Ráðstefnur og fundir

Alþjóðleg ráðstefna um kortlagningu jökla með leysimælingum

Dagana 20. og 21. júní 2013 verður haldin alþjóðleg ráðstefna um kortlagningu jökla með leysimælingum að Reykholti í Borgarfirði á vegum norræna rannsóknarverkefnisins SVALA (Stability and Variations of Arctic Land Ice). Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun HÍ standa að ráðstefnunni.

Ráðstefnuna sækja, auk Íslendinga, jöklafræðingar frá Norðurlöndunum, Bretlandi, Bandaríkjunum, Sviss, Austurríki og Þýskalandi, alls 40 þátttakendur.

Leysimælingar á jöklum eru stundaðar með tækjum sem komið er fyrir á jörðu niðri, í flugvélum og gervitunglum og gefa bestu kort af jöklum sem völ er á. Auk yfirborðskorta eru slíkar mælingar meðal annars notaðar til þess að meta rúmmálsbreytingar jökla, mæla hraða jökulskriðs, greina sprungusvæði og kanna jarðfræðileg ummerki í nágrenni jökla.

Nýlokið er kortlagningu flestra jökla á Íslandi með leysimælingum sem hófust á alþjóðalega heimskautaárinu 2007-2009. Meðfylgjandi mynd sýnir leysikort af Öræfajökli sem byggir á flugmælingu frá ágúst 2011.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vef Veðurstofunnar.


Á þessari síðu er að finna ýmsa viðburði sem tengjast viðfangsefnum Veðurstofunnar.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica