Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC)

vedur.is 8.5.2007

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC var stofnuð 1988 og gegnir því hlutverki að draga saman vísindalega þekkingu um loftslagsbreytingar. Nefndin samanstendur af flestum ríkjum heims eða 195 ríkjum og þúsundir vísindamanna frá öllum heimshornum koma að vinnu nefndarinnar. Það má segja að með stofnun nefndarinnar hafi verið tekið fyrsta skrefið í alþjóðlegri samvinnu um loftslagsmál. Megin tilgangur nefndarinnar er að upplýsa stjórnendur heims um þá þekkingu sem er til staðar um loftslagsbreytingar hverju sinni og sömuleiðis meta framtíðaráhættu út frá nokkrum mismunandi sviðsmyndum (setja hlekk á sviðsmynda síðuna).

Það má segja að starf nefndarinnar sé keimlíkt starfi íslensku vísindanefndarinnar um loftslagsbreytingar að því leiti að nefndin stendur ekki fyrir eigin rannsóknum heldur er hlutverk hennar að safna saman, rýna og meta vísindalegar rannsóknir sem varða loftslagsbreytingar, bæði á sviði raun- og náttúruvísinda og félags- og hugvísinda.

IPCC gefur út reglulega ítarlegar matsskýrslur (e. assessment reports) þar sem farið er vel yfir þá vísindalegu þekkingu sem til er hverju sinni um loftslagsmál. Matskýrslan samanstendur af úttektum þriggja vinnuhópa (WG1, WG2 og WG3) ásamt stöðuskýrslum um afmörkuð málefni og samantektarskýrslu (SYR). Hver vinnuhópur skilar ítarlegri skýrslu (e. technical report) ásamt hnitmiðaðara skjali sérstaklega ætlað að halda utan um lykilatriði fyrir stjórnendur sem kallast samantektarskýrsla fyrir stjórnendur (e. summary for policy makers). Vinnuhópur eitt (WG1) fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum. Vinnuhópur tvö (WG2) leggur mat á tjónnæmi (e. vulnerability) félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og möguleika á aðlögun. Vinnuhópur þrjú (WG3) leggur mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á aðrar leiðir til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.

Milliríkjanefnd SÞ hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007.

Sjá undirflokka hér til vinstri sem fjalla um matskýrslu IPCC 2007 og matskýrslu IPCC 2013 og matskýrslu IPCC 2014.

 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica