Íslensk eldfjöll
Jarðskjálftar í apríl 2015

Jarðskjálftar í apríl 2015

Í apríl mældust yfir 2000 jarðskjálftar með SIL skjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands. Flestir skjálftar áttu upptök í ganginum sem myndaðist í umbrotunum við Bárðarbungu. Vel á sjöunda hundrað skjálftar mældust þar, en hægt dregur úr virkninni.

Reykjanesskagi  

Ríflega 20 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjaneshrygg. Stærstu voru um þrjú stig. Á Reykjanesskaga mældust um 70 skjálftar á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum, þar af 30 á Krýsuvíkursvæðinu. Stærsti skjálftinn var 2,3 stig með upptök vestast á skaganum. Aðrir skjálftar voru minni en tvö stig.

Suðurland

Um 140 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Yfir 60 áttu upptök við Húsmúla við Hellisheiðarvirkjun, langflestir í tveimur hrinum 20. apríl og síðustu daga mánaðarins. Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig. Nokkur virkni var austan við Eiturhól á Mosfellsheiði, en þar mældust 14 skjálftar um og innan við eitt stig að stærð, flestir dagana 12. apríl.
Á Suðurlandsundirlendi mældust 70 jarðskjálftar. Upptakasvæði um 40 þeirra var við Vatnafjöll, austast á svæðinu. Þar hófst hrina 9. apríl með skjálfta af stærð 2,7. Nokkrir grunnir smáskjálftar mældust við Heklu. Aðrir skjálftar á undirlendinu voru allir minni en tvö stig, staðsettir á þekktum sprungum.
Að kvöldi 25. apríl mældust tveir skjálftar við Surtsey, 3,1 og 1,2 stig að stærð.

Norðurland

Um 300 jarðskjálftar voru staðsettir í Tjörnesbrotabeltinu norður af landinu. Yfir hundrað skjálftar mældust í hrinu norðaustan Grímseyjar sem stóð yfir síðustu viku apríl. Stærsti skjálftinn þar var 3,1 stig. Nokkur virkni var einnig suðaustan við Grímsey og smáhrinur urðu af og til í Öxarfirði, alls um 100 skjálftar. Á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu mældust um 60 skjálftar, stærstu um tvö stig.
Nokkur skjálftavirkni mældist norður á Kolbeinseyjarhrygg. Á fjórða tug smáskjálfta mældist á Kröflu- og Þeistareykjasvæðum, allir minni en 1,5 stig.

Mýrdalsjökull

Nálægt 100 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í apríl. Um þriðjungur átti upptök undir vestanverðum jöklinum, en hinir innan Kötluöskju, aðallega austan til. Allir skjálftarnir voru um og innan við 1,5 að stærð. Upptök nokkurra skjálftanna voru á miklu dýpi, um 20 kílómetra, undir austurhluta Kötluöskju. Þrír smáskjálftar, minni en eitt stig, mældust undir sunnanverðum Eyjafjallajökli. Yfir 30 skjálftar voru staðsettir á Torfajökulssvæðinu, stærsti 2,1 stig.

Hálendi

Flestir jarðskjálftar mánaðarins voru staðsettir í ganginum undir Dyngjujökli sem myndaðist í umbrotunum við Bárðarbungu. Vel yfir 600 skjálftar mældust þar, allir minni en tvö stig. Hægt og rólega dregur úr þessari virkni. Við Bárðarbungu mældust um 150 skjálftar, flestir með upptök við vesturbrún öskjunnar og stærsti 2,2 stig. Nokkrir djúpir skjálftar (15 - 20 kílómetrar) voru staðsettir suðaustan Bárðarbungu, þar sem gangurinn beygir til norðausturs.
Um 20 skjálftar voru staðsettir á Lokahrygg, austan Hamarsins. Stærstu voru um 1,5 stig.

Yfir 40 skjálftar mældust suður af Grímsvötnum, við Þórðarhyrnu og Háubungu. Allir voru minni en 1,5 stig. Aðrir skjálftar undir Vatnajökli, samtals um 20, áttu upptök norður af Skeiðarárjökli, við Esjufjöll, við Kverkfjöll og milli Skeiðarárjökuls og Öræfajökuls.

Við norðurenda Tungnafellsjökuls mældust um 20 skjálftar, stærsti 2,2. Þar hefur verið viðvarandi skjálftavirkni síðan umbrotin hófust í Bárðarbungu.

Um 250 skjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls. Um 40 voru staðsettir við Dyngjufjöll ytri, stærstu tæplega tvö stig. Um 60 skjálftar mældust við Öskju, flestir austan Öskjuvatns, og allir minni en 1,5 stig. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust um 130 skjálftar, stærstu 2,4 stig. Um tugur skjálfta var staðsettur norðan Upptyppinga, allir minni en eitt stig.

Í vestara gosbeltinu mældust um 40 jarðskjálftar í hrinu við Sandfell, um fimm kílómetrum norðan Geysis, að kvöldi 24. apríl. Stærstu voru tæp tvö stig.

Jarðskjálftar í apríl 2015 (pdf 0,3 Mb)






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica