Hættumatskort
Líkur á því að mengun frá Holuhrauni fari yfir tiltekin þröskuldsgildi brennisteins
Meðan á eldgosinu í Holuhrauni stóð (ágúst 2014 – febrúar 2015) kom upp gríðarlegt magn af gastegundum sem streymdu út í andrúmsloftið. Heildarmagn SO2 hefur verið metið 11 Mt (+/- 5 Mt) úr öllu gosinu (Gislason et al., 2015).
Brennisteinsdíoxíð, SO2, getur haft áhrif á heilsu manna og dýra ef það er til staðar í háum styrk. Af þessari ástæðu var Veðurstofan beðin að gera hættumatskort vegna SO2 mengunar við jörð, bæði staðbundið og svæðisbundið. Kortin voru framleidd með því að keyra gasdreifingarlíkanið CALPUFF með íslenskum veðurgögnum.
Síðan notaði Almannavarnadeild RLS kortin til þess að ákvarða breytilegt lokunarsvæði umhverfis gosstöðvarnar og hraunflæmið, bæði meðan á gosinu stóð og eftir það.
Nokkuð fljótt voru gerð bráðabirgðakort sem byggðust á veðurgögnum eins mánaðar en þau voru aðeins fyrir 50% og 90% líkur.
Nú hafa verið gerð kort sem byggjast á tíu ára veðurgögnum frá evrópsku reiknimiðstöðinni í veðurfræði, ECMWF, og árangurinn varð betri hættumatskort sem taka tillit til árstíða. CALPUFF líkanið var staðlað með SO2 flæðigögnum úr DOAS vöktunarkerfinu (Gislason et al., 2015).
Ný hættumatskort byggð á veðurgögnum síðastliðin tíu ár
Hvort kort um sig, hér undir, sýnir líkurnar á því að styrkur SO2 við jörð fari - í heila klukkustund - upp fyrir ákveðið þröskuldsgildi á viðkomandi stað. Þröskuldsgildin eru gefin upp í skýringunum vinstra megin við kortið (blátt, feitletrað) og einnig í myndatextanum undir kortinu. Litakóðinn gefur upplýsingar um mismiklar líkur (undir 1% hefur engan lit).
Við framleiðslu kortanna var beitt 10 ára veðurgögnum og reiknað hver styrkurinn yrði við jörð á hverri klukkustund með CALPUFF gasdreifingarlíkaninu.
Niðurstöðurnar eru bæði settar fram á ársgrundvelli og með tilliti til árstíða (árið eða vorið). Annað kortið er svæðisbundið (Ísland) en hitt er staðbundið (norðvestanverður Vatnajökull).
Tölugildi innan sviga á svæðisbundna kortinu (Ísland) gefa upp hversu oft sumar mælistöðvar Umhverfisstofnunar (gráir hringir) mældu hærri styrk en þröskuldsgildið sem kortið vísar í. Þar er um að ræða klukkustundarmeðalstyrk brennisteins, SO2.
Fyrir hvaða stað sem er á landinu, hversu líklegt er það að klukkustundarstyrkur SO2 fari yfir þröskuldinn 350 µg/m³ miðað við breytileika vindátta á ársgrundvelli? (stækka kortið hér fyrir ofan)
Í nágrenni Holuhrauns, hversu líklegt er það að klukkustundarstyrkur SO2 fari yfir þröskuldinn 2600 µg/m3, miðað við breytileika vindátta á vorin eða tímabilið mars-maí? (stækka kortið hér fyrir ofan)
Eldri kort byggð á eins mánaðar keyrslu gasdreifingarlíkansins
Vaxandi fjarlægð frá gosstöðvunum skilgreinir nokkur hringlaga og sammiðja hættusvæði. Innan hvers svæðis eru metnar líkur á því að mengunin fari yfir viðtekin þröskuldsgildi, sjá töflu Umhverfisstofnunar. Annað kortið nær yfir mestallt landið og skilgreinir hættusvæði miðað við 50% líkur á magni umfram þröskuldsgildi. Á hinu kortinu er athyglinni beint nær gosstöðinni og miðað við 90% líkur á magni umfram þröskuldsgildi.
Best er að nota kortin á eftirfarandi hátt: Finna sína staðsetningu og nota litakóðann til að finna þau skilyrði sem ríkja þar. Dæmi: Ef staðsetningin er innan svæðisins sem afmarkað er af dökkgulum hring, þá eru vissar líkur á að skilyrðin séu varasöm. Ef innan ljósgula, þá viðunandi; ef innan rauða eru skilyrði óholl.
Kort miðað við 50% líkur á styrk umfram þröskuldsgildi (stækkanlegt).
Kort miðað við 90% líkur á styrk umfram þröskuldsgildi (stækkanlegt).