Jarðskjálftar

Jarðskjálftar

mynd/photo

Brúin yfir Sandá í Ölfusi skemmdist í jarðskjálfta 29. maí 2008. Ljósmynd: Sigurlaug Gunnlaugsdóttir.

Vöktun jarðskorpunnar í nágrenni virkra eldstöðva og á brotabeltum er mjög mikilvæg.

Vöktun jarðskorpunnar með öflugu mælakerfi er grundvöllur þess að geta spáð fyrir um eldgos eða gefið út viðvaranir til almennings í tæka tíð. Það er sérstaklega mikilvægt að vakta eldstöðvar sem eru nærri byggð. 

Eldvirkum svæðum fylgir langoftast jarðskjálftavirkni; hún er reyndar mismikil á milli eldstöðva og hvort eldstöðin liggi í dvala eða sé mjög virk þá stundina, en jarðskjálftar eða breytingar á jarðskjálftavirkni geta verið sterkar vísbendingar um yfirvofandi eldgos. Með því að safna gögnum um jarðskjálftavirkni í eldstöðvum til lengri tíma er hægt að rannsaka og öðlast þekkingu á því hvernig þær haga sér og læra að þekkja þær breytingar í virkni sem líklega leiða til eldgoss. Jarðskjálftar í eldfjöllum eru oftast minni en þeir sem mælast í brotabeltunum, og verða varla stærri en M 5-6.

Hekla er eitt af virkustu eldfjöllum á Íslandi. Jarðskjálftavirkni þar er yfirleitt lítil en virðist aukast skyndilega fyrir gos. Fyrir gosið sem varð þar í febrúar árið 2000, mældist aukin jarðskjálftavirkni þar sem jarðskjálftahrina hófst aðeins rúmri klukkustund fyrir gos. Auk þess mældust verulegar breytingar á nærliggjandi þenslumælum svo hægt var að gefa út viðvörun til almennings um yfirvofandi gos hálftíma áður en það hófst. Í öðrum eldstöðvum eru dæmi um langvarandi innskotavirkni áður en kvikan nær yfirborði. Fyrir gosin í Eyjafjallajökli árið 2010 og í Holuhrauni-Bárðarbungu árið 2014 var t.a.m. hægt  að kortleggja og fylgjast nákvæmlega með ferðum kvikunnar í jarðskorpunni vikum og mánuðum fyrir gos með nákvæmum staðsetningum þeirra mörg þúsund jarðskjáflta sem mældust þegar kvikan braut sér leið í gegnum jarðskorpuna, auk landbreytinga sem mældust á GPS tækjum og InSAR gervihnattamyndum. Í Grímsvötnum hafa jarðskjálftar verið bæði langtíma-  og skammtímafyrirboði eldgosa. Fyrir síðustu gos þar hefur mælst aukin jarðskjálftavirkni a.m.k. ári fyrir gos og ákafari jarðskjálftahrina mælist klukkustundum fyrir gos.

Aukinn titringur í jörðinni sem mælist á jarðskjálftamælum er vanalega kallaður órói, eða aukinn órói. Við upphaf eldgoss mælist slíkur órói þegar kvikan er í þann mund að ryðja sér leið upp á yfirborð og þegar eldgos er hafið. Gosórói er venjulega meiri þegar gýs undir jökli (t.d. í Grímsvötnum) þar sem samspil kvikunnar og bráðnandi íss veldur aukinni sprengivirkni. 

mynd/photo

Sprungur komu í jarðveginn víða á Suðurlandi í jarðskjálfta 17. júní 2000. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Hvað veldur jarðskjálftum má sjá hér : http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/greinar/nr/388

Meira um stærð og áhrif jarðskjálfta má sjá hér:  http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/greinar/nr/215





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica