Íslensk eldfjöll

Jarðskjálftar á Íslandi 2011

Ársyfirlit

Yfir 17.000 jarðskjálftar mældust með jarðskjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands árið 2011. Helstu atburðir á árinu voru eldgos í Grímsvötnum, aukin virkni í Kötlu, skjálftahrinur við Húsmúla og skjálftahrinur á Krýsuvíkursvæðinu. Sex jarðskjálftar mældust með stærðir um og yfir Ml 4, einn norður af Grímsfjalli í janúar, tveir við Kleifarvatn í febrúar, einn í Kötluöskju í október og tveir við Húsmúla einnig í október.

Reykjaneshryggur og -skagi

Á Reykjaneshrygg urðu nokkrar litlar skjálftahrinur með 10-25 skjálfta. Nokkrir skjálftar voru yfir þrjá að stærð. Þann 10. janúar mældist skjálfti Ml 3,5 suðvestur af Geirfugladrangi og skjálftaröð í byrjun ágúst hófst með skjálfta um Ml 3,5 við Geirfuglasker.

Langflestir jarðskjálftar á Reykjanesskaga áttu upptök á Krýsuvíkursvæðinu. Fram á haust mældust frá um hundrað til yfir tvö hundruð skjálftar á mánuði fyrir utan tímabilið frá 20. febrúar og fram í mars. Þá var mikil hreyfing á svæðinu vestan og sunnan við Kleifarvatn og um 1500 skjálftar mældust. Fyrstu dagana var um smáskjálfta að ræða, en 27. febrúar fóru þeir stækkandi (mynd 1). Tveir mældust um og yfir fjögur stig og fundust víða um sunnan og suðvestanvert landið. Yfir 650 skjálftar mældust þann daginn, flestir á þriggja til fimm kílómetra dýpi. Skjálftavirkni hélt áfram næstu daga og 2. mars mældist Ml 3,7 skjálfti með upptök rétt við Krýsuvíkurskóla. Næst stærsti atburðurinn á svæðinu á árinu var skjálftaröð 12. ágúst við vestanvert Kleifarvatn. Hún hófst með skjálfta Ml 3,1 og 130 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Aðalskjálftans varð vart víða á höfuðborgarsvæðinu. GPS mælingar sýna landris á Krýsuvíkursvæðinu.

Við Kleifarvatn
Mynd 1. Skjálftar við Kleifarvatn 27. febrúar - 6. mars 2011. Rauði sexhyrningurinn sýnir rismiðju samkvæmt GPS mælingum, en grænu stjörnurnar sýna staðsetningu stærstu skjálftanna.

Dagana 18. - 23. október var skjálftahrina suðvestan við Hafnaberg á Reykjanesi. Hátt í tvö hundruð jarðskjálftar mældust, allir þó innan við þrjá að stærð. Um miðjan ágúst mældust á fimmta tug skjálfta í hrinu austan og norðaustan Grindavíkur. Skjálftarnir voru frekar grunnir og stærstu fundust vel í Grindavík. Sá stærsti var Ml 3,4. Fyrir utan skjálftavirkni á Krýsuvíkursvæðinu, og hrinuna við Grindavík, mældust smáskjálftar af og til við Reykjanestá, Fagradalsfjall, Selsvallaháls, Brennisteinsfjöll, Heiðina há og Bláfjöll.

Suðurland

Langflestir jarðskjálftar á Hengilssvæðinu áttu upptök við Húsmúla. Skjálftarnir urðu vegna niðurrennslis affallsvatns í borholur við Hellisheiðarvirkjun. Fyrstu skjálftahrinurnar á svæðinu á árinu urðu í febrúar. Yfir hundrað skjálftar mældust, sá stærsti Ml 2,3. Engin veruleg virkni var næstu mánuðina, en í september jókst fjöldi skjálfta umtalsvert þegar teknar voru í notkun nýjar afrennslisholur við virkjunina. Slíkur fjöldi skjálfta hefur ekki mælst fyrr á svæðinu. Um 1500 skjálftar áttu þar upptök í september í hrinum, flestir um og innan við einn að stærð, en stærri skjálftar mældust einnig. Stærstu skjálftarnir fundust í Hveragerði og sá stærsti, Ml 3,4 þann 23. september, fannst einnig á höfuðborgarsvæðinu. Úrvinnsla bendir til þess að skjálftarnir raðist á a.m.k. 2-3 sprungur og að stefna þeirra sé austan við norður. Virkni hélt áfram í október en þá mældust alls um þúsund skjálftar, flestir í þremur hrinum (mynd 2). Tveir stærstu jarðskjálftarnir urðu 15. október og voru um fjögur stig. Þeir fundust vel víða um sunnan- og vestanvert landið. Nokkrir aðrir skjálftar í þessum hrinum fundust einnig, aðallega í Hveragerði. Í nóvember og desember  mældust svo um 1000 smáskjálftar, stærstu Ml  2,5, og þar af yfir hundrað í hrinu um miðjan desember.

Hengilssvæðið
Mynd 2. Hengilssvæðið. Afstæðar staðsetningar skjálfta síðustu fjóra mánuði ársins 2011. Upptök Ml 4 skjálftanna að morgni 15. október eru sýnd með tveimur ljósbláum stjörnum en svörtu sexstrendingarnir tákna borholur fyrir affallsvatn. Skjálftar eru litakóðaðir eftir tíma eins og kemur fram á línuritinu sem sýnir daglegan fjölda skjálfta stærri en Ml 0,2.

Smáskjálftavirkni var viðvarandi allt árið á syðri hluta Krosssprungu sem brotnaði í maí 2008.  Einnig var nokkuð um skjálftavirkni við Raufarhólshelli í Hjallahverfi í Ölfusi. Annars dreifðust skjálftar um Hengilssvæðið og Ölfus. Flestir skjálftar á Suðurlandsundirlendinu urðu á Hestvatnssprungu og svo  Holtasprungu, sem brotnuðu í júní 2000. Önnur skjálftavirkni var nokkuð dreifð á þekktar sprungur um undirlendið. Langflestir skjálftarnir voru innan við Ml 2 að stærð. Nokkrir smáskjálftar áttu upptök undir og í nágrenni Heklu á árinu en ekki varð vart við frekari virkni.

Nokkrir djúpir skjálftar mældust við Vestmannaeyjar og Surtsey á árinu. Þeir voru á 10-15 kílómetra dýpi og sá stærsti var Ml 2,4. Dagana 25. - 26. maí mældust fimm skjálftar á um 11-13 kílómetra dýpi á Selvogsgrunni, um 35 kílómetra suðsuðvestan við Þorlákshöfn. Þeir voru innan við Ml 2 að stærð.

Vestara gosbelti

Flestir jarðskjálftar í vestara gosbeltinu áttu upptök í suðvestanverðum Langjökli, undir Geitlandsjökli og Þórisjökli. Þann 12. febrúar hófst skjálftaröð við Þórisdal, sem liggur milli Þórisjökuls og Geitlandsjökuls. Aðalskjálftinn var Ml 3,7 að stærð og 20 eftirskjálftar mældust. Aðalskjálftinn fannst í Húsafelli, í um 16 kílómetra fjarlægð. Í júní urðu tvær skjálftahrinur aðeins norðar, undir Geitlandsjökli. Ríflega 120 skjálftar mældust, stærstu Ml 3,0 og 3,3. Skjálftadreifin myndar um fimm kílómetra langa þyrpingu með stefnu suðvestur-norðaustur.

Nokkrir skjálftar mældust undir hábungu Langjökuls, sá stærsti Ml  3,3. Nokkur skjálftavirkni var sunnan jökulsins við Sandfell, Skjaldbreið og Högnhöfða. Mest var um staka skjálfta að ræða en ein smáhrina varð 9. janúar við Sandfell, um þrjá kílómetra norður af Geysi í Haukadal. Stærsti skjálftinn var Ml 2,8. Norðaustan við Langjökul mældust skjálftar  við Hveravelli og Blöndulón. Nokkrir skjálftar mældust undir Hofsjökli á árinu, sá stærsti rúmlega þrjú stig.

Suðurjöklar

Fyrstu mánuði ársins voru flestir Mýrdalsjökulsskjálftar með upptök undir vestanverðum jöklinum. Í júní jókst skjálftavirkni innan Kötluöskju. Fyrstu viku júlí urðu fáir skjálftar en 8. júlí jókst virknin undir suðausturhluta öskjunnar. Órói á mælum í kringum Mýrdalsjökul fór vaxandi á hærri tíðnibilum og síðan einnig á lægri tíðni, þ.e. hlaupórói kom fram (mynd 3).  Snemma 9. júlí kom snöggt hlaup og sópaði burt brúnni yfir Múlakvísl, en vatnið reis um fimm metra á nokkrum mínútum. Seinni part sama dags hafði óróinn á skjálftamælum minnkað talsvert. Könnun á sigkötlum sýndi að umbrotin voru í suðurhluta Kötluöskju, á svipuðum stað og gaus 1918.

Hlaupórói
Mynd 3. Hlaupórói á mælum í kringum Mýrdalsjökul. Neðst er tímaskali og stærð skjálfta á tíma (stærri mynd).

Þann 18. júlí varð skjálfti í austanverðri Kötluöskju Ml  3,8, sem var með stærri skjálftum sem mælst höfðu á þessu svæði. Fjöldi skjálfta innan Kötluöskju var áfram mikill út árið eða 300 – 500 á mánuði og stærri skjálftar, um og yfir þrjá að stærð, mældust oft (mynd 4). Upptök skjálftanna innan öskjunnar voru aðallega í þremur þyrpingum: norðaustan til við Austmannsbungu, í sunnanverðri og vestanverðri öskjunni. Lítið hlaup kom í Múlakvísl 6. september og nokkrir tugir skjálfta fylgdu. Snarpasta skjálftahrinan varð 5. október í norðaustanverðri öskjunni, rétt sunnan við Austmannsbungu, þar sem stærsti skjálftinn var Ml 4. Einn skjálfti fannst í Vík og nágrenni 8. nóvember, en hann átti upptök sunnarlega í öskjunni og var Ml  3,5 að stærð. Í desember mældist enginn skjálfti stærri en Ml  2,5 og skjálftum fækkaði heldur seinni hluta mánaðarins.

Önnur virk svæði í Mýrdalsjökli voru við Goðabungu, rétt vestan við Kötluöskju og við Hafursárjökul, sem er lítill skriðjökull um fjóra kílómetra suður af Hábungu. Skjálftavirkni við Goðabungu var þó minni en fyrri ár. Skjálftar við Hafursárjökul komu fyrst fram seinni hluta júlímánaðar og var fjöldi þeirra yfir hundrað í ágúst en í desember fækkaði þeim verulega.

Undir Mýrdalsjökli
Mynd 4. Skjálftar undir Mýrdalsjökli 2011 (sjá skala efst t.v). Skjálftamælar eru merktir með þríhyrningum og útlínur Kötluöskju eru sýndar. Einnig eru sigkatlar eru merktir með tölustöfum (frá Magnúsi T. Guðmundssyni).

Fyrstu mánuði ársins var nokkuð um smáskjálfta undir Eyjafjallajökli en síðan mældust örfáir. Viðvarandi skjálftavirkni var allt árið á Torfajökulssvæðinu. Allir skjálftar voru innan við Ml 2,5 að stærð.

Vatnajökull

Í maí varð eldgos í Grímsvötnum sem stóð í um það bil viku. Þann 21. maí jókst órói á jarðskjálftamælum á svæðinu og tíu mínútum seinna hófst skjálftavirkni sem átti upptök í Grímsvötnum. Skjálftum fjölgaði mjög ört og var virknin mest fyrstu tvo tímana. Gosórói fór stighækkandi og náði hámarki rúmlega klukkutíma eftir að hann kom fram. Upptök flestra skjálftanna voru um 3-4 kílómetra suðvestur af skálanum á Grímsfjalli og mældust stærstu skjálftarnir um Ml 3,5. Gosið var mjög öflugt fyrsta sólarhringinn og fór gosmökkur upp í allt að 20-25 kílómetra hæð. Síðan dró úr gosvirkninni og 25. maí mældist gosmökkurinn síðast á ratsjá. Á sama tíma snöggminnkaði gosóróinn og hvarf alveg af mælum að morgni 28. maí (mynd 5). Stuttu eftir að gos hófst og næstu daga var aukin skjálftavirkni á Lokahrygg norðvestan við eldstöðina.

Órói - samanburður
Mynd 5. Gosórói á skjálftamælum á Grímsfjalli í Grímsvatnagosum 2011 og 2004 á mismunandi tíðnibilum. Einnig eru sýndir skjálftar á tíma í súluriti undir hvorri mynd. Sjá stærri mynd.

Í júlí varð smáhlaup með upptök við Hamarinn sem barst niður í Hágöngulón. Þann 12. júlí kom óróahrina fram á mælum, mest á Grímsfjalli og Skrokköldu (mynd 6). Óróinn bar merki jökulhlaups, þannig að grannt var fylgst með mælingum á leiðni og rennsli á vatnamælum Veðurstofunnar. Óróinn náði hámarki næstu nótt og næsta morgun kom í ljós að hækkað hafði um 70 sentímetra í lóninu. Aðeins einn skjálfti var mælanlegur í þessari óróahrinu, en 8. - 10. júlí mældust átta jarðskjálftar austur af Hamrinum og var sá fyrsti þeirra stærstur eða Ml 2,6.

Hlaupórói
Mynd 6. Hlaupórói á skjálftamælum á Grímsfjalli og Skrokköldu 12.-14. júlí 2011.

Einnig hljóp úr vestari Skaftárkatli í lok júlí. Merki sáust um aukna leiðni á mælum í Skaftá við Sveinstind fyrir hlaupið. Enginn hlaupórói kom fram á jarðskjálftamælum í nágrenninu enda hlaupið lítið og fyrirstaða hugsanlega lítil þar sem hljóp úr þessum sama katli 2010.

Dagana 21.-24. ágúst mældust átta skjálftar suðaustan við Hvannadalshnjúk, stærsti Ml 2,2. Frá upphafi stafrænna skjálftamælinga (1991) hafa mælst á sjötta tug skjálfta í Öræfajökli og næsta nágrenni. Ef aðeins er skoðuð skjálftavirkni innan öskju eldstöðvarinnar eru skjálftarnir þar tæplega 30 talsins og hafa þeir ýmist orðið stakir, tveir og tveir saman eða hrina nokkurra skjálfta eins og nú. Aðrar slíkar hrinur urðu í desember 2005 og september 2008.

Undir Vatnajökli öllum mældust yfir þúsund skjálftar. Hátt á annað hundrað átti upptök undir og í nágrenni Bárðarbungu, rúmlega 200 við Kistufell og svipaður fjöldi undir Hamrinum og Lokahrygg. Undir Kverkfjöllum mældust á annað hundrað skjálftar, nokkrir tugir undir Öræfajökli og nokkur hundruð við Grímsvötn auk annarra sem dreifðust um jökulinn. Stærsti skjálftinn í Vatnajökli varð 13. janúar, um það bil einn kílómetra norður af Grímsfjalli, og var hann rúmlega Ml 4.

Nyrðra gosbelti

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust tæplega þúsund skjálftar. Um helmingur átti upptök við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Á annað hundrað varð við Öskju, flestir við austanverðan öskjubarminn, og rúmlega hundrað við Hlaupfell, norðan Upptyppinga. Engar stærri skjálftahrinur mældust. Einhver virkni var við Dyngjufjöll ytri, mest frá miðjum apríl og út fyrstu viku af maí og í október. Þess utan dreifðust skjálftar um svæðið.

Smáskjálftar mældust af og til við Kröflu og Þeistareyki allt árið líkt og fyrri ár. Engar skjálftahrinur mældust.

Norðurland

Á þriðja þúsund jarðskjálfta mældust á árinu norður af landinu í Tjörnesbrotabeltinu. Stærsti varð 24. nóvember rétt austan við Grímsey. Hann var Ml 3,3 að stærð og mældist í hrinu um 70 skjálfta. Þessi fremur litla hrina var mesta skjálftahrinan sem mældist á árinu í beltinu. Skjálftavirkni er yfirleitt mikil við Grímsey, undir Öxarfirði og úti fyrir mynni Eyjafjarðar.

Þann 2. desember mældist skjálfti í Vaglafjalli um það bil 14 kílómetrum austan Akureyrar. Þessi staðsetning er óvenjuleg og ekki vitað til að þar hafi mælst skjálfti áður. Skjálftinn var rúmlega Ml 3 og fannst á Akureyri. Fjórir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið og nokkrir skjálftar mældust á sama stað síðar í mánuðinum. Þann 23. september varð jarðskjálfti af stærðinni Ml 2,4 með upptök 10 kílómetra norðaustur af Varmahlíð í Skagafirði. Hann fannst í næsta nágrenni.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica