Íslensk eldfjöll
skaftá úr flugvél
Skaftárhlaup við Skál á Síðu, 2008.
1 2

Jökulhlaup

Jökulhlaup á Íslandi geta orðið þar sem vatn safnast í katla eða íshvelfingar á jarðhitasvæðum undir jökli, þar sem vatn safnast í lón við jökuljaðar eða þegar eldgos verður undir jökli. Stærstu hlaupin sem sögur fara af á Íslandi eru vegna eldgosa í Kötlu og hefur hámarksrennsli þeirra verið áætlað alt að 300.000 m³/s. Skaftárhlaup sem koma á eins til tveggja ára fresti eiga upptök sín á jarðhitasvæðum undir Vatnajökli í Skaftárkötlum. Stærð Skaftárhlaupa er breytileg, frá 100-200 m³/s upp í 1500 m³/s í stærstu hlaupum. Sem dæmi um hlaup úr jaðarlónum má nefna Grænalónshlaup en þau koma úr Grænalóni sem er jaðarlón við Skeiðarárjökul.

Starfsmenn Veðurstofu Íslands hafa um nokkurt skeið staðið að viðamiklum rannsóknum á Skaftárkötlum í Vatnajökli ásamt innlendum og erlendum samstarfsmönnum. Borað hefur verið niður í lónin undir 300 m þykkri íshellu beggja katlanna með bræðslubor, hitasnið mæld í lónunum og sýni tekin úr þeim til jarðefna- og örverufræðirannsókna. Fylgst hefur verið með jökulafkomu, ísskrið á safnsvæðum katlanna hefur verið mælt og lóðréttar og láréttar hreyfingar, auk þess sem nemar á botni lónanna hafa mælt vatnshæð.

Upptök Skaftár eru í Skaftárjökli í Vatnajökli austan við Langasjó. Undir Skaftárjökli er jarðhitasvæði þar sem vatn safnast í tvo katla. Meðalrennsli Skaftár við Sveinstind er um 50 m³/s en í stærstu hlaupum getur það farið í 1.800 rúmmetra á sekúndu. Að meðaltali hleypur úr kötlunum á tveggja ára fresti.

Skaftárhlaup 2008

Tvö jökulhlaup komu í Skaftá árið 2008, hið fyrra úr Vestari Skaftárkatli um miðjan ágúst og annað stærra úr Eystri Skaftárkatli um miðjan október. Við upphaf beggja hlaupanna barst viðvörun frá mælistöðinni við Sveinstind, sem tilheyrir vöktunarkerfi Veðurstofunnar.

Mæliferðir voru farnar nærri hámarki beggja hlaupanna að útfalli vestari kvíslar Skaftár við jökuljaðar. Nákvæmar mælingar voru gerðar á hitastigi hlaupvatnsins sem kom undan jöklinum, auk þess sem sýni voru tekin vegna örveru- og efnarannsókna. Hitastig hlaupvatnsins var einungis örfáum hundraðshlutum úr gráðu frá frostmarki. Þetta bendir til þess að undir jöklinum flæði varmi mjög ört úr flóðvatninu til umliggjandi ísveggja, því allur varmi í lónvatninu og sá varmi sem myndast vegna viðnáms í rennslinu hefur tapast þegar hlaupið kemur fram undan jökuljaðrinum. Styrkur brennisteinstvívetnis í andrúmslofti mældist yfir hættumörkum við útfallið í báðum hlaupunum og ekki var hægt að nálgast útfallið nema undan vindi.

Auk mælinga við jökuljaðar var fylgst með sigi íssins í kötlunum meðan á hlaupunum stóð með síritandi GPS tækjum. Síritandi GPS tæki voru einnig notuð til að fylgjast með hreyfingum íss á þremur stöðum á Skaftárjökli, yfir flóðfarvegi hlaupanna. Rennsli hlaupanna beggja, auk leiðni og ljósgleypni í hlaupvatninu, var að venju mæld við Sveinstind. Í seinna hlaupinu var þrisvar flogið yfir áhrifasvæði jökulhlaupsins og náðust mikilvægar myndir af svæðinu og sýna þær útbreiðslu hlaupsins á mismunandi tímum.

Upptök Skaftár
menn við á
Starfsmenn Veðurstofu Íslands, Bergur Einarsson og Tómas Jóhannesson, við upptök Skaftár í október 2008. Ljósmynd: Eyþór Guðlaugsson.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica