Hafís í mars 2005

Sigþrúður Ármannsdóttir 5.5.2006

Athugið að myndin stækkar ef smellt er á hana.

Mikill hafís var úti fyrir norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi öllu meiri hluta marsmánaðar.

Hafís í mars 2005

Meginástæða þessa mikla íss var kyrrstöðuhæð sem myndaðist yfir Norður-Atlantshafi síðari hluta janúarmánaðr og olli langvarandi vestlægri átt í Grænlandssundi og Íslandshafi. Við þær aðstæður hrekur ísinn austur á bóginn þar sem hann leggst yfir hafsvæði í Íslandshafi norður af landinu. Snúist síðan til norðanáttar eins og að þessu sinni hrekur ísinn inn á siglingaleiðir, inn í firði og jafnvel upp að landi.

Kyrrstöðuhæðin sem hafði verið við lýði meira eða minna í 5-6 vikur lét sig upp úr miðjum marsmánuði og vindátt varð austlæg. Greiddist þá úr ísnum og lát varð að mestu á ís úr Grænlandssundi austur í Íslandshaf. Þess ber þó að geta að sinn tíma tekur fyrir hafísinn, sem á annað borð er kominn norður fyrir land, að molna, grotna og bráðna en á meðan berst hann gjarnan með strandstraumum með landi austur með Norðurlandi.

Strax þ. 1. voru ísdreifar komnar 20 sml. N af Melrakkasléttu og 37 sml. ANA af Langanesi. Eftir því sem dagarnir liðu þéttist ísinn og þokaðist nær landi. Um miðjan mánuð voru ísdreifar á siglingaleiðum úti fyrir öllu Norðurlandi, við Strandir, á leiðinni fyrir Horn og komnar suður fyrir Langanes. Fregnir bárust af jökum austur með landinu og alveg til Norðfjarðar.

Þ. 13. var send út hafísviðvörun þar sem sjófarendur voru varaðir við þar sem siglingaleiðir voru orðnar illfærar.

Þ. 16. var enn send út hafísviðvörun þar sem siglingaleiðin fyrir Horn var lýst lokuð enda ís orðinn landfastur á því svæði. Fram eftir mánuðinum þótti leiðin fyrir Horn varhugaverð til siglinga nema í dagsbirtu.

Í flugi Landhelgisgæslunnar þ. 22. sást að meginísinn hafði fjarlægst Norðurland en dreifður ís var þó á víð og dreif.

Í lok mánaðar voru talsverðar ísdreifar inn á Húnaflóa og svæðinu norður af norðanverðum Vestfjörðum en hafsvæðin austar orðin nokkuð auð fyrir utan stöku jaka hér og þar. Leiðin fyrir Horn orðin vel fær. Allnokkrir borgarísjakar voru í samfloti með hafísnum.

Landhelgisgæslan fór níu sinnum í ískönnunarflug í mars þ. 1., 4., 7., 10., 12., 14., 16., 22. og 29. Samantektin að ofan er unnin út frá hafísupplýsingum frá Landhelgisgæslunni, tilkynningum frá sjófarendum og fólki í landi.

Norðaustanátt var tíðust í Grænlandssundi í marsmánuði.

 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica