Greinar
Hörgárós 6. september 2000.

Afrennsli ferskvatns til sjávar á Íslandi

14.11.2013

Afrennsli ferskvatns af landi hefur áhrif á strandstrauma, seltu, hitastig, lagskiptingu og fleiri þætti í hafinu í kringum Ísland. Ferskvatnsrennsli við strönd er því nauðsynlegt jaðarskilyrði fyrir haffræðilíkön. Ekki eru til mælingar á heildarafrennsli Íslands en það hefur verið metið nokkrum sinnum í gegnum tíðina með mismunandi aðferðum.

Sigurjón Rist dró upp afrennsliskort af landinu á vatnsársgrundvelli (september til ágúst árið eftir) fyrir árin 1948 til 1955. Haukur Tómasson endurbætti og uppfærði síðan afrennsliskort Sigurjóns fyrir árin 1950 til 1975; hann notaðist við nýjar rennslismælingar og jarðfræðikort við mat sitt. Árið 2004 mat Gunnar Orri Gröndal einnig afrennsli landsins 1971 til 2000 út frá rennslisgögnum frá 30 mælistöðvum og flatarmáli vatnasviða (sjá heimildir 1, 2, 3).

Á árunum 2003 til 2007 var síðan lagt í mikla líkanreikninga á afrennsli alls landsins. Þetta verkefni var hluti af samnorræna Climate and Energy verkefninu (CE) og íslenska rannsóknar verkefninu Veður og Orka en bæði verkefnin miðuðu að því að meta áhrif loftslagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa. Afrennsli Íslands var reiknað fyrir árabilið 1961 til 1990 auk þess sem afrennslisspá var gerð fyrir árabilið 2071 til 2100 þar sem tillit er tekið til veðurfarssviðsmynda (sjá heimild 4).

Meðalafrennsli landsins fyrir árabilið 1961 til 1990 er 1460 mm/ári eða 4800 m³/s. Afrennslið er reiknað með svissneska vatnafræðilíkaninu WaSiM en það er reitskipt líkan sem reiknar afrennsli á 1x1 km neti út frá veðurgögnum og upplýsingum um landeiginleika. Veðurgögnin sem voru notuð við þessar keyrslur eru fengin úr reikningum með MM5 líkani Reiknistofu í Veðurfræði.

Sama aðferðafræði var svo notuð árið 2009 til að framlengja reiknað tímabil til ársins 2006 og reikna daglegar tímaraðir af afrennsli. Hvar afrennslið kemur fram við strönd var metið með skiptingu á landinu öllu í 46 vatnasvið sem ráðast af meginósum stór áa og til hvaða flóa og fjarða vatn rennur. Niðurstaðan úr þessari vinnu er mat á ferskvatnsrennsli við strönd í daglegri tímaupplausn.

Þetta mat á rennsli ferskvatns til sjávar, fyrir árabilið 1992 til 2006, er notað sem jaðarskilyrði fyrir haffræðilega líkanreikninga í nýlegri grein eftir Kai Logemann og fleiri (sjá einnig tengil í Úgáfu- og rannsóknahólfi á forsíðu). Töluverð afrennslisaukning er á milli tímabilanna 1961 til 1990 og 1992 til 2006 en fyrir seinna tímabilið er meðal afrennslið 1580 mm/ári eða 5150 m³/s. Stærstan hluta þessarar afrennslisaukningar má rekja til aukinnar jökulbráðnunar.

Meðalárssveifla afrennslis
Meðalárssveifla afrennslis af Íslandi fyrir tímabilið 1992 til 2006. Meðalárssveiflan er útjöfnuð með 15 daga hlaupandi meðaltali.

Heimildir

1. Rist, Sigurjón (1956). Íslenzk vötn. Reykjavík, Ísland, Raforkumálastjóri, Vatnamælingar.
2. a. Tómasson, Haukur (1981). Vatnsafl Íslands, mat á stærð orkulindar. Í Orkuþing 81. Erindi flutt á Orkuþingi 9., 10. og 11. júní, 1981 (Vol. 2). Reykjavík, Ísland, Orkustofnun.
2. b. Tómasson, Haukur (1982). Vattenkraft i Island och dess hydrologiska förutsätningar. Den nordiske hydrologiske konferense, NHK-82 Förde 28.–30. juni 1982 (OS-82059/VOS-10). Reykjavík, Iceland: Natinal Energyr Authority.
3. Gröndal, Gunnar Orri (2004). Mat á heildarrennsli íslenskra vatnsfalla 1971–2000 (OS-GOG-2004/04). Reykjavík, Ísland, Orkustofnun, Vatnamælingar.
4. Jónsdóttir, Jóna Finndís (2008). A runoff map based on numerically simulated precipitation and a projection of future runoff in Iceland. Hydrological Sciences Journal, 53(1), 100–111.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica