Ráðstefnur og fundir
litla_avik_2

Alþjóðlegur vinnufundur um vöktun jökla, íss og snævar

Veðurstofan hýsir í þessari viku fund um skipulag mælinga á jöklum, snjóhulu og hafís á vegum Alþjóða veðurmálastofnunarinnar (WMO).

Í tengslum við aukna umræðu um hlýnun jarðar hefur áhugi einkum aukist á áhrifum hlýnunarinnar á jökla, enda leiðir bráðnun þeirra til stöðugrar hækkunar sjávarborðs. Mælingar á snjóhulu fara víða fram á veðurstöðvum og eru að nokkru leyti samræmdar og vel er fylgst með útbreiðslu hafíss með gervitunglum. Mælingar á jöklum út um alla jörð eru aðeins að nokkru leyti samræmdar og mjög takmörkuð gögn eru til um sum jöklasvæði.

WMO hefur því sett á stofn vinnuhópa sem ætlað er að móta áætlanir um skipulag og samræmingu jöklamælinga til framtíðar á vegum vettvangsins Global Cryosphere Watch. Um 15 manns sækja fundinn, þ.á.m. jöklafræðingar Veðurstofunnar og Háskóla Íslands, sem kynna verkefni þessara stofnana á fundinum.

Orðið cryosphere hefur á íslensku verið þýtt sem freðhvolfið og vísar til freðins vatns í náttúrunni, þ.e. snævar, jökulíss, hafíss, sífrera og lagnaðaríss á vötnum og ám.Á þessari síðu er að finna ýmsa viðburði sem tengjast viðfangsefnum Veðurstofunnar.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica