Íslensk eldfjöll
kort af suðvesturlandi - gult nærri Selfoss - litir dofna til allra átta
Áhrifakort 29. maí 2008.

Stærð og áhrif jarðskjálfta

Þegar jarðskorpan brotnar undan uppsafnaðri spennu leysist ákveðin orka úr læðingi. Oftast breytist mestöll orkan í hreyfiorku, sem breiðist út með jarðskjálftabylgjum. Í jarðskjálftamælingum er reynt að meta þessa orkuútlausn og tengja við hana tölu sem segir til um stærð, eða styrkleika, skjálftans.

Þar sem mælipunktar eru frekar fáir og útbreiðsla orkunnar er háð legu brotflatarins getur verið nokkuð erfitt að meta nákvæmlega hversu mikil orkuútlausnin var. Margar aðferðir hafa verið þróaðar til meta þetta og þær verða margbreytilegri eftir því sem tækninni fleytir fram.

Fyrstur til að búa til stærðarkvarða fyrir skjálfta var Bandaríkjamaðurinn Charles Richter og er Richterskvarðinn kenndur við hann. Seinni tíma aðferðir hafa flest allar verið aðlagaðar þessum fyrsta kvarða og gefa því tölur af líkum toga. En vegna þess hve margar mismunandi aðferðir eru notaðar við stærðarákvarðanir um þessar mundir er hægt að finna nokkrar tölur um stærð hvers skjálfta. Tilgreina verður fyrir hverja tölu hvaða aðferð hefur verið beitt til að ná henni fram.

Annar kvarði, sem notaður er til að meta áhrif skjálfta, er Mercalli kvarðinn, sem nær frá 0 til 12. Hann gefur til kynna áhrif skjálftans á mismunandi svæðum og er háður fjarlægð frá upptökum hans. Til að birta gildi Mercalli kvarðans eru gjarnan teiknuð kort sem sýna hvernig áhrifin dvína með fjarlægð.

Í annarri fróðleiksgrein er birt skýringarmynd til að varpa ljósi á það hvað veldur jarðskjálftum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica