust upp en svörtu stjörnurnar sýna staðsetningu gossprunganna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.

GPS-stöðvarnar BAS2, FIM2 og STE2 eru starfræktar í samvinnu við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar má sjá á síðu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar.

Staðan - skráð 04.05.2010 kl. 17:20

Hæstu gosbólstrar náðu 5,8 -6 km hæð (19-20.000 ft) við Eyjafjallajökull, metið úr vél Landhelgisgæslunnar klukkan 10:40 og um kl. 15:30. Mökkinn leggur til austurs og suðausturs frá gosstöðvum. Neðar yfir Gígjökli rísa gufubólstrar en virðast minni en í gær. Að auki má aðeins ofar yfir Gígjökli greina bláleita móðu/gas stíga upp, líklega af hrauninu.

Ratsjármyndir frá Landhelgisgæslunni sýna stækkandi rásir í Gígjökli og áframhaldandi upphleðslu á gíg. Stærð gígops er 280 m x 190 m. Sjónarvottur í Fljótshlíð sér hraunslettur þeytast upp, líklega nokkur hundruð metra.

Vatnsrennsli hefur verið stöðugra í dag, vatnshiti við Markarfljótsbrú var lágur í morgun (undir 2°C) en fór að rísa núna síðdegis (um 5°C um hádegisbil). Vatnshæð virðist þó vera að lækka.

Jarðskjálftar mældust í nótt og í morgun. Þeir sem búið er að yfirfara virðast eiga upptök sín á miklu dýpi (14-20 km) undir miðjum jöklinum.

Minnt er á að hætta stafar af gasi við Gígjökul.

Í heildina séð er virkni mikil, gjóskuframleiðsla og sprengivirkni hefur aukist undanfarna daga en er þó miklu minni en upphafsdaga goss. Órói hefur dottið niður en ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá kl. 15.

Horft yfir svæðið um kl. 16:00 4. maí.
Eldgos, Eyjafjallajökull
Horft yfir svæðið um kl. 16:00 4. maí. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson, Forsæti III. Fleiri myndir Ólafs. Einnig er síða með nokkrum myndum úr flugi með Landhelgisgæslunni.

Staðan - skráð 03.05.2010 kl. 18:20

Gosvirkni virðist svipuð og í gær. Hæstu bólstrar gosmakkar fóru í 5 -5,5 km hæð (17-18.000 ft) við Eyjafjallajökull, en þeir voru metnir úr vél Landhelgisgæslunnar um klukkan 14:30. Gosmökkurinn sást einnig á veðursjá í Keflavík kl í 4,0-5,2 km hæð milli kl. 13:00 og 15:00. Stefnan var suðaustur af gosstöðvum. Skýr merki um mökkinn greindust í að minnsta kosti 200 km fjarlægð til austsuðausturs (léttskýjað) á MODIS gervihnattamynd frá kl. 11:20 og áfram um 200 km til viðbótar til suðausturs. Gufumekkir upp af Gígjökli benda til áframhaldandi hraunflæðis.

Vísindamenn við Gígjökul heyrðu reglulega drunur frá Gígjökli og ofan úr gígnum og fundu greinilega jörðina hristast. Hristingurinn er vart greinanlegur í um 3-4 km fjarlægð en drunurnar heyrast þar vel.

Í dag mældist 11°C hiti á vatni við gömlu Markarfljótsbrúna en tæplega 3°C um 2 km frá sporði Gígjökuls. Vatn streymir sitt hvorum megin við jökulinn og koma gusur á um 10 mínútna fresti. Hitamælir við gömlu Markarfljótsbrúna sýndi að vatnshiti byrjaði að hækka verulega í gærkvöldi, 2. maí, og náði hámarki í morgun um sex-leytið (um 17°C). Vatnshiti er aftur kominn niður fyrir 4°C.

Órói hefur verið mikill og stöðugur í dag en hann jókst aðfaranótt 2. maí. Engin merki eru um breytingar undir Kötlu. Minnt er á að hætta stafar af gasi við Gígjökul. Ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá kl. 15.

Staðan - skráð 03.05.2010 kl. 08:10

Gosið við Eyjafjallajökul er blandgos, þar sem hraungosið er meira en sprengigosið. Gosmökkur hefur verið dekkri og meiri um sig undanfarna tvo til þrjá daga en var vikuna á undan. Jafnframt hefur gjóskufall aukist í nágrenni eldfjallsins. Á sama tíma hefur hraun haldið áfram að renna til norðurs.

Miðað við stöðu gufumakkarins sem rís frá hrauninu þar sem það mætir ísnum, var jaðar þess um miðjan dag í gær í um 850 m hæð á Gígjökli, um 3 km norðan gígsins. Gufumekkir frá jökuljaðri kl. 19:40 bentu til að hraun hafi jafnvel náð lengra.

Erfitt er að leggja mat á hraunrennslið. Gróf ágiskun á flæði hrauns er 20 m3/s eða 50 tonn/s, og er matið byggt á lengd og breidd hraunstraums (stærð sigkatla) í Gígjökli annarsvegar og rennsli vatns hinsvegar.

Sprengigosið (framleiðsla gjósku) hefur heldur aukist undanfarna sólarhringa og er flæði gjósku upp úr gígnum talið vera 10-20 tonn/s. Erfiðara er að meta breytingar á hraunflæði og því ekki vitað hvort það hefur aukist.

Fram til kl. 16 í gær var rennsli í Markarfljóti (18 km frá Gígjökli), minna en 1. maí. Milli kl. 16 og 17 jókst rennsli tímabundið og var svipað og í fyrri flóðum þann 30. apríl. Eftir klukkan 19:40 sýndi vefmyndavél gufuský við jaðar Gígjökuls. Gufur rísa jafnframt upp af aurunum fyrir framan jökuljaðarinn og gefa þannig til kynna heitt bræðsluvatn.

Upphleðsla klepragígs heldur áfram. Hraun rennur frá gígnum til norðurs og fer mestur hluti af orku þess í að bræða ís. Gjá umhverfis hraunið lengist til norðurs. Mikinn gufumökk leggur af hrauninu.

Gosórói jókst í gær. Aukningin gæti verið vegna samspils íss og hrauns í Gígjökli eða breytinga í gosrás. Engir jarðskjálftar mældust við Eyjafjallajökul í gær. Ekkert bendir til gosloka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá kl. 21 í gærkvöldi.

Gosmökkurinn 2. maí
Gosmökkur 2. maí
Gosmökkurinn kl. 10 í gærmorgun, 2. maí. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson. Fleiri myndir Ólafs.

Staðan - skráð 02.05.2010 kl. 09:00

Virkni gossins er svipuð og síðustu átta daga. Hraun heldur áfram að skríða til norðurs og gígur hleðst upp í nyrsta ískatlinum. Áréttað er að þrátt fyrir gjóskufall í nærsveitum, þá er kraftur gossins og gjóskuframleiðsla aðeins brot af því sem átti sér stað fyrstu daga gossins (14-17 apríl). Ekkert bendir til gosloka. Nánari upplýsingar eru birtar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Staðan - skráð 30.04.2010 kl. 19:00

Lágskýjað er og gosstöðvarnar sjást illa. Hraun streymir áfram úr gígnum og bræðir ísinn. Viðvörun barst frá vatnshæðarmæli við Gígjökul snemma í morgun og var Almannavörnum gert viðvart. Flóðtoppurinn var langur og sást á vefmyndavélum. Ákveðið var senda starfsmenn tæknisviðs á vettvang til að mæla rennsli og vatnshita við Markarfljótsbrú. Gosmökkurinn nær 15.000-17.000 feta hæð (4,6 - 5,1 km) og er aðallega gufa. Nánari upplýsingar eru birtar í sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Engin merki um breytingar undir Kötlu. Minnt er á að hætta stafar af gastegundum við Gígjökul.

Staðan - skráð 29.04.2010 kl. 23:50

Kvikustreymi og gosmökkur hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa.

Vefmyndavélar sýna samfellt rennsli bræðsluvatns frá Gígjökli. Rennsli Markarfljóts var mælt tvisvar á gömlu brúnni í gær, 28. apríl: flóð sem kom kl. 11:30 niður Gígjökul mældist 250 m3/s á brúnni tveimur tímum síðar. Bæði 28. og 29. apríl er talið að 130-150 m3/s hafi runnið frá Gígjökli sem er meira en dagana á undan. Rafleiðni í Krossá og Steinholtsá er enn há (sjá skýrslu gærdagsins).

Radarmyndir úr TF-SIF sýna að gígurinn innan nyrðri ketilsins hækkar heldur, meðan jökullinn suðvestan við gíginn springur upp og lækkar. Hraun rennur í norðurátt niður að Gígjökli. Ís bráðnar við jaðra hraunsins.

Engin merki um breytingar undir Kötlu.

Minnt er á að hætta stafar af gasi við Gígjökul. Fjórar eldingar mældust yfir Eyjafjallajökli 28. apríl. Drunur heyrðust frá gosinu, m.a. í Selsundi, 40 km NNA af gosstaðnum.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Staðan - skráð 28.04.2010 kl. 22:10

Vatnsrennsli frá Gígjökli jókst mjög í dag en þá kom flóðgusa sem er sú stærsta síðan 16. apríl. Vatnið í flóðinu var heitt og mældist vatnshitinn á sírita niðri við Markarfljótsbrú yfir 11°C.

Kvikustreymi og gosmökkur hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Af gufu sem leggur upp af Gígjökli má ráða að hraunið sé komið í hallann til norðurs.

Ekki sjást merki um að gosi sé að ljúka.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Sérhæft flug á morgun - skráð 28.04.2010 kl. 18:30

Síðdegis á morgun er von á flugvél þýsku lofthjúpsrannsóknamiðstöðvarinnar DLR til Íslands.

Vélin mun fljúga fram og aftur um öskusvæðið við Eyjafjallajökul í því skyni að mæla magn gosösku. Vonir standa til þess, að af mælingunum megi ráða hversu mikið af fínni ösku streymir upp í andrúmsloftið og þannig megi bæta öskuspárnar. Vísbendingar hafa verið um að spár hafi ofmetið öskuna yfir landinu síðustu daga.

Flugvélin, sem er þota af gerðinni Falcon, mun fljúga ofan við öskuna í nokkurri fjarlægð frá eldstöðvunum og kortleggja öskusvæðið með leysigeisla. Henni verður líka flogið inn í öskuskýið frá fjallinu eftir því sem tök verða á. Flogið verður dagana 29. og 30. apríl en 1. maí hverfur vélin aftur af landi brott.

Eyjafjallajökull
jökulísinn er svartur af ösku
Úr flugi 27. apríl 2010 kl. 12:00, sjá frétt á forsíðu. Ljósmynd: Sigrún Hreinsdóttir.

Staðan - skráð 27.04.2010 kl. 22:20

Kvikustreymi og gosmökkur hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Sprengigos og gjóskumyndun er því aðeins lítið brot af því sem var þegar gosið var mest (14.-17. apríl) þótt gjóskufalls gæti 40 km vestan gosstöðvanna. Ekki sjást merki um að gosi sé að ljúka.

Engar beinar mælingar á kvikuflæði voru í dag en heildarflæði talið svipað og undanfarna daga (20-40 tonn/sekúndu).

Enginn jarðskjálfti hefur mælst síðan í gær.

Bræðsluvatn er svipað og seinustu daga, um 100 m3/s. Upp úr hádegi kom fram vatnspúls með lágri leiðni undir Markarfljótsbrú. Vatn fór enn vaxandi kl. 15:45.

Engin merki eru um breytingar undir Kötlu.

Byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar um framgang gossins í Eyjafjallajökli sem var gefið út klukkan 19:00 í kvöld. Upplýsinga var aflað í flugi með 6 sæta skrúfuvél frá flugfélaginu Ernir um kl. 12.

Staðan - skráð 26.04.2010 kl. 19:30

Flogið var með TF-SIF yfir gosstöðvarnar í dag. Meðalhæð gosmakkarins var 4,8 km um hádegisbilið en seinni part dags var hæðin um 3-4 km. Mökkurinn er ljós að mestu leyti (gufa) en grá gosefni yfir gígnum. Sá hluti gosmakkarins sem nær meira en 4 km hæð stefnir í austur.

Ekki sást til gossins í fluginu, en á ratsjá flugvélarinnar mátti sjá að gígurinn er orðinn um 200 m í þvermál og um 130-170 m á hæð. Tilkynnt var um drunur í um 20 km fjarlægð kl. 02:30 í nótt.

Engin merki eru um breytingar undir Kötlu.

Kvikustreymi hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Ekki sjást merki um að gosi sé að ljúka, þó að virkni á yfirborði sé um stærðargráðu minni en þegar mest lét.

Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar um framgang gossins í Eyjafjallajökli sem var gefið út klukkan 18:00 í kvöld.

Þess má geta að mælingar sem gerðar voru í Evrópu í síðustu viku staðfesta niðurstöður úr þeim dreifingarlíkönum sem öskuspár viðvaranaseturs London VAAC vegna flugumferðar byggjast á. Nýjustu spár um öskudreifingu í háloftunum má ávallt sjá á setrinu.

Staðan - skráð 25.04.2010 kl. 22:30

Aðeins sást til gossins frá Hvolsvelli í morgun og er virkni á sama stað og áður, í nyrðri gígnum. Vatn nær ekki að gosrásinni og hefur því ekki áhrif á sprengivirkni - það ástand hefur nú varað frá sunnudeginum 18. apríl. Athuganir jarðfræðinga á gjóskunni sem upp hefur komið í vikunni sýnir að hún er mun grófari en var fyrstu daga gossins. Dynkir heyrast í Fljótshlíð.

Hraun heldur áfram að renna til norðurs eins og í gær, ef marka má vatnrennsli niður Gígjökul. Úrvinnsla gagna frá í gær sýna að geilin til norðurs frá gígnum er um 700 m löng og hafði hraun náð 400-500 norður frá gígnum.

Streymi kviku virðist hafa verið svipað undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Virkni gosmakkar fer hægt dvínandi. Ekki sjást merki um að gosi sé að ljúka.

Ofangreint er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar um framgang gossins í Eyjafjallajökli sem var gefið út klukkan 18:00 í kvöld.

Staðan - skráð 25.04.2010 kl. 15:00

Órói á jarðskjálftamælum hefur haldist nokkuð svipaður og gangurinn í gosinu virðist vera stöðugur. Hraun hefur brætt um 300 m langa geil í jökulís norður af gígnum en bræðsluvatnið rennur jafnóðum undan jöklinum og niður í Markarfljót og því hefur ekki skapast flóðahætta. Engin merki eru um vatnsrennsli til suðurs.

Sjá má á vefmyndavél Vodafone að dregið hefur úr rennsli undan jöklinum. Vatnshæðarmælingar við gömlu Markarfljótsbrúna sýna einnig að vatnsborð hefur lækkað lítillega frá því í gær.

Samkvæmt GPS mælingum hefur dregið töluvert úr landbreytingum kringum Eyjafjallajökul.

Veðraskil liggja yfir sunnanverðu landinu og byrgja sýn til jökulsins. Skýin á þessum veðraskilum (20-25.000 fet eða 6 til 7,5 km) ná talsvert yfir gosmökkinn ef miðað er við óbreytt ástand hans frá í gær (12-15.000 fet eða 3,5 til 4,5 km) og talið er að virkni gosmakkar fari hægt dvínandi.

Samfara skilunum er dálítil rigning eða súld og jafnvel sums staðar slydda sunnan til á landinu. Búast má við nánast óbreyttu veðri næsta sólarhringinn.

Skráning öskufalls - skráð 25.04.2010 kl. 12:30

Eins og fram hefur komið, þiggur Veðurstofan allar upplýsingar um öskufall og býður hentugt skráningarform sem finna má í rauðum tengli efst á síðum vefsins. Þar má einnig lesa skráningar annarra. Lögð er áhersla á að fá skráningar hvaðanæva að, ekki síst frá landsbyggðinni og frá bæjum utan höfuðborgarsvæðisins.

Öskumistur - skráð 24.04.2010 kl. 10:45

Órói á jarðskjálftamælum í gær og nótt var svipaður og undanfarna daga.

Spáð er öskumistri í lofti sunnan- og vestanlands en að magn gosösku verði lítilsháttar.

Lítilsháttar hækkun varð á vatnsborði í Markarfljóti frá í gær.

Skráning öskufalls - skráð 24.04.2010 kl. 09:45

Veðurstofan biður fólk sem verður vart við öskufall að skrá það í skráningarform fyrir öskufall. Upplýsingarnar verða notaðar til að meta dreifingu öskunnar og til að gera öskufallsspár. Vísun er í skráningarsíðuna úr eldgosaborðanum sem er efst á öllum síðum.

Við Holtsós
Öskumistur
Aska þyrlast upp frá Eyjafjallasandi við Holtsós í gær, 23. apríl, um kl. 17:30. Raki í sandinum næst ósnum náði að binda öskuna. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson, Forsæti III.

Fleiri myndir Ólafs Sigurjónssonar.

Aukið vatnsrennsli - skráð 23.04.2010 kl. 09:15

Órói á jarðskjálftamælum hefur verið svipaður síðasta sólarhring og GPS-mælingar sýna áframhaldandi hreyfingu í átt að gosstöðvunum.

Gosmökkur sást í ratsjá framan af nóttu en ekki eftir það. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni í morgun náði hann upp í um 16 þúsund fet, eða 4,8 km. Mökkurinn fer nú í vestnorðvestur.

Rennsli í Markarfljóti jókst nokkuð í gær og virðist sírennsli úr Gígjökli hafa aukist.

Athyglisverðar gervihnattamyndir síðan 9. og 20. apríl frá Kanadísku geimrannsóknastofnuninni, CSA, Eruption of the Eyjafjallajökull volcano in Iceland, eru úr RADARSAT-2 og sýna breytingar á gossvæðinu á þessu tímabili.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin gaf út dreifibréf (20. apríl) með algengustu spurningum og svörum sérfræðinga WMO varðandi eldgosið (pdf-skjal 1,5 Mb á ensku).

Svipuð staða - skráð 22.04.2010 kl. 11:00

Órói á jarðskjálftamælum fór að aukast í gær um hádegisbil en minnkaði um kl. 2 í nótt. Hefur hann haldist nokkuð stöðugur síðan.

Gosstrókurinn hækkaði síðdegis í gær og hefur komið reglulega fram á ratsjá Veðurstofunnar. Fór hann hæst upp í um 4,5 km hæð kl. 09:45 í morgun en er yfirleitt í 3-4 km hæð. Hann er frekar ljós sem bendir til lítillar ösku.

Rétt fyrir kl. 01:00 í nótt jókst vatnsrennsli í Markarfljóti örlítið.

Litlar breytingar - skráð 21.04.2010 kl. 8:05

Órói á jarðskjálftamælum jókst um miðjan dag í gær en minnkaði aftur um kl. 22 í gærkvöldi og hefur verið stöðugur síðan.

Mökkurinn kemur ekki fram á ratsjá og er því um eða undir 3 km á hæð.

GPS-mælingar - skráð 20.04.2010 kl. 13:15

Síðustu GPS mælingar nærri Eyjafjallajökli sýndu að landbreytingar þær sem fylgdu gosinu væru að ganga til baka. Engir skjálftar mælast í Kötlu og GPS-mælingar benda ekki til þess að þar sé gos í vændum.

Um dynkina - skráð 20.04.2010 kl. 12:10

Dynkir hafa heyrst og fundist víða undir Eyjafjöllum og austur af þeim; og betur eftir að vind tók að lægja. Þarna er mjög seig kvika sem gerir það að verkum að gassprengingar verða mun öflugri heldur en þegar um þunna kviku er að ræða, eins og var á Fimmvörðuhálsi. Sprengingarnar mynda þessar höggbylgjur sem heyrast og finnast í margra kílómetra fjarlægð.

Gosstrókurinn hefur minnkað - skráð 20.04.2010 kl. 08:15

Gosstrókurinn hefur minnkað mjög mikið frá í gær og er öskufall því lítið. Órói á jarðskjálftamælum er svipaður og í gær. Skyggni er gott.

Lægir í kvöld - skráð 19.04.2010 kl. 17:40

Síðustu athuganir benda til þess að gosmökkurinn nái í um 12-15 þús. feta hæð og stendur hann beint í suður frá eldstöðinni. Í kvöld og nótt lægir á svæðinu.

Askan frá gosinu - skráð 19.04.2010 kl. 15:50

Á MODIS-myndinni hér að neðan er greinileg askan frá gosstöðinni, einnig frá Mýrdalsjökli þar sem askan þyrlast upp frá yfirborðinu. Myndin er tekin kl. 12:50 í dag, 19. apríl.

Gosmökkurinn kl. 12:50 í dag, 19. apríl
Gosmökkur 19. apríl
Öskumökkur frá gosstöðinni í Eyjafjallajökli, einnig frá Mýrdalsjökli þar sem aska þyrlast upp frá yfirborðinu. MODIS-mynd.

Hraungos - skráð 19.04.2010 kl. 09:50

Hraungos er líklega hafið í gígnum á Eyjafjallajökli. Miklar sprengingar eru í honum og slettur á stærð við jeppa, að sögn sjónarvotts, sem flaug yfir svæðið á þyrlu. Hann mat einnig að mökkurinn hefði náð í 8-10.000 feta hæð og bólstrar farið upp í 15-17.000 fet.

Kl. 8:50 fór mökkurinn í 4 km hæð. Lægri gosmökkur bendir til þess að vatn komist ekki lengur í gíginn og kvikuflæði sé hafið.

Óróinn sem jókst kl. 4 í nótt getur gefið til kynna að hraun sé byrjað að renna úr gígnum.

Líkur eru á góðu skyggni við gosstöðvarnar í dag.

Gosvirkni breytist lítið - skráð 19.04.2010 kl. 07:30

Órói á jarðskjálftamælum jókst nokkuð framan af kvöldi í gær en minnkaði aftur til kl. 4 í nótt er hann jókst að nýju. Engar hreyfingar voru undir Mýrdalsjökli. Gosvirknin virðist breytast lítið.

Gosmökkurinn náði í morgun kl. 07:00 í um 2 km hæð (sést ekki á ratsjá Veðurstofunnar) og leggur hann beint í suður enda stíf norðanátt.

Laus aska fýkur af Mýrdalsjökli.

Mökkurinn
Öskuský
Öskuna leggur frá gosstöðvunum út á haf 17. apríl kl. 16:20. Ljósmynd: Matthew J. Roberts - úr Landhelgisgæsluflugi.

Mökkur sést ekki á veðurratsjá - skráð 18.04.2010 kl.10:50

Gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli hefur ekki sést á ratsjá Veðurstofunnar frá því fyrir kl. 08 og er að líkindum undir 3 km hæð. Vísbendingar eru um að mikið hafi dregið hafi úr öskufalli undir Eyjafjöllum. Talsverður gosórói mældist fyrri hluta nætur og aftur um kl.07 og hefur haldist verulegur.

Ekki hefur orðið vart flóða. Sérfræðingar Veðurstofunnar eru að lagfæra og auka búnað í vatnamælistöð við Markarfljótsbrú. Hópur á vegum Veðurstofunnar er að byrja að mæla flóðför og flóðhæðir til að meta útbreiðslu fyrsta jökulhlaupsins.

Gosið sýnilegt - skráð 17.04.2010 kl. 10:25

Gosið í Eyjafjallajökli sést nú á vefmyndavélum Mílu og gervitunglum. Gosið er í fullum gangi og gosórói nokkuð stöðugur. Allmikið var um eldingar í gosmekkinum frá miðnætti til 04:40. Mökkurinn nær að jafnaði um 5 km hæð og fer hæst í 8 km. Vindar hafa snúist í norðanátt og aska berst til suðurs, en háloftavindar eru vestlægir og bera ösku til austurs. Ekki er búist við miklum breytingum vindátta fram í miðja næstu viku. Spá fyrir öskudreifingu er gerð á 6 klukkustunda fresti og oftar ef þess þarf. Kort er birt daglega.

Ekki hafa mælst flóðtoppar á vatnamælum. Sérfræðingar Veðurstofunnar settu upp mæli á varnargarð við Þórólfsfell í gær, föstudag. Óyfirfarin gögn úr honum birtast í vöktunarkerfinu vef stofnunarinnar en mælirinn er að líkindum á þurru. Ekki reyndist hægt að setja upp mælitæki í nágrenni við útfallið við Gígjökul.

Gosmökkur og rof - skráð 16.04.2010 kl. 21:45

Um kvöldmatarleytið sást hvítur gosmökkur meðal annars frá Reykjavík. Nokkru fyrr flaug Landhelgisgæslan yfir svæðið. Ljósmyndir af gosmekkinum og ummerkjum um flóð má skoða hér á vefnum.

Askan veldur vanda - skráð 16.04.2010 kl. 19:30

Eins og kunnugt er, veldur eldgosið í Eyjafjallajökli öskufalli. Það er að stórum hluta svifryk sem hindrar flugumferð víða í Evrópu. Veðurstofan birtir spá um öskufall.

Staðan á hádegi - skráð 16.04.2010 kl. 12:30

Nokkrir skjálftar hafa orðið frá því rétt fyrir klukkan 9 í morgun, 1 til 1,5 á stærð. Þá hafði skjálfti ekki mælst síðan rétt fyrir kl. 19 í gærkvöldi.
Gosstrókar fóru upp fyrir 8 km hæð þrisvar í morgun en er að jafnaði í um 5 kílómetra hæð. Óróatoppar komu fram á svipuðum tíma á skjálftamælum. Þeir voru þó orkuminni en púlsar sem komu fram fyrir hlaupið í gær. Óróatopparnir sjást á jarðskjálftamælum frá Kaldárseli í Hafnarfirði að Kálfafelli í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu.
Nú er vestanátt yfir Eyjafjallajökli. Öskufall gæti því orðið frá eldstöð og austur á Höfn í Hornafirði. Því er spáð að vindátt snúist í norðanátt í kvöld og má búast við að aska falli suður af eldstöðinni. Ekki er búist við breytingum á háloftavindum í dag og því er búist við að aska haldi áfram að berast yfir Evrópu.

GPS mælir til norðurs - skráð 16.04.2010 kl. 12:00

Athyglisverðar niðurstöður voru að berast úr GPS mælinum á Þorvaldseyri. Símalínan hafði laskast í flóðinu en gert var við hana í gær og gögnum bjargað. Myndin sýnir að mælirinn hefur færst um 2 sentimetra til norðurs síðastliðna tvo daga. Skýra má landbreytinguna með því að þau gosefni sem borist hafa upp úr eldfjallinu valdi vissum þrýstilétti og að landið gangi til baka.

Þorvaldseyri
línurit
GPS mælingar. Tímaásinn er óvenjulegur: sýnt er árið og sú prósenta sem liðin er af árinu. Hver grænn punktur er einn dagur og rauði punkturinn mæling 15. apríl.

Staðan - skráð 16.04.2010 kl. 08:00

Vatnshæð í Markarfljóti hækkaði aftur milli kl. 2 og 3 í nótt og varð svipuð því sem var við hámark flóðs í gærkvöldi - hefur farið lækkandi síðan. Hugsanlega á hlut að máli að aur og sandur hafi hækkað botn árinnar.

Enginn skjálfti hefur mælst á svæðinu síðan fyrir klukkan sjö í gærkvöldi.

Nú er ákveðin vestanátt yfir Eyjafjallajökli. Öskufall gæti því orðið frá eldstöð og austur að Höfn í Hornafirði. Því er spáð að vindátt snúist í norðanátt í kvöld og þá má búast við að aska falli suður af eldstöðinni. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á háloftavindum og því er líklegt að aska haldi áfram að berast yfir Evrópu.

Þéttur öskustrókur liggur nú yfir Norður-Noregi og þar hefur orðið vart við öskufall. Búast má við öskufalli víðar í Evrópu í dag. Nú liggur öskustrókur yfir norðurströnd Póllands, Þýskalands og Frakklands, Belgíu, suðurströnd Englands og Norðvestur-Rússland.

Enn er stöðug og þétt framleiðsla á ösku í eldstöðinni og ekkert bendir til að hún minnki á næstunni. Skoða má gervihnattamynd af öskustrók og skýjatrafi sem barst til austurs frá eldstöðinni snemma í gærmorgun (EUMETSAT SEVIRI), það er að segja frá klukkan 01-12 þann 15. apríl, en gætið að:

Svif-aska kemur fram sem afgerandi birtuhitastigsmismunur og er teiknaður í skær-appelsínugulum og skær-rauðum lit. Grænir litir eru lágský, dökk-rauðir eru miðský, og svarti skýjaflekkurinn er ekki gosstrókur, heldur er þykkt háský, (cirrus ský) og þakti mikið af hinum raunverulega gosstróki og gosösku. Sjá má nánari skýringar í fróðleiksgrein.

Þeir sem vilja fylgjast með því svæði sem flugmálayfirvöld í Evrópu telja hættusvæði er bent á heimasíðu Volcano Advisory Center í London. Smellið á "Issued graphics" fyrir ofan kortið og veljið síðan nýjustu mynd.

Myndir af flóðinu - skráð 15.04.2010 kl. 22:40

Flóðið uppi við Gígjökul kl. 19:10
Flóðið uppi við Gígjökul
Flóðið við Gígjökul kl. 19:10. Ljósmynd: Matthew J. Roberts - úr Landhelgisgæsluflugi.
Óróagraf kl. 12-20 15. apríl
Óróagraf
Mynd sem sýnir tíðniróf norðurþáttar jarðskjálftamælisins á Goðalandi frá kl. 12 til 20 fimmtudaginn 15. apríl. Óróinn frá gosstöðvunum í toppgíg Eyjafjallajökuls er sterkastur á tíðnisviðinu 0.5 til 1 Hz. Vatn hefur safnast upp við gossprunguna frá því upp úr hádegi og samspil vatns og kviku framkallaði lotubundinn óróa með sveilfutíðni um 12 mínútur og jókst hann jafnt og þétt fram eftir degi. Af tíðnirófinu má sjá að vatnið brýst út úr gígnum um kl. 18:25, því þá dreifist orkan yfir á hærri tíðnir. Miklar drunur heyrðust í Fljótshlíð á þessum tíma og klukkan 18:54 sást hlaupvatnið brjótast út úr lóninu. Orkan er litakvörðuð og rauðari litir samsvara meiri orku.
Flóðið við varnargarðana
Flóðið við varnargarðana
Flóðið við varnargarðana kl. 19:14. Ljósmynd: Matthew J. Roberts - úr Landhelgisgæsluflugi.

Flóðið - skráð 15.04.2010. kl. 21:45

Vatnið fór í 7,8 m hæð við gömlu Markarfljótsbrúna kl. 20:11, lækkaði svo lítillega (niður í 7,3) og var í svipaðri hæð til kl. 21:30.

Skynjarinn er á brúarhandriðinu og þolir mest 10 m vatnshæð.

Vatnshæð í Markarfljóti
markarfljot-150410-2000
Vatnshæð í Markarfljóti frá kl. 19:50 í kvöld, 15. apríl, til kl. 21:40.

Flóð og órói - skráð 15.04.2010 kl. 20:20

Kl. 19:56 náði flóðið að gömlu Markarfljótsbrúnni, vatnið fór úr 5,75 m og hækkar stöðugt.

Órói á skjálftamælum jókst í kjölfar skjálfta kl. 7:20 í morgun. Upp úr kl. 13 fór óróinn að verða sveiflukenndur, útslagið jókst stöðugt til kl. 18:20 og tíðnin var á sama sviði og í gosinu í gær. Þetta táknar líklega að vatn var að safnast í gosrásina. Óróinn datt niður laust fyrir kl. 19 en orkan var þá svipuð og þegar gosið var í hámarki í gær.

Þessi lotubundni órói er óvenjulegur en sást í aðdraganda gossins í Grímsvötnum og bendir líklega til samspils kviku og vatns.

Spá um öskufall á Íslandi - skráð 15.04.2010 kl. 16:35

Spá um öskufall á Íslandi - fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag, dagana 15., 16., 17. og 18. apríl 2010:

Fimmtudagur (kvöld): Suðvestanátt, 5-10 m/s og slydda eða snjókoma yfir Eyjafjallajökli. Skyggni lítið. Aska dreifist yfir Mýrdalssand, Álftaver og Meðalland, Skaftártungur.

Föstudagur: Vestlæg átt, um 10-15 m/s og snjókoma yfir gosstöðvum. Skyggni lítið. Snýst í norðan 10-15 um kvöldið. Aska mun því líklega áfram dreifast einkum yfir Mýrdalssand, Álftaver, Meðalland, Skaftártungur og jafnvel Skeiðarársand fram á kvöld. Síðar um kvöldið er líklegt að aska fari að falla í Mýrdal og Vestmannaeyjum en að verulega dragi úr öskufalli yfir SA-landi.

Laugardagur: Norðvestan 8-13 m/s og léttskýjað. Skyggni ágætt. Aska mun væntnalega dreifast yfir Mýrdalinn, undirlendið við Eyjafjöll og gæti teygt sig til Vestmannaeyja.

Sunnudagur: Útlit fyrir suðvestanátt, 8-13 m/s og él. Skyggni gott með köflum. Aska mun líklega dreifast einkum yfir Skaftártungur og Álftaver.

Frá veðurfræðingum Veðurstofu Íslands fimmtudaginn 15. apríl 2010.

Skoða má myndir úr flugi Landhelgisgæslunnar frá í morgun af gosmekki og vatnsföllum. Lesa má um hlaup úr Gígjökli árið 1822 í fróðleiksgrein.

Gosmökkur á MODIS-mynd - skráð 15.04.2010 kl. 14:20

Gosmökkurinn
mokkur15042010_1139B
Gosmökkur á MODIS-mynd kl. 11:39 í dag, 15. apríl. Birt með góðfúslegu leyfi Jarðvísindastofnunar.

Um söfnun ösku - skráð 15.04.2010 kl. 12:30

Veðurstofan hefur á að skipa öflugri sveit athugunarmanna út um allt land og eitt af mörgum störfum þeirra er að safna ösku ef öskufall verður eða slíkt vofir yfir. Leiðbeiningar eru til sem nýtast öllum almenningi (pdf 0,03 Mb). Senda má sýni til Jarðvísindastofnunar (Guðrúnar Larsen). Senda má Veðurtofunni ábendingar um öskufall o.fl. Ljósmyndin hér undir sýnir hvíta og svarta gosmekki sem boða öskufall.

Gosmökkur yfir Þorvaldseyri
hvítir og svartir gosmekkir
Gosmekkir, hvítir og svartir, fyrir ofan bæinn Þorvaldseyri 14. apríl 2010. Ljósmynd: Ólafur Eggertsson. Myndin er unnin til að skerpa andstæður.

Eldingar eru farnar að eiga sér stað í gosmekkinum yfir Eyjafjallajökli og sú fyrsta var kl. 18:31 í gær. Reynslan úr Grímsvatnagosum sýnir þó að gosmökkur þarf að vera myndarlegur til að skapa skilyrði fyrir hleðsluaðskilnað og eldingar.

Órói, gosmökkur og hlaup - skráð 15.04.2010 kl. 8:45

Í gær jókst órói á jarðskjálftamælum um svipað leyti og seinna flóðið frá Gígjökli fór af stað. Tvö minni hlaup komu í nótt en þá var óróinn nokkuð stöðugur þar til kl. 07 í morgun. Þá hvarf gosmökkurinn af radarnum en það þýðir að hann var í innan við 3 km hæð. Mökkurinn kom aftur fram á radar um 25 mínútum síðar, kl. 07:25, og náði þá 4 km hæð. Óróinn jókst um svipað leyti, um kl. 07:35.

Vatnsrennsli í Markarfljóti - skráð 14.04.2010 kl. 17:55

Vatnshæðarmælingar við gömlu brúna yfir Markarfljót
Markarflj.DB_Image9
Vatnshæðarmælingar við gömlu brúna yfir Markarfljót frá miðnætti til kl. 17:26 í dag, 14. apríl, en þá var vatnshæðin komin niður í 6,8 m. Hæst fór vatnið í 8,3 m.

Vatnavextir - skráð 14.04.2010 kl. 17:00

Línurit úr vatnsmæli við útfall lónsins við Gígjökul sýnir að kl. 06:50 í morgun byrjaði vatnsborð að hækka og mælirinn hringdi kl. 7:10 (þá var vaktmaður reyndar vaknaður). Kl. 09:50 hafði vatnsborðið hækkað um 4,25 m og átti eftir að hækka upp í 5,1 m, um 4,35 m alls, en þá fór mælirinn. Kl. 11:20 var flóðið komið að gömlu Markarfljótsbrúnni og hækkaði þar um 1,5 m á næstu 12 mínútum. Hækkunin á mælinum þar varð mest um 2 m síðan lækkaði aftur, m.a. vegna þess að vatn flæddi um skörðin sem gerð voru í veginn. Kl. 12:15 var flóðið komið að brúnni yfir Markarfljót á þjóðvegi 1.

Línurit úr vatnsmæli við útfall lónsins við Gígjökul
Gígjökulslón, vatnshæð
Línurit úr vatnsmæli við útfall lónsins við Gígjökul sýnir að kl. 06:50 í morgun byrjaði vatnsborð að hækka og hækkaði stöðugt til kl. 10 er vatnið virtist hrífa mælinn með sér (lóðrétta línan).

Jarðskjálftar, tíðniróf og óróagröf - skráð 14.04.2010 kl. 16:35

Myndin hér fyrir neðan sýnir tíðniróf frá því í gærkvöldi af lóðréttum þætti jarðskjálftamælisins í Miðmörk og óróagröf af lægsta tíðnibandi (0,5-1 Hz) á lóðréttum þáttum á nálægum jarðskjálftastöðvum (Miðmörk, Goðalandi, Eystri-Skógum og Haukadal). Í kjölfar skjálftahrinunnar, sem hófst með M 2,5 skjálftanum kl. 22:59 í gærkvöldi, fór lágtíðniórói vaxandi, sem benti til að kvika væri komin að yfirborði um kl. 01:15 í nótt, þegar titringur við tæplega 1 Hz fór að verða áberandi.

Tíðniróf og óróagröf
tidnirof_13-14_apr
Tíðniróf frá því í gærkvöldi af lóðrétta þætti jarðskjálftamælisins í Miðmörk og óróagröf af lægsta tíðnibandi (0,5-1 Hz) á lóðréttum þáttum á nálægum jarðskjálftastöðvum (Miðmörk, Goðalandi, Eystri-Skógum og Haukadal).

Eyjafjallajökull, MODIS-myndir - skráð 14.04.2010 kl. 15:00

Gosmökkur á MODIS-mynd
Eyja14042010hiti
Gosmökkur á MODIS-hitamynd kl. 12:34 í dag, 14. apríl. Birt með góðfúslegu leyfi Jarðvísindastofnunar.
Gosmökkur á MODIS-mynd
Eyja14042010ljos
Gosmökkur á MODIS-ljósmynd kl. 12:34 í dag, 14. apríl. Birt með góðfúslegu leyfi Jarðvísindastofnunar.

Vatnavextir - skráð 14.04.2010 - kl. 14:50

Vatnavextir í Markarfljóti náðu hámarki um kl. 13 í dag og flóðið virðist vera í rénun.

Vatnsmælir við útfall lónsins við Gígjökul hefur skemmst vegna vatnavaxta og sendir engin gögn.

Markarfljót, vatnavextir - skráð 14.04. kl. 13:00

Vatnamælir við gömlu Markarfljótsbrúna sýndi kl. 11:25 að vatn hafði hækkað um 2 m. Vatnið er komið upp í brúargólf og flæðir yfir veginn við brúna.

Vatn við Markarfljótsbrú á þjóðvegi 1 vex stöðugt en það flæðir um skörðin sem gerð voru, einnig fóru varnargarðar og þá minnkaði álagið á brúnni.

Ólafur Sigurjónsson í Forsæti sendi Veðurstofunni myndina hér að neðan og er honum þakkað fyrir þær myndir sem hann hefur sent af eldsumbrotunum undanfarnar vikur. Fleiri myndir Ólafs frá í morgun.

Við Gígjökul kl. 10:57
OlSi-2010_0414_105756
Flóðið steypist fram beggja vegna Gígjökuls kl. 10:57 í morgun. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson, Forsæti III.

Vatn við Gígjökul vex hratt - skráð 14.04.2010 kl. 10:15

Vatnsmælir við útfall lónsins við Gígjökul sýnir að vatn í lóninu hefur aukist hratt undanfarnar klukkustundir. Frá því rétt fyrir kl. 7 í morgun til kl. 10:05 hafði vatnið stigið um 4 metra og 25 sentimetra.

Gosopið virðist vera syðst í gígnum. Gosmökkurinn er kominn í um 8 km hæð og leggur til austurs.

Vöktunarkerfi flóða á vefnum er lokað almenningi í bili vegna álags, til að tryggja Almannavörnum aðgang að upplýsingunum.

Eyjafjallajökull 30. mars 2010
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull 30. mars 2010. Fremst er Gígjökull og lónið framan við hann. Samanburður við myndina hér fyrir neðan sýnir hve mikið Gígjökull hefur rýrnað. Ljósmynd: Baldur Sveinsson. Birt með góðfúslegu leyfi Baldurs sem sendi Veðurstofunni myndina.
Eyjafjallajökull 11. september 1992
gigjok14659
Gígurinn í Eyjafjallajökli sést hér greinilega. Norður úr honum skríður Gígjökull. Myndin er tekin 11. september 1992. Síðan þá hefur Gígjökull rýrnað verulega eins og sjá má á nýrri mynd hér fyrir ofan. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Önnur eldsumbrot vestar - skráð 14.04.2010 kl. 09:15

Jarðskjálfti, 2,5 á stærð og á 6-7 km dýpi, mældist rétt fyrir kl. 23 í gærkvöldi í Eyjafjallajökli. Í framhaldinu fjölgaði skjálftum mjög mikið og urðu þeir mun grynnri, á innan við 2 km dýpi.

Smáskjálftar komu fram á mínútufresti fram til kl. eitt eftir miðnætti. Upptökin voru í suðvesturhluta Eyjafjallajökuls, við Fellshaus.

Rétt fyrir kl. 7 í morgun fór vatn við Gígjökul að vaxa mjög hratt og hefur það runnið í Markarfljót. Það bendir til að eldgos sé undir toppgíg Eyjafjallajökuls. Ekkert vatn hefur runnið suður af jöklinum.

Lesa má um eldgosið á Fimmvörðuhálsi, undanfarnar vikur, í eldri grein.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica