Hafís í janúar 2002

Sigþrúður Ármannsdóttir 8.5.2006

Athugið að myndin stækkar ef smellt er á hana.

Fyrstu viku janúarmánaðar barst talsvert af tilkynningum frá skipum um íshrafl og borgarísjaka á siglingaleið úti fyrir norðanverðum Vestfjörðum, inn á Húnaflóa og úti fyrir Skagafirði. Meginísinn virtist hins vegar vera nokkru utar eins og kom fram í ískönnunarflugi á þriðja degi mánaðarins.

Haf- og borgarístilkynningar í janúar 2002

Landhelgisgæslan fór þrisvar í ískönnunarflug í janúar, þ. 3., 12. og 24.

Þ. 3. var ísröndin næst landi 40 sml. NV af Straumnesi og 55 sml. NV af Horni. Var þar um samfrosta ís að ræða eða 10/10 að þéttleika. Ísdreifar teygðu sig allt að 12 sml. út frá Horni og austur um að Gjögri. Einnig var talsvert um borgarís norður af Horni.

Þ. 12. hafði ísbrúnin þokast nær landi og var næst 26 sml. N af Horni og 34 sml. NNV af Kögri. Ísinn var víðast hvar álíka þéttur og þ. 3. eða 10/10, og meðfram ísröndinni vestan við 25° var ís í myndun á nokkuð stóru svæði.

Þ. 24. hafði ísinn hörfað frá landinu enda búin að vera norðaustanátt sem var mjög hagstætt til að hann fjarlægðist. Næst landi var hann 80 sml. VNV af Deild og 90 sml. VNV af Blakksnesi. Hann var heldur gisnari en þ. 12., eða 7-9/10. Ís í myndun var meðfram ísröndinni á talsvert stóru svæði.

Síðari hluta mánaðar hafði borgarísjaki strandað við Kögur.

Norðaustanátt var ríkjandi í Grænlandssundi í janúar.

 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica