Greinar
Mynd 1. Ísland á mótum heitra og kaldra loftmassa.

Loftslagsbreytingar og vatnafar: Afleiðingar fyrir umhverfi og samfélag

Í tilefni af Degi vatnsins 22. mars 2014

22.3.2014

Hver er sérstaða vatnafars á Íslandi? Áhrif berggrunnsins eru mikil; dragár er að finna á blágrýtis- og grágrýtissvæðunum en lindár við hraun frá (jarðfræðilegum) nútíma. Íslensk vatnsföll skiptast þannig að 60% eru dragár, 20% lindár og 20% jökulár. Árstíðabreytingar rennslis eru nær engar í lindám en miklar í dragám og jökulám og jöklar og jökulár hafa mikil áhrif á vatnafarið.

Ísland er á mótum þar sem heitir og kaldir loftmassar takast á (mynd 1) og áhrif snævar eru mikil; á vetrum er mikið vatnsmagn geymt sem snjór en vorflóð verða þegar hlýnar. Lega landsins veldur því að hér er lægðagangur, umhleypingar og mikil úrkoma. Veðurstofan varðveitir gögn um alla þessa þætti og á vefnum má skoða afrennlis-, hita- og úrkomukort áratugi aftur í tímann ásamt frávikakortum.

Áhrif loftslagsbreytinga á jökla

Flestir mældir jöklar hafa hopað á síðasta áratug, nema framhlaupsjöklar, eins og sporðamælingar Jöklarannsóknafélagsins hafa leitt í ljós. Líkanreikningar benda til að flestir íslenskir jöklar hverfi að mestu leyti á næstu 100-200 árum. Nú þegar má sjá afgerandi merki um þessar breytingar á jöklum landsins, t.d. Snæfellsjökli og Sólheimajökli (mynd 2), og spár eru til hjá Jarðvísindastofnun um rýrnun Langjökuls og Hofsjökuls til 2100.

Mynd 2. Breytingar á Sólheimajökli. Inn á miðmyndina eru teiknaðar rauðar línur sem sýna yfirborð jökulsins eins og það var 1997, 2000 og 2003. Ljósmyndirnar tók Oddur Sigurðsson.

Áhrif loftslagsbreytinga á vatnsrennsli

Sem dæmi um væntanleg áhrif loftslagsbreytinga á afrennsli á Íslandi má skoða spá fyrir ársferill Jökulsár Austari (mynd 3). Árin 2021-2050 er gert ráð fyrir hærra meðalrennsli en 2001-2009, sem er aftur markvert hærra en 1961-1990.

Ársferill Jökulsár Austari
""
Mynd 3. Ársferill Jökulsár Austari. Bláa línan er meðalferill áranna 1961-1990. Rauða línan er meðalferill áranna 2001-2009. Grái flöturinn sýnir ýmsar sviðsmyndir fyrir árin 2021-2050.

Áhrif á vatnsorku

Hver verða áhrif hlýnandi veðurfars á vatnsorku á Íslandi? Aukning í afrennsli fyrir virkjuð vatnsföll er áætluð 27-84% fram til 2050. Þetta þýðir:

 • um 20% aukningu í mögulegri orku núverandi virkjana
 • að núverandi kerfi getur bara nýtt tæpan helming þessarar orku vegna takmarkaðrar miðlunar
 • að nota þarf niðurstöðurnar við endurhönnun og uppfærslu núverandi virkjana

Áhrif á sjávarstöðu

Hvað með sjávarstöðubreytingar? Gerðar hafa verið svæðisbundnar sviðsmyndir þar sem áætluð sjávarstaða árin 2081-2100 er borin saman við árin 1986-2005. Allir massar hafa aðdráttarafl og þegar Grænlandsjökull bráðnar minnkar aðdráttarafl hans og hafið dregst ekki eins að honum. Þetta þýðir að sjávarstaða hækkar minna við Ísland en búast má við, miðað við meðalhækkun á hnettinum.

Innviðir

Á hverju byggja þessar niðurstöður allar? Innviðirnir eru:

 • landsnet veðurs- og vatns, jöklamælingar
 • EUMETSAT gervitunglagögn um veður, vatn, jörð og haf (Ísland fullgildur aðili árið 2014)
 • ECMWF líkanreikningar á veðri og veðurfari (Ísland fullgildur aðili árið 2011)
 • háupplausnareikningar með veðurlíkönum
 • vatnafræðileg líkön

Um fjármögnun á landsneti vatnshæðarmæla náðist mjög góð sátt fyrir um 25-30 árum þar sem allir hagsmunaaðilar komu að borðinu og netið var síðan rekið heildstætt af Vatnamælingum Orkustofnunar og fylgdi þeim á hina nýju Veðurstofu Íslands. Hlutdeild í rekstri mælakerfisins 2014 er þannig: Grunnkerfi VÍ sem veitir grundvallarupplýsingar um vatnsbúskap á landinu er 34% og flóðavöktunarkerfi VÍ er 9%. Landsvirkjun, Suðurorka/IOVS, Rarik/Orkusalan, Orkubú Vestfjarða og Héraðsvötn ehf. kosta um 40% kerfisins en Reykjavíkurborg, Vegagerðin og Orkustofnun um 17%.

Það sem hefur gerst á undanförnum árum, þrátt fyrir aukið mikilvægi þessarar auðlindar, er að þetta kerfi hefur rýrnað umtalsvert eða um tæplega þriðjung síðan 2008.

Samantekt

 • Mikill breytileiki hefur alltaf verið í íslensku veður- og vatnafari.
 • Verulegar breytingar hafa orðið á undanförnum 15 árum. Þær breytingar eru mjög í þá átt sem framtíðarsviðsmyndir um veður- og vatnafar hafa lagt fram og staðfestar hafa verið með nýjustu IPCC skýrslunni AR5.
 • Mjög brýnt er að hlúa að innviðum þannig að mikilvæg gögn tapist ekki.
 • Sérstaklega þarf að hlúa að beinum mælingum á vatni og nýtingu þess en þar hefur verið umtalsverður samdráttur á undanförnum árum þó að mikilvægi vatnsauðlindarinnar hafi aldrei verið meira og skýrara.

Vatnið og orkan

Dagur vatnsins er 22. mars ár hvert. Af því tilefni var haldinn fundur með yfirskriftinni Vatnið og orkan í Hörpu 7. mars 2014. Skoða má upptökur af fundinum á veraldarvefnum (fjögur erindi og umræður).

Þar hélt Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, erindi um áhrif loftlagsbreytinga á vatnafar á Íslandi og reifaði breytingar á liðnum árum, líklegar breytingar í framtíðinni og áhrif á umhverfi og samfélag. Einnig ræddi hann mikilvægi innviða, ekki síst mikilvægi landsnets vatnamælinga. Þessi grein er útdráttur úr erindi hans.

Umfjöllunarefnið byggist á samstarfi Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands og Landsvirkjunar.

Skylt efni

Á vefnum má skoða lista yfir ýmsar greinar sem tengjast vatnafari, fróðleik og fréttir.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica