Greinar
Tæknilega mögulegt vatnsafl: Dynjandi.
1 2

Afrennsliskort og möguleikar til raforkuvinnslu

Erindi á fundi Samtaka raforkubænda 2013

17.4.2013

Afrennsliskort

Afrennsliskort gegna mikilvægu hlutverki í rannsóknum á vatnsauðlindinni og eftirliti með henni. Meðal annars má nota þau við kortlagningu á möguleikum vatnsafls.

Vatnafræðilíkanið WaSiM hefur verið notað undanfarin ár á Veðurstofu Íslands við gerð afrennsliskorta en fjölþættur ávinningur er af slíku líkani fyrir starfsemi stofnunarinnar. Líkanið nýtir m.a. veðurfarsupplýsingar, eiginleika jarðvegs og yfirborðs og landhæðargögn til þess að áætla afrennsli vatnsfalls. Með líkaninu má til að mynda lengja rennslisraðir, fylla í eyður í gögnum og meta afrennsli vatnsfalla án vatnshæðarmæla.

WaSiM líkanið og afrennsliskortin eru í stöðugri þróun og hafa ýmsar úrbætur verið gerðar, til dæmis er varðar virkjun grunnvatnshluta líkansins, notkun inntaksgagna með hærri upplausn, betri eftirlíkingu af frosinni jörð að vetri, árstíðabundnum snjóbráðnunarstuðlum, nákvæmari nálgun á uppgufun, betri eftirfylgni með heildar vatnsjöfnuði, hraðvirkari keyrslur og hálfsjálfvirka kvörðun líkansins. Þessar úrbætur og fleiri til hafa bætt notkun WaSiM líkansins til muna og er nú unnið að því að endurgera afrennsliskort með bættum aðferðum og forsendum.

Afrennsliskortin eru meðal annars notuð til kortlagningar tæknilega mögulegs vatnsafls á Íslandi.

Tæknilega mögulegt vatnsafl

Tæknilega mögulegt vatnsafl er fáanlegt heildarvatnsafl miðað við fullkomna nýtni og án þess að gert sé ráð fyrir neinum takmörkunum, svo sem vegna verndarsvæða. Við útreikning vatnsafls þarf að meta bæði rennsli og fallhæð. Til að reikna fallhæð eru notuð rastagögn úr ArcGIS gagnagrunni Veðurstofunnar. Rennsli er metið með aðstoð vatnafræðilíkansins WaSiM sem líkir eftir daglegum meðalgildum rennslis á reglulegu reiknineti.

Við kortlagningu vatnsafls er bæði er gert ráð fyrir miðluðu og ómiðluðu rennsli með því að nota mismunandi hlutfallsmörk á langæislínu sem rennslismat. Tæknilega mögulegt vatnsafl er reiknað fyrir hverja einingu sem staðsett er í rennslisfarvegi innan reikninets með 25 m upplausn.

Niðurstöður hafa þegar verið birtar fyrir nokkur vatnasvið, sem tæknilega mögulegt heildarvatnsafl, en einnig á kortum sem vatnsafl eftir árfarvegum. Þær nýtast fyrir rannsóknir á tæknilega mögulegu vatnsafli og nýtanlegu vatnsafli, einkum fyrir smávirkjanir.

Erindi frá Veðurstofu Íslands, Afrennsliskort og möguleikar til raforkuvinnslu (pdf 0,8 Mb), var flutt á aðalfundi Samtaka raforkubænda sem fram fór á Kirkjubæjarklaustri þann 13. apríl 2013.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica