Eldfjallavá

Eldfjallavá

Heimili og önnur verðmæti skemmdust eða eyðilögðust í eldgosinu í Heimaey, Vestmannaeyjum, 1973. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Ólíkar hættur geta stafað af eldgosum, bæði vegna eldvirkni og vegna aðstæðna í náttúrunni umhverfis eldstöðvarnar. Hér á landi er mikill fjölbreytileiki eldstöðvakerfa og því eru hætturnar mismunandi eftir eldstöðvakerfum, þessar hættur eru meðal annars jökulhlaup gjóskustraumar gasmengun gosmekkir og öskudreifing, jarðskjálftar, hraunflæði, eldingar og skriðuföll. Ítarlega er fjallað um þessar hættur undir flipunum hér til vinstri. Þekking á gossögu eldfjalla og góður skilningur á innviðum þeirra og hegðun skiptir miklu um það að geta spáð fyrir um hvað eldstöðin muni gera í framtíðinni.

Oftast gera eldgos boð á undan sér. Dæmi um undanfara eldgoss getur meðal annars verið aukin jarðskjálftavirkni, landris, breytingar á jarðhita og gasútstreymi í nágrenni eldfjallsins. Fylgst er með þessum þáttum í grennd við eldstöðvakerfi til þess að nema breytingar. Þessir fyrirboðar tengjast yfirleitt hreyfingu eða söfnun kviku í kvikuhólfi sem getur staðið yfir í nokkur ár áður og ef að því kemur að eldfjallið gýs. Það er þó ekki algilt að eldstöðin gefi einhverskonar fyrirboða því sum eldfjöll geta gosið án merkjanlegs aðdraganda. Eldstöðvar get einnig sýnt merki um breytingar þar sem kvikuhreyfing á sér stað undir yfirborði án þess að kvikan nái upp á yfirborð og eldgos verði.

Hér á landi eru margskonar eldstöðvarkerfi og því er ekki hægt að túlka hegðun einnar eldstöðvar á sama hátt og annarrar. Fylgjast þarf með og skoða hverja eldstöð sérstaklega.

Veðurstofan virkjar sérstakar vefsíður í eldfjallavá og birtir þar meðal annars upplýsingar og rauntímagögn. Á vefsíðu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra  er að finna ráð um varnir og viðbúnað við ýmsum hættum sem stafað geta af eldgosum. 

Upplýsingar um eldfjallavá er víða að finna s.s. í bókinni Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar (aðalritstj. Júlíus Sólnes, 2013) og á vef Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna  US Geological Survey (www.volcanoes.usgs.gov). Þær upplýsingar sem er að finna á undirsíðun flipanna hér til vinstri koma aðalega frá þessum heimildum.


1405eyjagos.t4d25ed64.m800.tif.pv.xQN19qE2x-vTuOc9yg39HuWwLm6cYJ4bi29e_4obsQPg

Elddgos í Heimaey, Vestmannaeyjum 23. janúar til 10. júlí 1973. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica