Spurt og svarað
Hvenær gaus síðast í Öskju og hversu oft hefur gosið þar?
Síðast gaus í Öskju árið 1961 en það var miðlungsstórt hraungos á sprungu staðsett í Öskjuopi. Gosið varði í um sex vikur og urðu kvikustrókar allt að 500 m háir. Heildarmagn hrauns reyndist 0.1 km3 og heildarmagn gjósku var 0,0004 km3.
Talið er að yfir 200 eldgos hafa orðið í eldstöðvakerfinu síðastliðin 7000 ár en gossagan eins og við þekkjum hana er byggð á gjóskulögum og rituðum heimildum fyrir síðustu 1000 árin. Gjóskulögin í Öskju eru yngri en 7000 ára en það er byggt á því að H-5 gjóskulagið, sem er eftir sprengigos úr Heklu fyrir um 7000 árum, finnnst ekki á svæðinu.
Hvernig gos verða í Öskju?
Á nútíma er vitað um fjórar gerðir eldgosa í megineldstöðinni en þau eru: basískt tætigos, basísk flæðigos úr sprungum, kísilrík sprengigos og kísilrík flæðigos. Öskjuvatn myndaðist til dæmis í sprengigosi sem var blandað af basalti og ríólíti en heildarmagn gjósku var 1.8 km3. Einnig gýs á sprungusveimum og eru þar þrjár gerðir gosa: basísk hraungos frá sprungum, basísk flæðigos á hringlaga gosopum og basísk sprengigos úr sprungum. Lengd eldgosa er mjög breytileg og fer eftir hvers eðlis eldgosið er, en þau geta verið allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkur ár. Þá var til dæmis sprengigosinu árið 1875 lokið að mestu á tveimur dögum, frá 28.-29.mars. Hins vegar er lengd basískra gosa, sem mynda hraunskildi, töluvert lengri og eru oft nokkur ár til áratugir.
Gýs alltaf á sama stað?
Sprungukerfi Öskju er eitt lengsta sprungukerfi landsins en það er um 190 km langt og 20 km breitt og því getur kvika komið upp víða . Síðast gaus í innanverðu Öskjuopi en það var árið 1961. Árin 1924, 1927 og 1929 urðu hinsvegar eldgos við Vatnsskarð og við Þorvaldstind. Flest eldgos hafa þó átt sér stað í fjallshlíðum, á sprungusveimum og í öskjum megineldstöðvarinnar síðastliðin 7000 ár.
Hverskonar náttúruvá tengist gosum í Öskju?
Þar sem suðurhluti kerfisins er heldur virkari en sá nyrðri þá er algengara að fá eldgos á þeim slóðum og því er váin meiri þar. Í nærumhverfi Öskju er hættan einna helst vegna hraunflæðis sem getur komið upp hvar sem er og lokað fjallaslóðum. Síðan má nefna gjóskufall og gjóskuhlaup sem hafa gríðarlegan eyðileggingarmátt. Síðast en ekki síst gætu hættuleg gasústreymi haft áhrif á fólk í nálægð. Þegar horft er á áhrif lengra frá Öskju ber helst að nefna slæm loftgæði vegna gasútsteymis og gjóskufall en þar hefur vindátt mikil áhrif. Ef mikið sprengigos verður gæti gjóskan valdið truflunum á flugleiðum líkt og gerðist í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010. Í nyrðri hluta kerfisins er helsta váin rof á samgögnum vegna jarðskjálfta og/eða hraunrennslis sem gætu lokað vegum og stíflað ár.