Ráðstefnur og fundir

Ráðstefna um jarðskjálfta á Norðurlandi

Ráðstefna á Húsavík 6. - 8. júní 2013

Upptök stórra jarðskjálfta á Norðurlandi eru að mestu úti fyrir ströndinni, á svæði frá Öxarfirði til Skagafjarðar sem teygir sig til norðurs allt að Kolbeinsey, og kallast Tjörnes-brotabeltið.

Í kjölfar jarðskjálftanna norður af Eyjafirði haustið 2012 hófu nokkrir jarðskjálftafræðingar og jarðeðlisfræðingar undirbúning að ráðstefnu í samráði við þá sem sinna almannavörnum. Ráðstefnan verður haldin dagana 6.-8. júní 2013 á Húsavík.

Ráðstefnan

Markmið ráðstefnunnar eru í stuttu máli:

  • Að kynna nýjar niðurstöður rannsókna sem tengjast Tjörnes-brotabeltinu
  • Að fara yfir stöðu þekkingar á skjálftasvæðinu
  • Að móta stefnu um rannsóknir og eftirlit til að auka skilning á aðdraganda og eðli hugsanlegs stórs jarðskjálfta á Norðurlandi.

Áhersla hefur verið lögð á að fá til fundarins þá vísindamenn, íslenska og erlenda, sem mest hafa rannsakað jarðskjálftasvæðið. Einnig hefur verið lögð mikil áhersla á að fá fólk sem lætur sig varða um almannavarnir og önnur viðbrögð við jarðskjálftahættu.

Meðal efnis verður jarðsaga svæðisins, plötuhreyfingar, skjálftavirkni, vöktun og rannsóknir, líkleg áhrif og afleiðingar stórs skjálfta á svæðinu í víðasta skilningi sem og viðvaranir og aðrar aðgerðir til að draga úr mögulegu tjóni á fólki og samfélagslegum innviðum.

Til ráðstefnunnar koma vísindamenn frá Ítalíu, Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Saudi Arabíu og Íslandi. Fyrstu tvo ráðstefnudagana, 6. - 7. júní verða haldin 36 erindi auk þess sem nokkrir vísindamenn sýna veggspjöld með niðurstöðum sínum. Vegna erlendra þátttakenda verða erindin og umræða þessa tvo fyrri daga á ensku.

Opið hús – kynning fyrir almenning

Fimmtudaginn 7. júní kl. 18 verður stuttur íbúafundur á vegum Þekkingarnets Þingeyinga í Þekkingarsetrinu á Húsavík. Nokkrir fyrirlesarar á ráðstefnunni munu segja almenningi frá markmiðum hennar og sitja fyrir svörum.

Fundur fyrir fólk af svæðinu

Laugardaginn 8. júní kl níu hefst fundur íslenskra vísindamanna og þeirra sem starfa að almannavörnum með þátttöku þess fólks af svæðinu sem lætur sig almannavarnir varða, m.a. úr sveitarstjórnum. Á þessum fundi, sem fer fram á íslensku, verður lagt á ráðin um:

  • rannsóknir og eftirlit til að auka skilning á aðdraganda og eðli hugsanlegs stórs jarðskjálfta á Norðurlandi
  • viðvörunarþjónustu jarðvísindamanna og viðbúnað almannavarna til langs og skamms tíma vegna hugsanlegra jarðskjálfta eða annarrar jarðvár
  • virk tengsl almannavarnafólks, vísindamanna og almennings

Upplýsingar

Skráning er hjá Þekkingarnetinu eða Grétu Bergrúnu Jóhannesdóttur (hac@hac.is, greta@hac.is). Upplýsingar um ráðstefnuna veitir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur (4663125, 8994805, raha@simnet.is).

Aðstandendur ráðstefnunnar eru: Háskólinn á Akureyri, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofa Íslands, KAUST, Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði við Háskóla Íslands, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Viðlagatrygging Íslands, Þekkingarnet Þingeyinga og Innanríkisráðuneytið.


Ragnar Stefánsson, Háskólanum á Akureyri

Sigurjón Jónsson, KAUST háskólanum í Saudi Arabiu

Páll Einarsson, Háskóla Íslands

Martin Hensch, Veðurstofu Íslands

Benedikt Halldórsson, Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði

Óli Halldórsson og Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, Þekkingarneti Þingeyinga


Á þessari síðu er að finna ýmsa viðburði sem tengjast viðfangsefnum Veðurstofunnar.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica