Hafís
Sea ice NW of Iceland on July 7th 2006, seen from the aircraft of the Icelandic Coast Guard.

Er hafís á norðurhveli að jafna sig?

Halldór Björnsson 25.5.2009

Hafís á norðurhveli er mestur síðla vetrar og þekur þá 14 - 15 milljón ferkílómetra.

Á sumrin dregst hafísbreiðan verulega saman og fer niður í 5 - 6 milljón ferkílómetra (sjá greinina Endalok hafísbreiðunnar á norðurhveli).

Undanfarna áratugi hefur flatarmál breiðunnar minnkað um 2,7% á áratug, en að sumarlagi er samdrátturinn meiri eða 7,4% á áratug.

Sumarið 2007 tók þó steininn úr, en þá dróst hafísbreiðan mjög mikið saman og varð minnst rúmlega 4 milljón ferkílómetrar (sjá mynd 1). Næsta vetur náði ísinn nokkuð að jafna sig en sumarið 2008 var hafísbreiðan aftur óvenjulítil, þó ísinn væri meiri ís en sumarið á undan (sjá mynd 2).

Hafísþekja í september
línurit - lína hallar niður til hægri
Mynd 1. Útbreiðsla hafíss á norðurhveli í september frá 1978 til 2008. Myndin sýnir greinilega þann stöðuga samdrátt sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi, og hversu síðustu tvö ár skáru sig úr. Heimild: NSIDC.
línurit - línur sveigjast niður til hægri og upp aftur
Mynd 2: Þróun hafísbreiðunnar á Norðurhveli yfir sumar og haust árið 2008 (blá lína). Til samanburðar má sjá árin 2005, 2007 og meðaltal áranna 1979 - 2000. Heimild: NSIDC.

Veturinn 2008 - 2009 stækkaði hafísbreiðan og náði ísinn mestri útbreiðslu um mánaðamótin febrúar - mars en fór þá að dragast saman aftur (sjá mynd 3). Þó hafísbreiðan hafi náð svipuðu hámarki báða veturna 2007 - 2008 og 2008 - 2009 þá fer því fjarri að vetrarísinn hafi þessi ár náð þeirri útbreiðslu sem algeng var fyrir aldamótin (sjá mynd 4). Reyndar er það svo að útbreiðslan í mars þessa tvo vetur er álíka og útbreiðslan í mars um miðjan tíunda áratug 20. aldar, en þá þótti vetrarísinn óvenju lítill. Eins og sjá má á mynd 4 fellur stærð hafísbreiðunnar í mars árin 2008 og 2009 vel að þeim stöðuga samdrætti sem verið hefur á útbreiðslunni síðustu áratugi.

línurit - línur sveigjast niður til hægri
Mynd 3. Þróun hafísbreiðunnar á Norðurhveli snemma árs 2009. Til samanburðar má sjá sömu mánuði 2007 og meðaltal áranna 1979 - 2000. Heimild: NSIDC.
Hafísþekja í mars
línurit - lína hallar niður til hægri
Mynd 4: Útbreiðsla hafíss á norðurhveli í mars frá 1978 til 2009. Myndin sýnir greinilega þann stöðuga samdrátt sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi, og einnig að síðustu tvö ár skera sig ekki úr hvað þetta varðar. Heimild: NSIDC.

Tölur um útbreiðslu segja þó ekki alla söguna. Augljóst er að ef ísbreiðan dregst sífellt meira saman að sumri meðan samdráttur að vetri er hægari, hlýtur aldurssamsetning íssins að vera að breytast þannig að sífellt stærra hlutfall íssins myndist og hverfi á sama "ís-ári".

Vísindamennirnir Jim Maslanik og Chuck Fowler við háskólann í Boulder í Colorado hafa reiknað breytingar á aldurssamsetningu hafíss í Íshafinu og mynd 5 sýnir niðurstöðurnar. Efri myndin vinstra megin sýnir miðgildi aldursdreifingarinnar fyrir árin 1981 - 2000. Einfaldast er að túlka þessa mynd sem svo að hún sýni svæðisbundna dreifingu hins dæmigerða aldursflokks fyrir þetta tímabil. Hægra megin eru svo niðurstöðurnar fyrir febrúar 2009.

Það er greinilegt að mun meira er af fyrsta árs ís og mun minna af eldri ís. Neðst á myndinni er svo sýnt hvernig hlutfall aldursflokka í febrúar hefur breyst frá því árið 1981 til ársins 2009. Í upphafi tímabilsins er hlutfall eldri íss um 30%, en árið 2009 er það komið niður í 10%.

Fyrsta árs ísinn er þynnri en eldri ís og bráðnar því frekar að sumarlagi. Þessar breytingar í aldurssamsetningu gera það líklegt hafísbreiður á við það sem sást sumrin 2007 og 2008 verði í framtíðinni algengari.

tvö kort og eitt línurit
Mynd 5. Breytingar á aldurssamsetningu hafíss á norðurhveli á síðustu áratugum. Efst t.v. sést dæmigerð aldurssamsetning hafíss í lok febrúar fyrir árabilið 1981 - 2000. Efst t.h. sést aldurs-samsetningin í lok febrúar 2009. Neðst sést hvernig hlutfall hafíss sem er eldri en 2 ára fer sífellt minnkandi, en hlutfall fyrsta árs ís vex stöðugt. Heimild: NSIDC.
Til baka




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica