Borgarísjaki
Borgarísjaki á Íslandsmiðum.

Útbreiðsla íss 1877 til 1968

Lauge Koch og Hlynur Sigtryggsson

Trausti Jónsson 26.5.2016

Gögn fyrri tíma skipta miklu máli fyrir heildarsýn og skilning á framvindu þeirra breytinga sem eiga sér stað í náttúrunni.

Í meðfylgjandi skjali (pdf 1,4 Mb) eru kort sem sýna ísútbreiðslu hér við land eftir mánuðum á árunum 1877 til 1968.

Þau eru fengin úr riti eftir Lauge Koch (The East Greenland Ice, 1945) og úr ritgerð Hlyns Sigtryggssonar í bókinni Hafísinn (1969) en Hlynur var veðurstofustjóri frá 1963 til 1989. Röð kortanna er sú sama og í bókunum. Koch byrjar á þeim yngstu (frá 1940) og heldur aftur til ársins 1877, en kort Hlyns ná frá 1941 til 1968.

Þótt kortin gefi allgott yfirlit um legu íssins á tímabilinu má ekki taka þau allt of bókstaflega. Oftast er um hámarksútbreiðslu mánaðarins að ræða fremur en dæmigerða útbreiðslu. Engin munur er gerður á þéttum og gisnum ís. Viðbótarheimildir sem komið hafa fram eftir útgáfu bókanna gefa til kynna að eitthvað vanti af ís á kortin í stöku mánuði.

Koch notaði kortin og aðrar upplýsingar til að búa til mælitölu um útbreiðslu íssins frá ári til árs, svokallaðan Koch-ísvísi (Koch-index). Um hann má lesa í greinargerð Jóns Elvars Wallevik og Hjalta Sigurjónssonar frá árinu 1998: „The Koch Index, Formulation, corrections and extension“. Vísirinn hefur mikið verið notaður í rannsóknum á veðurfarssögu við Norður-Atlantshaf.

Úr formála bókarinnar Hafísinn

Efni þessarar bókar er sótt í hafísráðstefnu þá, er haldin var í Reykjavík 27. janúar - 7. febrúar 1969. Að henni stóðu Jarðfræðarfélag Íslands, Jöklarannsóknafélag Íslands, Sjórannsóknadeild Hafrannsóknastofnunarinnar og Veðurstofa Íslands. Aðalhvatamaður að ráðstefnunni var prófessor Trausti Einarsson, og ritar hann inngangsorð. Með honum sátu í framkvæmdanefnd Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri, prófessor Sigurður Þórarinsson og dr. Unnsteinn Stefánsson deildarstjóri. Hefur nefndin verið til ráðuneytis við útgáfu bókarinnar. [...]

Á ráðstefnunni, sem helguð var minningu Jóns Eyþórssonar veðurfræðings, var rætt um hafísinn á mjög breiðum grundvelli, sem m.a. má marka af því, að þar fluttu 23 höfundar úr ýmsum greinum raunvísinda og sagnfræði 30 erindi.

Ritstjóri bókarinnar var Markús Á. Einarsson veðurfræðingur, sem einnig var framkvæmdastjóri ráðstefnunnar.

Tímaritið Hafís við strendur Íslands

Tímaritið Hafís við strendur Íslands sem Veðurstofan gaf út á árunum 1971 - 2003, veitir upplýsingar um hafís á árunum 1969 - 1996 og tekur því við, eftir að því tímabili lýkur sem ofangreind kort yfir hafísútbreiðslu ná yfir (1877 - 1968).

Tímaritinu Hafís við strendur Íslands eru gerð skil í annarri fróðleiksgrein.

Um hafís á vef Veðurstofunnar

Hér á vef Veðurstofunnar má finna mánaðaryfirlit hafíss frá 1999 til 2011, eldri hafístilkynningar frá 1998 til 2011, eldri ískort Landhelgisgæslunnar frá 1998 til 2011 og skýrslur úr ískönnunarflugi Landhelgisgæslunnar frá 2007 til 2014.

Árið 2011 var skipt um vinnulag á vefnum og hafístilkynningar eru nú settar jafnóðum á vefinn af sólarhringsvakt Eftirlits- og spásviðs.

Tilvitnun

Koch, Lauge (1945), The East Greenland Ice, Meddelelser om Grønland, 130, nr.3, s.214-227.

Markús Á. Einarsson (ritstj.) (1969) Hafísinn, s.86-91.

Til baka




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica